Aronskan er útbreiddust.

Greinar

Höfundur nýbirtrar skoðanakönnunar um varnarliðið og Atlantshafsbandalagið segir drýgindalega í innganginum, að þetta sé “fyrsta fræðilega spurningarannsóknin” á íslenzkum stjórnmálaviðhorfum. Eins og svo margir telur hann sig þurfa að lasta aðra til að hrósa sjálfum sér.

Höfundurinn er þó ekki fræðilegri en svo, að hann birtir ekki mælikvarða sinn á stjórnmálaáhuga hinna spurðu, þótt hann sé með töflur um “mikinn”, “nokkurn”, “lítinn“ og “engan“ áhuga á stjórnmálum. Það sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Eigi að síður er skoðanakönnun hans afar mikilvæg, einkum af því að hún staðfestir fyrri kannanir um sama efni og gerir það með öðrum aðferðum. Þurfa menn því ekki lengur að efast um, hvernig þjóðin skiptist í afstöðunni til varnarliðsins og Atlantshafsbandalagsins.

Í könnun, sem gerð var fyrir sextán árum, 1968, kom í ljós, að 63% þjóðarinnar studdu dvöl varnarliðsins og 37% voru á móti. Árið 1980 voru hlutföllin 64% og 36%. Og í fyrra fann DV, að hlutföllin voru 64% og 36%. Í nýbirtu könnuninni eru hlutföllin einnig 64% og 36%.

Þótt margir kjósendur hafi andazt og aðrir náð kosningaaldri á þessum sextán árum, hafa viðhorfin í heild ekki breytzt. Komin er festa á það hlutfall, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar styðji dvöl varnarliðsins og einn þriðji hennar sé dvölinni andvígur.

Fyrir sextán árum voru 73% þjóðarinnar fylgjandi aðildinni að Atlantshafsbandalaginu. Í fyrra mældi DV þessi hlutföli 79% og 21%. Og í nýbirtu könnuninni eru hlutföllin 80% og 20%. Fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru og hafa verið stuðningsmenn aðildarinnar.

Það eru heldur ekki nýjar fréttir, að meirihluti þjóðarinnar styðji svokallaða aronsku og vilji hagnast með einhverjum hætti á dvöl varnarliðsins. Samkvæmt nýbirtu könnuninni fer þessi hópur vaxandi frekar en hitt og telur nú um 63% þjóðarinnar á móti 29%, en 9% hafa blendna afstöðu.

Aronskan hefur stuðningsmenn meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka og bæði meðal þeirra, sem eru með og á móti varnarliðinu og Atlantshafsbandalaginu. Hlutfallslega fjölmennastir eru þeir þó meðal þeirra, sem styðja þessar stofnanir og flokkana, sem þær styðja.

Hugsjónirnar að baki núverandi stöðu eru samkvæmt þessu ekki öflugar. Að vísu eru öflugri hugsjónir með en móti Atlantshafsbandalaginu. En hugsjónir með varnarliðinu eru ekki öflugri en þær, sem eru á móti. Hinir hugsjónadaufu eru fjölmennasti hópurinn.

Sumir styðja til dæmis dvöl varnarliðsins, þótt þeir telji hervarnir ekki nauðsynlegar hér á landi. Telja þeir þá væntanlega, að Keflavíkurflugvöllur sé eftirlitsstöð, en ekki varnarstöð og að rétt sé að veita bandalagsþjóðum slíka aðstöðu hér á landi.

Þessir menn munu telja sig raunsæja frekar en hugsjónamenn. Það gildir auðvitað einnig um þá, sem styðja aronskuna. Þeir telja, að fyrir greiðasemi Íslendinga við bandalagsþjóðirnar megi koma gjald, enda sé Keflavíkurflugvöllur frekar í þágu þeirra en okkar.

Þar sem allir stjórnmálaflokkarnir hafa barizt gegn hugmyndum af þessu tagi, er athyglisvert, að ný skoðanakönnun skuli staðfesta, að aronskan er útbreiddasta skoðunin í viðhorfum Íslendinga til varnarmála. En það eru hins vegar engar nýjar fréttir.

Jónas Kristjánsson.

DV