Einokun eykst.

Greinar

Landbúnaðarmafían fullyrðir, að hækkun kjarnfóðurgjalds úr 19% í 89% sé tilraun til að draga úr offramleiðslu á mjólk. Ekki er aðgerðin þó áhrifameiri en svo, að í undirbúningi er aukin mjólkurframleiðsla á búi framleiðsluráðsmannsins á Hálsi og ráðherrans í Seglbúðum.

Hægt er að benda á mun áhrifameiri aðgerðir til að minnka mjólkurframleiðsluna. Til dæmis mætti hætta að niðurgreiða áburð með hinu fáránlega lága orkuverði til Áburðarverksmiðjunnar. Ennfremur mætti einfaldlega lækka verð til neytenda á mjólk og mjólkurvörum.

Kjarnfóðurgjald hefur hins vegar fyrst og fremst áhrif á framleiðslu eggja, kjúklinga og svína. Í þessum greinum er langmest notað af kjarnfóðri. Hin gífurlega hækkun gjaldsins mun einkum hafa þau áhrif, að egg, kjúklingar og svínakjöt hækka í verði.

Þegar landbúnaðarráðherra ákveður að stórhækka kjarnfóðurgjaldið samkvæmt tillögu Framleiðsluráðs hinna hefðbundnu greina landbúnaðarins, er hann fyrst og fremst að reyna að færa neyzlu frá kjarnfóðurgreinunum yfir í hinar hefðbundnu greinar kúa og kinda.

Um leið er stefnt að auknum tökum landbúnaðarmafíunnar á bændum í ræktun svína og alifugla. Það gerist á þann hátt, að hluta kjarnfóðurgjaldsins er skilað til baka í verkefni, sem njóta náðar mafíunnar. Við höfum þegar séð dæmið af eggjadreifingarstöðinni.

Í Kópavogi er verið að reisa stöð fyrir peninga, sem neytendur hafa í rauninni greitt, því að það eru þeir, sem að lokum borga kjarnfóðurgjaldið í hærra vöruverði. Að þessari stöð standa hinir þægari eggjabændur, sem eru þóknanlegir hinum einokunarsinnuðu.

Ætlunin er að þröngva hinum óþægari eggjabændum smám saman inn í þessa stöð. Niðurstaðan á að vera, að “jafnframt yrði undirboðum hætt”, svo sem einn blaðafulltrúa mafíunnar játaði í nýlegri lofgrein um eggjadreifingarstöðina. Fá orð hans segja langa sögu.

Einokunarlið landbúnaðarmafíunnar vill koma eggjaframleiðslu í sama ofsadýra skipulagið og ríkir í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins. Það vill hindra, að stórtækir eggjabændur geti blómstrað með tækni og hagræðingu og lækkað eggjaverð í landinu.

Athyglisvert er, að á tímum, þegar frjálsræði fer vaxandi á ýmsum sviðum, er einokun að færa út kvíarnar á öðrum sviðum. Á sama ári og miklar sprungur hafa myndazt í einokun á kartöflum er verið að koma á fót einokun í eggjum, þar sem áður ríkti frelsi.

Furðulegt er, að sex ráðherrar Sjálfstæðisflokksins skuli ekki geta haldið aftur af einokunarstefnu landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Í þessum ráðherrum á þjóðin ekki nokkra vörn, þegar hagsmunir landbúnaðarmafíunnar eru í húfi. Þá blaktir einokunin.

Neytendur hafa enga pólitíska vörn í eggjastríðinu, sem einokunarliðið hefur blásið til. Hið eina, sem þeir geta gert, er að treysta á sjálfa sig. Þeir geta hafnað eggjum einokunarinnar og eingöngu keypt egg frá hinum frjálsu, sem enn hafna fjötrunum.

Alveg eins og í kartöflunum geta neytendur brotið eggjaeinokunina á bak aftur. Það mundu neytendur í útlöndum gera, ef þröngva ætti upp á þá einni dreifingarstöð með einu verði. Þeir geta neitað að skipta við einokunarstöðina, sem landbúnaðarmafían er að þröngva upp á þá.

Jónas Kristjánsson.

DV