Bakgrunnur-Götublöð

Fréttir
Bakgrunnur
Götublöð

Blaðamenn byggja tvenns konar bakgrunn þekkingar:
1) Almennur. Það er þekkingin, sem hann öðlast í starfi, byggð á miklum lestri og mikilli reynslu.
2) Sértækur. Sértækar upplýsingar hjálpa blaðamanni, til dæmis að vita um dóma einstakra dómara, þar sem annar dæmir í fangavist en hinn dæmir skilorðsbundið; eða til að vita um, að valdamaður hefur áhuga á hærra verði á þjónustu.

Þess er vænst, að blaðamaður viti allt. Við vitum samt, að fagmenn eru mistækir. Þegar þú skrifar, segir þú allt, sem þú veist. Og til að vita allt, þarftu að hafa áhuga á óvenjulega víðu sviði þekkingar.

David Cay Johnston hjá New York Times sagði: “Fyrsta sem ég sá, var að flestir blaðamenn í skattamálum eins og í öðrum málum, unnu eins konar “… sagði hann” eða dadada blaðamennsku. Þeir vitnuðu rétt í fólk, en vissu lítið um málin.

Mark Twain segir um blaðamenn: “Ég segi þér, að ég hef unnið á ritstjórn í 14 ár og það var í fyrsta skipti, sem ég heyrði um, að menn þyrftu ekki að vita neitt til að ritstýra blaði.

Gulrótin þín! Hver skrifar leikhúsrýni fyrir lélegt blað? Hópur skósmiða og lærlinga í lyfsölu, sem vita eins mikið um góða leiklist og ég veit um góðan landbúnað og ekkert umfram það. Það er fólk, sem aldrei hefur skrifað leikrit.

Hverjir skrifa þunga leiðara um fjármál? Aðilar sem hafa haft mikil tækifæri til að vita ekkert um þau. … Hverjir skrifa um bindindismál? Menn, sem munu aldrei draga andann ódrukknir, fyrr en kannski í gröfinni.”

H.L. Mencken fjallar um blaðamenn: “Flestir þeirra, í öllum borgum landsins, eru fífl og sumir þeirra rónar líka. Þekkingin í haus þeirra er siðmenningarlega gagnslaus. Það er ekki þekking fagmanns, heldur lögreglumanns eða póstmanns.

Hún er full af smámunum og merkingarleysu. Ef ég ætti að rekja það allt, mundu jafnvel rakarinn og barþjónninn biðjast vægðar. Það vantar allt, sem er þess virði að vita það, allt sem lýtur að almennri þekkingu menntaðra manna.

Til eru ritstjórar tugum saman, sem hafa aldrei heyrt um Kant og hafa aldrei lesið stjórnarskrána, fréttastjórar, sem vita ekki, hvað er sinfónía eða streptókokkur eða prentréttur, blaðamenn, sem kæmust ekki í Harvard eða Yale.

George Bernard Shaw skrifaði bréf til blaðamanns: “Kæri herra, atvinna þín hefur að venju eyðilagt heilabúið.” En hann sagði líka: “Ekkert nema blaðamennska mun lifa af sem bókmenntir. Látum aðra um bókmenntir. Fyrir mig: Blaðamennska.”

Á að vænta þess, að blaðamaður þekki leikrit Shakespeare, sögu eigin lands, heim lista, hvernig eigi að reikna prósentu eða hlutfall eða finna hágildið í runu af tölum? Mun það fæla nýliða í burtu, ef svarið hlýtur að vera játandi.

Almenn þekking er nauðsynlegur bakgrunnur blaðamanns. Stöðugt þarf að bæta við þessa þekkingu. Blaðamenn þurfa að hafa alls konar atriði á hraðbergi. Þeir eiga að vita um tíu hæstu plöturnar og hvort það er ríki eða bær, sem rekur skólana.

Þrjár skilgreiningar á bakgrunni:
1) Þekkingarsafn blaðamannsins, sem verður til á löngum tíma.
2) Efni, sem sett er í söguna og skýrir þar atburðinn.
3) Efni, sem heimild vill ekki láta bera sig fyrir.

Frank Magid sagði: “Margir, sem kalla sig blaðamenn og starfa við staðbundið sjónvarp, hafa alls enga hugmynd um sagnfræði, landafræði, stjórnmálafræði, hagfræði og önnur atriði, sem hver upplýstur maður á að vita eitthvað um.”

Þekking fólks var könnuð:
1) Færri en 20% vissu um Joyce, Dostojevski, Ibsen.
2) 36% vissu, að Chaucer skrifaði Canterbury Tales.
3) 37% vissu um samhengi Jobs og þolinmæði í þjáningu.
4) Færri en 25% vissu, að Lincoln var forseti á bilinu 18601880.
5) 33% gátu tímasett borgarastríðið á tímabilinu 18501900.
6) 57% gátu tímasett síðara heimsstríðið á bilinu 19001950.
7) 30% vissu, hvað er Magna Carta.

Í bakgrunni blaðamannsins sjálfs er víðtækt safn þekkingar, sem hefur fengist með lestri, margs konar reynslu og símenntun. Á þessum kletti rísa fréttir. En blaðamaður þarf líka sértæka þekkingu á sérsviði sínu innan blaðamennskunnar.

Öll þessi þekking hjálpar blaðamanni, sem fer að skoða verksmiðjubruna. Hann tekur eftir, að hún er í íbúðahverfi. Þess vegna fer hann og kannar, hvort gert sé ráð fyrir verksmiðju í skipulagi hverfisins.

Gina Kolata hjá New York Times las vísindagrein, sem var svo þvoglukennd, að enginn skildi hana. En hún áttaði sig á, að greinin fjallaði um mikilvægt mál, niðurstöður tilraunar á klónun dýra.

Framsýn blaðamennska byggist á þekkingu. Blaðamaður áttar sig á ferli í samfélaginu og getur á réttum tíma fundið heimildir, sem hafa mikilvæg atriði fram að færa. Margt hefur ekki tekist, menn sáu ekki fyrir sér sovéthrunið.

Blaðamaður, sem tekur eftir, að ár eftir ár er mikill halli á reikningum stofnunar, veit, að einhvern tíma í náinni framtíð verður mikill hvellur út af því og að grípa þarf til sársaukafulla aðgerða. Hann skrifar fréttina á réttum tíma.

Framsýn blaðamennska er ekki sama og spáblaðamennska. Sá sem spáir um framtíð, er að geta sér til um hana. Sá er framsýnn, sem sér fram á veg, notar gögn og staðfestingar og hleypur ekki að órökstuddum fullyrðingum spámannsins.

Netsprengingin, fjölgun tímarita og umræðusýningar í sjónvarpi hafa leitt til bylgju af sjúskaðri blaðamennsku. Bilið hefur líka minnkað milli gulrar pressu og meginstraums fjölmiðla. Wall Street Journal var á kafi í framhjáhaldi Clintons.

Í Lewinskymálinu slógu meginstraumsmiðlar gulu pressunni við í hneykslisfréttum. Mikið fór á prent og í ljósvaka af óstaðfestum fullyrðingum, sem síðan reyndust vera rangar. Þetta hefur haft slæm áhrif á álit almennings á fjölmiðlum.

Til sögunnar hafa komið miðlar á vefnum, sem ekki hafa fyrir því að sannreyna fullyrðingar, heldur varpa fram hvers konar slúðri. Fremstur fer þar Matt Drudge, sem nýtur mikilla vinsælda og hefur raunar líka skúbbað réttum fréttum.

Dæmi úr Lewinskymálinu:
Los Angeles Times: “Fólk, sem þekkir til málsins, segir …”
Washington Post: “Heimildir, sem þekkja til málsins, segja …”
Wall Street Journal: “Lögreglumaður og óstaðfestar heimildir segja …”
Chicago Tribune: “Ef satt reynist”
Dallas Morning News: “Heimildir segja …”
Larry King: Laug frétt upp á New York Times, sem ekki var þar.
Víða féllu orð á borð við “óstaðfestar heimildir” og “venjulega áreiðanlegar heimildir”.

Mörgum fannst Wall Street Journal fara flatt í Lewinskymálinu og blaðið baðst raunar afsökunar á verstu fréttinni, viðurkenndi að hún væri lygi. Einnig þótti mörgum sem 60 Minutes á CBS hefði ofkeyrt sig á þessu máli.

David Halberstam um Lewinskymálið: “Það var versta ár bandarískrar blaðamennsku síðan ég fór í þá grein fyrir 44 árum. Það er óþægilegt, að gagnrýnendur hennar hafa sumir rétt fyrir sér. Svokallaðir blaðamenn hafa niðurlægt stéttina.”

Í leyniskyttumálínu í Washington 2002 var mikið um getgátur í fjölmiðlum, sumar fáránlegar. Birtar voru ónákvæmar og rangar upplýsingar. 52% aðspurðra töldu miðlana hafa farið illa að ráði sínu og 67% töldu þá hafa hvatt leyniskyttuna.

Þrátt fyrir gagnrýnina út af leyniskyttumálinu má þó ekki gleyma, að sjónvarpið sagði, að lögreglan væri að leita að tveimur grunuðum í bláum Chevy Caprice 1990 og gaf upp bílnúmerið, gegn vilja lögreglunnar. Og þannig náðist í mennina tvo.

Í bókinni er fjallað um JonBenét Ramsey morðið, þar sem myrt var barn, sem hafði farið í fegurðarsamkeppni barna. Erfitt er að átta sig á ýmsum skoðunum á því máli, bæði með og móti fjölmiðlunum. Vísast til bókarinnar sjálfrar.

Í því máli kom í ljós hringrás blaðamennskunnar. Upplýsing birtist fyrst á einum stað, til dæmis á internetinu. Vitnað er til þess í sjónvarpi eða gulri pressu. Síðast taka meginstraumsdagblöðin upplýsinguna upp. Upplýsingin reyndist röng.

Á ráðstefnum vestan hafs er nú spurt: Eru fréttastofnanir að lækka staðalinn og er almenningur að snúast gegn sjónvarpi eða er sjónvarpið að gefa almenningi það, sem hann vill fá að vita. Er sjónvarpið farið að líkjast blöðum í stórmörkuðum?

Andrew Lack: “Ég get mér þess til, að áhorfendur slafri þetta í sig, af því að þessar fréttir eru hrein skemmtun.” Bókarhöfundur túlkar þetta svo, að fólkið vilji fremur skemmtun en fréttir og þess vegna gefi sjónvarpið því skemmtun.

Kovach og Rosenstiel segja, að blandast hafi saman skemmtun, fréttaskemmtun (infotainment), álitsgjafir, rannsóknir, gul pressa og meginstraumsmiðlar í einn graut. Sumt sjónvarp er meira í áltisgjöfum en fréttum til að fylla tímann ódýrt.

Þetta hefur aukist með internetinu, segja Kovach og Rosenstiel: “Heil fyrirtæki á borð við MSNBC hafa verið byggð upp utan um álitsgjafa og framkallað nýjan fjölmiðil, sem felst í álitsgjafaútvarpi í sjónvarpsformi.”

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé