Kokkarnir í Fiskfélaginu í Grófinni höfðu full tök á faginu á hádegi í gær. Karfinn var passlega pönnusteiktur. Meðlæti flókið, fjórfalt gulrótaþema, smáar gulrætur, rifnar gulrætur, gulrótafroða og gulrótasósa. Svo og tvenns konar kartöflur, pönnusteiktar og stappaðar. Heildarbragðið var ljúft og ég sleikti nánast restina af diskinum. Jafnvel espresso-kaffið var fínt, en sushi var í lausari kantinum. Fiskfélagið er með Sjávargrillinu og Friðriki V eitt matarhúsanna, sem ég hef mestar mætur á og sæki reglulega. Sjaldan verð ég þar fyrir vonbrigðum og staðurinn er nú betri en nokkru sinni fyrr.