Tvíhöfða óvinur útgerðar.

Greinar

Til lengdar getur ekki gengið að halda sjávarútveginum í núverandi bóndabeygju. Útgerð og fiskvinnsla verða að fá tækifæri til að halda áfram að vera hornsteinn atvinnulífs þjóðarinnar, því að annan hornstein höfum við ekki, að minnsta kosti ekki í náinni framtíð.

Tvo óvini á sjávarútvegurinn. Í fyrsta lagi stjórnvöld margra síðustu ára, sem hafa með ýmsum fyrirgreiðslum látið flotann vaxa of mikið. Og í öðru lagi núverandi stjórnvöld, sem halda niðri tekjum sjávarútvegsins til að auðvelda sér baráttuna við verðbólgu.

Með ofsetningu skipa á fiskistofnana er verið að búa til eins konar landbúnaðarvanda í sjávarútvegi. Skipunum verður að fækka sem skjótast, svo að jafnvægi náist milli sóknar og stofna og sjávarútvegurinn nái sínu eðlilega ástandi sem arðbær atvinnuvegur.

Kvótakerfinu hefur ekki tekizt að minnka flotann. Þvert á móti virðist það stuðla að áframhaldandi útgerð sem flestra skipa. Ekki bætir úr skák, að sala kvóta og önnur tilfærsla þeirra hefur sætt skaðlegum hömlum og óréttmætri gagnrýni sem eins konar spilling.

Ef kvótakaup fengju að ýta verstu taprekstrar-útgerð- inni úr spilinu, mætti ætla, að róðurinn léttist hjá hinum. Afkoma sjávarútvegsins yrði betri en hún er nú. Og alls ekki má efla vitleysuna með uppbótum og millifærslum eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera.

Stuðningur við hinn vonlausa hluta sjávarútvegsins hefur svo búið til hina sérkennilegu stöðu, að sumir fullyrða, að lækkað gengi krónunnar hjálpi ekki útgerðinni. Þessi kenning er dæmi um, hversu annarlegt ástandið getur orðið, jafnvel í sjávarútvegi.

Útgerðin er sögð svo skuldug í erlendum gjaldeyri og sögð nota svo mikla olíu í erlendum gjaldeyri, að gengislækkun hjálpi henni ekki. Þetta gildir auðvitað ekki um venjulega útgerð, heldur eingöngu um útgerð grínistanna, sem gera út á ríkisstjórn og opinbera sjóði.

Þar með er líka komið að hinum þættinum, sem heldur sjávarútveginum niðri. Ríkisstjórnir, sem berjast við verðbólgu, telja sig þurfa að halda gengi krónunnar stöðugu. Það er skynsamlegt upp að vissu marki, en getur líka orðið dýrkeypt, þegar það gengur út í öfgar.

Í erfiðu varnarstríði gegn verðbólgu kemur oft að því, að ríkisstjórnir neita að viðurkenna, að baráttan hefur ekki borið árangur og atvinnulífið hefur skekkzt. Þá er áfram haldið dauðahaldi í stöðugt gengi til að varðveita þá ímyndun, að baráttan standi enn.

Þetta gerist alltaf á kostnað sjávarútvegsins. Atvinnugrein, sem í eðli sínu er hin arðbærasta, stendur andspænis hraðvaxandi skuldasúpu. Ríkisstjórnir reyna af veikum mætti að bjarga málum í horn með millifærslum og uppbótum. Sú heimska er einmitt að gerast núna.

Ríkisstjórnir eru hinn tvíhöfða óvinur sjávarútvegsins. Þær draga skóinn niður af útgerðinni með því að auðvelda auralausum grínistum að kaupa óþörf og skaðleg skip. Og þær láta sjávarútveginn greiða herkostnaðinn af mistökunum í baráttunni við verðbólgu.

Ef sjávarútvegurinn fengi að njóta eðlilegrar stærðar, ekki of mikillar, og ef hann fengi jafnan rétt gjaldeyrisskil fyrir afurðir sínar, ekki of lág skil, – þá sæist fljótlega, að í eðli sínu er hann hagkvæmasti, arðbærasti og öflugasti atvinnuvegur þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV