Þjóðargjöfin étin enn.

Greinar

“Þegar flogið var með áburðinn, mátti víða sjá árangur baráttu við auðn og grjót, en vinsæll er blessaður nýgræðingurinn hjá sauðfénu, því víða var það að naga hann og helzt þar, sem hann er rétt að koma upp úr urðinni og er á viðkvæmu stigi.”

Þessi nýlega lýsing í dagblaði er eftir fréttaritara, sem fékk að fara í áburðarflug með Landgræðslu Íslands frá Aðaldalsflugvelli. Hann fór með sjálfboðaliðum úr hópi flugmanna Flugleiða, sem hafa kauplaust unnið að þessu í sumarleyfum í nokkur ár.

Í öðru dagblaði stóð um daginn: “Hafsteinn sagði þann 000 hektara blett, sem Landgræðslan hafi sáð í á Eyvindarstaðaheiði í fyrra og í vor, nú alveg hvítan af fé. Þetta er eins og í réttum, alveg kind við kind. … svo verður þetta nauðnagað fyrir veturinn.”

Alþingismenn Íslendinga samþykktu í þjóðernisvímu á ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar fyrir tíu árum að klæða landið gróðri á nýjan leik. Hefja átti skipulega endurgreiðslu á skuld við landið, sem safnazt hafði upp á ellefu alda skógarhöggi og ofbeit.

Síðan hafa menn unnið þindarlaust, sumir á kaupi og aðrir kauplaust, við stórvirka dreifingu fræs og áburðar úr lofti. Árangurinn hefur hins vegar ekki orðið sá, sem til var stofnað. Þjóðargjöfin mikla frá 1974 hefur verið notuð til að fjölga búfé á afréttum.

Hinn hefðbundni landbúnaður á Íslandi hefur étið þjóðargjöfina jafnóðum til að auka framleiðslu á óseljanlegum afurðum, sem losnað er við með óheyrilegum útflutningsuppbótum og niðurgreiðslum. Sjálft landið hefur verið svikið um hina frægu þjóðargjöf.

Fyrir nokkrum árum leiddu umfangsmiklar beitarrannsóknir í ljós, að gróður á afréttum er á hröðu undanhaldi. Stjórnandi þeirra sagði: “Rannsóknir okkar benda til, að það sé of margt sauðfé í landinu eins og dreifingu þess er háttað nú, jafnvel allt að þriðjungi of margt.”

Síðast í ár kom í ljós, að Auðkúluheiði var aðeins fær um að bera búfé, sem svarar til 10.500 ærgilda í stað 20.000 ærgilda beitarþunga, sem heiðin sætti í raun. Þar hefur verið sáð í um 700 hektara af þeim 3.000, sem Landsvirkjun tók að sér til að fá að virkja við Blöndu.

Þannig fara greiðslur Landsvirkjunar ekki til að græða upp land í stað þess, sem fer undir stíflulón. Það fer til að auðvelda bændum að halda áfram á sama tíma og fiskalíf fer að kvikna í nýjum vötnum.

Framkvæmdastjóri Landgræðslu ríkisins sagði í blaðagrein í þessari viku, að menn væru sammála um, “að alvarleg ofbeit hafi verið á Eyvindarstaðaheiði um árabil. Margítrekuðum aðvörunum og leiðbeiningum um gróðurverndaraðgerðir hefur ekki verið sinnt sem skyldi …”.

Þessa dagana eru gildir bændur í Húnaþingi og Skagafirði að reka hross sin á Eyvindarstaðaheiði og Auðkúluheiði, þótt gefin hafi verið út reglugerð um bann við slíku. “Það verður þröngt í tugthúsinu”, sagði formaður þingflokks framsóknarmanna borginmannlega um þann rekstur.

Þjóðin og landið virðast ekki eiga neina vörn gegn ofbeldismönnum, sem eru staðráðnir í að nota hugsjónafé þjóðargjafarinnar og mútufé Blönduvirkjunar til að auka framleiðslu afurða, sem kosta skattgreiðendur tíunda hluta ríkisútgjaldanna og ekki er hægt að koma í verð.

Jónas Kristjánsson

DV