Lög og reglur

Fréttir
Lög og reglur

Takmarkanir á störfum blaðamanna hafa minnkað. Fátt er bannað, en spurning er um ýmis siðræn viðhorf. Sumt af því, sem áður var viðurkennt, þykir núna vafasamt. Myndir af fólki, ráðast þær á einkalíf þess?

Lög um meiðyrði og dómvenja um verndun einkalífs takmarka svigrúm blaðamanna.
1) Meiðyrði. Yfirleitt afleiðing gallaðrar blaðamennsku. Dómstólar eiga að sýkna blaðamenn, ef ummæla þeirra eru rétt, en það gera þeir þó ekki alltaf.

Blaðamenn þurfa að þekkja meiðyrðalögin. Þeir þurfa að gæta þess að hafa rétt fyrir sér, að hafa ekki haft illt í huga og að gæta sín á orðavali. “Hann stal” er betra en “hann er þjófur”. Miðlar segja, hvað gerðist, en dæma ekki í málum.

“Falskt ljós” er hugtak, sem nær yfir meiðyrði, er felast í, að mynd og hljóði er blandað saman á þann hátt, að út úr því komi skekkt mynd af einhverjum. Þetta reynist ljósvakamiðlum raunar hættulegra en hefðbundin meiðyrðamál.

Dæmi: Óviðkomandi mynd af fjölmenni fylgdi grein um sjúkdóminn herpes. Í upprunalega pakkanum, sem sýndur var kl.6, þekktist enginn. Í fréttum kl.11 var búið að blása myndina upp og sýna ákveðna konu, sem kærði. Hún vann málið.

2) Einkalíf. Dómstólar túlka frið fyrir ágangi hins opinbera í vaxandi mæli sem frið fyrir ágangi allra aðila, fyrst tölvubanka og nú síðast fjölmiðla, einkum ef þeir fjalla um aðra en stjórnmálamenn, það er frægðarfólk og taka myndir af því.

47% af málum á hendur ljósvakamiðlum snúast um brot á friðhelgi fólks. Myndir af því eru sýndar með fréttum af óskyldum málum. Þetta sýnir, að losaraleg og óvarkár vinnubrögð í gerð fréttatíma hafi verið bandarískum stöðvum mjög dýr.

Góð regla fréttamanns er að sýna öðrum það siðferði, sem þeir sjálfir krefjast af öðrum í efni sínu. Þeir verða að meta siðfræði hinna ýmsu aðferða, sem komið hafa til greina í rannsóknablaðamennsku.

Í Bandaríkjunum verða kærendur að sýna fram á, að ummæli í fjölmiðlum séu röng, hér þurfa blaðamenn að sýna, að þau séu rétt. Þar þurfa kærendur að sýna fram á, að þau séu með illum huga, en hér þurfa blaðamenn að sýna fram á góðan vilja.

Meiðyrðamálum hefur fækkað hér á landi og eru þau mjög fá. Kærum vegna truflunar á einkalífi fer hins vegar fjölgandi. Nokkur mál á hverju ári eru afgreidd utan dómstóla hjá siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Blaðamenn þurfa að vera vissir um, að maður eða fyrirtæki hafi sætt ákæru til að geta fullyrt slíkt. Það jafngildir ekki ákæru, að saksóknari sé að velta henni fyrir sér eða sé að safna gögnum í hana.

Góð er regla Pulitzer: “Nákvæmni, nákvæmni, nákvæmni.” Hún dregur úr líkum á, að blaðamaður sæti ákæru fyrir meiðyrði. Hún dregur hins vegar ekki úr líkum á, að hann sæti ákæru fyrir ágangi á einkalíf fólks. Málskostnaður er hár í USA.

Einkalíf skiptir máli, þegar blaðamaður setur einstakling í rangt kastljós í augum fólks, þegar hann birtir viðkvæmar upplýsingar úr einkalífi hans, þegar hann fer inn á verndað svæði, svo sem heimili, til að afla frétta eða taka myndir.

Fyrir utan rof á heimilisfriði, á blaðamaður sér málsvörn í fréttnæmi málsins. Ekki er bann við að fylgjast með persónu á opinberum svæðum, en truflun af hálfu papparassa getur hugsanlega valdið eftirmálum. Þó tæpast í Bandaríkjunum.

Meiðyrðalög snúast um verndun æru og virðingar manna. Blaðamenn hafa þar vernd í sannleikanum. Einkalífslög snúast um verndun sálarfriðar og tilfinninga fólks, réttinn til að fá að vera í friði. Blaðamenn hafa þar ekki vernd í sannleikanum.

Dómstólar í Bandaríkjunum eru ekki beinlínis andvígir fjölmiðlum. Hæstiréttur þar leyfði birtingu myndar af fáklæddri konu á flótta frá eiginmanni sínum, taldi myndina hafa upplýsingagildi um slík mál. Hér eru dómstólar andvígir fjölmiðlum.

Í þekktum dómsorðum vestra segir, að það sé ekki röskun á einkalífi, ef 1) persónan sé fréttnæm vegna stjórnmála eða frægðar og 2) ef birting þjónar tilgangi og er ekki móðgandi fyrir persónu, sem er ekki viðkvæmari en gengur og gerist.

Skoðanakannanir sýna, að fólk er andvígt truflun á einkalífi. Meirihlutinn telur fjölmiðla oft eða stundum vera seka um það. Meirihlutinn telur, að blaðamenn eigi að sæta dómsmáli fyrir að trufla einkalíf fólks. Fólki finnst það óviðeigandi.

Símahleranir, segulbandsupptökur og myndatökur í leyni geta leitt til dómfellingar. Almenningur í Bandaríkjunum var afar andvígur fréttum fjölmiðla um framhjáhald Clinton forseta með Moniku Lewinsky og vildi ekki horfa á þær.

Meiðyrðamál stafa oftast af:
1) Aðgæsluleysi.
2) Ýkjur eða hrifnæm skrif.
3) Skoðanir ekki reistar á staðreyndum.
4) Ekki nógu góð sannreynsla.
5) Látið undir höfuð leggjast að tala við hinn umrædda.

Birta skal leiðréttingu strax, það er ekki vörn, en það dregur úr skaðabótum.

Umdeildar rannsóknir:
1) Má fréttamaður þykjast vera hjúkka til að komast inn á gamalmennahæli?
2) Má fréttamaður segja þjálfara, að hann sé að skrifa um þjálfun, þegar hann er í raun að skrifa um eiturlyf og fjárhættuspil?
3) Má fréttamaður þykjast vera vanfær til að fá upplýsingar hjá samtökum gegn fóstureyðingum?
4) Má fréttamaður fá sér starf í stórverslun til að skoða meðferð matvæla? Þessi dæmi eru öll raunveruleg.

Jim Polk segist aldrei villa á sér heimildir, aldrei leika hlutverk annarra, né nota aðra þá tækni, sem hann telur siðferðilega vafasama. Polk: “Okkar bisness er sannleikurinn og þú nærð honum ekki með því að beita bellibrögðum.”

Polk segist þó leika eitt hlutverk, almennings. Hann fer í skrifstofu dómhúss og heimtar að fá skjal, en skrifar ekki starfsheitið fréttamaður á pöntunina. Hann segist mega gera það, sem almenningur má gera. Hann er raunar almenningur.

John Spain segist aldrei hafa notað rannsóknablaðamennsku sem leyfi til að brjóta lög eða siðareglur. Heppilegast sé að koma beint fram að fólki og segja því, hver þú sért. Hann hefur getað stundað rannsóknir án þess að leika hlutverk.

Robert McKeown segir, að allir hafi ómeðvitaða tilfinningu um rétt og rangt. Fréttamenn hljóti að vera andvígir yfirstétt og valdhöfum. “Þú verður að ögra þessu fólki, annars eru fréttir þínar árangurslausar.”

Fréttamenn nota stundum faldar myndavélar og hljóðnema, til dæmis í þáttum á borð við 60 Minutes. Þar eru menn að leika sér að eldinum. Frægt mál varð á Prime Time Live, sem varð að borga stórfé fyrir að hafa sýnt myndir af meðferð á matvælum.

Nokkur dæmi eru rakin í bókinni um siðferðisleg spursmál:
1) Líknarmorð í beinni útsendingu (Kevrokian).
2) Myndir sýndar af sóðaskap í matvinnslu.
3) ABC setur gildru fyrir lögreglumenn.
4) Notkun hersins á eiturgasi.
5) Frammistaða George W. Bush í heimavarnarliðinu.

Síðusti áratugurinn hefur verið rannsóknablaðamennsku erfiður, sérstaklega í sjónvarpi. Stöðvar hafa tapað málum og orðið að semja utan dóms. Margir fréttamenn virðast telja 1. viðbót við stjórnarskrána vera nánast sakaruppgjöf.

Vaclav Havel sagði: “Og alltaf löngu áður en ég fer að sofa minnist ég þessara orða bandaríska dómarans, sem sagði, þegar hann stýrði réttarhöldum yfir dagblaði vegna ógeðslegs slúðurs:

Öll sú fáránlega vitleysa sem bandarísk blöð birta er lítill, nauðsynlegur og ómerkilegur skattur, sem við borgum fyrir hina mikilfenglegu, fögru og lífsnauðsynlegu gjöf, sem felst í tjáningarfrelsinu.”

Frá frelsisstríðinu og fram að afsögn Nixon voru bandarískir dómstólar yfirleitt hliðhollir fjölmiðlum. Síðan þá hafa komið dómar, sem benda til, að sumir dómstólar vilji takmarka getu fjölmiðla til að rannsaka hneykslismál.

Sumar árásir dómstóla á fjölmiðla hafa snúist um kröfur um, að þeir gefi upp nafnlausa heimildarmenn sína. Fjölmiðlarnir hafa hins vegar verið slíku algerlega andsnúnir og eiga í stímabraki við dómstóla út af þessu, t.d. New York Times.

Almenningur hefur töluvert fylgt þeirri aldagömlu reglu að kenna sendiboðanum um ótíðindi. Dómarar hafa fullyrt, að fyrri úrskurðir hafi víkkað svigrúm blaðamanna of mikið. Þeir hafa verið fúsir til að staðfesta takmörk við aðgangi fjölmiðla.

Paul K. McMasters sagði: “Það eru viðhorf of margra embættismanna, að opinber gögn séu þeirra eign og ekki eign almennings.” Ritstjórafélagið þar segir: “Allt of mikill tími fer í að verja stjórnarskrárbundin réttindi blaðamanna.”

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé