Næstsíðasta vígið nærri fallið.

Greinar

Mismunandi tilkynningar bankanna um hærri og fjölhreyttari vexti benda til, að aukið vaxtafrelsi muni leiða til aukinnar samkeppni um sparifé landsmanna. Þær vekja vonir um, að einhvern tíma komist á jafnvægi milli framboðs á fjármagni og eftirspurnar.

Þegar raunvextir sex mánaða reikninga eru komnir upp í 10% í sumum bönkum, er fengin ástæða til að reikna með, að margir þeir, sem valið geta milli sóunar og sparnaðar, velji hið síðara. Þar með fást meiri peningar til ráðstöfunar handa síþyrstum lántakendum.

Að vísu eiga þessir raunvextir í harðri samkeppni við útsöluna á erlendum gjaldeyri, sem nú stendur yfir. Sú útsala freistar til kaupa á erlendum varningi og til ferðalaga í útlöndum. Peningarnir, sem fara í það, verða ekki lagðir inn á hagstæða bankareikninga.

Það er því rangt, sem einn bankastjórinn sagði, að síðasta vígi verðbólgunnar væri fallið með aukna vaxtafrelsinu. Fremur má kalla það næstsíðasta vígið. Síðasta vígi verðbólgunnar er traustara en nokkru sinni fyrr, hornsteinn stjórnarstefnunnar, sjálft fastagengið.

Núna felst verðbólgugróði í, að menn nota sér sem bezt útsöluverðið á erlendum gjaldeyri, meðal annars til að sitja uppi með gróða, þegar fastgengisstefnan springur í loft upp einhvern tíma eins og hún hefur alltaf gert. Og eftir lengra hlé verður jarðskjálftinn harðari.

Aukna vaxtafrelsið er ekki þáttur í markvissri stjórnarstefnu um að láta markaðinn leysa ofstjórn af hólmi. Markaðurinn fær að vísu meiri áhrif í bankakerfinu, en hann hefur ekki fengið tækifæri til að reyna að koma á jafnvægi milli íslenzks og erlends gjaldeyris.

Þetta ástand dregur úr, að árangur aukins vaxtafrelsis verði eins skjótur og mikill og æskilegt væri. Enn eru ýmsar freistingar á ferð, sem í mörgum tilvikum verða yfirsterkari viljanum til að hagnast á raunvöxtum. En spor hefur alténd verið stigið í rétta átt.

Ekki er þó fullur sigur unninn á þessu næstsíðasta vígi verðbólgunnar. Mörg áhrifamikil öfl í stjórnmálunum eru algerlega andvíg þeirri hækkun raunvaxta, sem óhjákvæmilega fylgir auknu vaxtafrelsi. Þessi öfl eru enn hávær og hafa ekki gefizt upp í stríðinu.

Vonandi sjá æ fleiri þó, að raunvextir geta hækkað núna, þegar eftirspurn er mun meiri en framboð á fé, framkvæmdir fyrir lánsfé eru miklar og atvinnuástand er ótrúlega gott. Það er greinilegt, að hærri vextir hafa ekki haldið aftur af athafnavilja manna.

Vonandi sjá líka æ fleiri, að raunvextir geta hækkað núna, þegar innflutningur og önnur notkun gjaldeyris er miklu meiri en ráð var fyrir gert og miklu meiri en hollt er. Viðskiptajöfnuðurinn gagnvart útlöndum er of óhagstæður og skuldasöfnun í útlöndum of mikil.

Búast má við, að næsta framhald hins aukna bankafrelsis felist í minnkuðum möguleikum stjórnmálamanna á að halda í forréttindavexti. Þegar afurðalánin hverfa inn í bankana í haust, virðist óhjákvæmilegt, að þar verði líka teknir upp samkeppnishæfir vextir.

Og þá eru bara eftir sjóðir Framkvæmdastofnunar og ýmsir stofnlánasjóðir. Til dæmis verður forvitnilegt að vita, hve lengi deildir Framkvæmdastofnunar komast upp með að gefa gæluverkefnum og vildarvinum peninga, þegar aðrir hlutar bankakerfisins eru að verða heilbrigðir.

Jónas Kristjánsson.

DV