Gætum okkar á gæludýrum.

Greinar

Tvær af gæluverksmiðjum hins opinbera eru nú í byggingu, steinullarverið á Sauðárkróki og stálverið á Vatnsleysuströnd. Samt linnir ekki deilum um gildi þessara verksmiðja. Í nýlegum blaðagreinum tveggja af helztu starfsmönnum Verzlunarráðs eru þær taldar varhugaverðar.

Stálverið hefur oftast ekki verið talið með í hópi hinna vafasömu ráðagerða í iðnþróun, enda aldrei hugsað sem atvinnubótatæki fyrir ákveðinn þéttbýlisstað eins og steinullarverið, sykurverið, pappírsverið, trjákvoðuverið og öll hin verin, sem menn hafa látið sér detta í hug.

Hagur stálversins þótti vænkast í fyrra, þegar það komst yfir notaða, sænska verksmiðju. Var þá talið, að stofnkostnaðurinn á Vatnsleysuströnd yrði ekki nema þriðjungur af upprunalegri áætlun. Þar með ætti arðsemin að verða mun meiri en ráð var fyrir gert.

Aftur á móti hefur danskt ráðgjafarfyrirtæki Iðnþróunarsjóðs úrskurðað stálverið óarðbært. Og ótrúverðugar eru fullyrðingar um, að danska fyrirtækið hafi hagsmuna að gæta.Þar að auki hefur verið sagt í sænska blaðinu Dagens lndustri, að Svíar hafi verið heppnir að losna við dótið hingað.

Mesti vandi innlendrar framleiðslu á steypustyrktarstáli er, að offramleiðsla er á því í nágrannalöndum okkar. Við slíkar aðstæður er yfirleitt hægt að fá innflutt stál á lægra verði en gildir í heimalandinu. Þetta er kallað undirboð, en er þó í þágu húsbyggjenda.

Þetta er ekki bara mál aðstandenda stálversins, sem aðeins hefur tekizt að safna broti af áætluðu hlutafé á almennum markaði. Ríkið hefur svo veitt verinu 45 milljónir í ríkisábyrgð og óbeint skyldað Framkvæmdasjóð ríkisins til að gerast hluthafi upp á 9 milljónir.

Við slíkar aðstæður er ástæða til að óttast, að ríkið verði síðar móttækilegt fyrir hugsanlegum klögumálum stálversins út af svokölluðum erlendum undirboðum og beiðnum þess um einhvers konar innflutningshöft á kostnað húsbyggjenda eða aðrar ívilnanir á kostnað skattgreiðenda.

Ef stálverið er slíkt áhyggjuefni, þá er steinullarverið margfalt stærra. Þar er á ferðinni byggðastefnuver, sem á að taka 60 atvinnutækifæri í plasteinangrun víðs vegar af landinu og breyta í 60 atvinnutækifæri í steinull á Sauðárkróki. Eins brauð verður annars dauði.

Ríkið leggur þar sjálft til 40% hlutafjárins og ábyrgist 25% af stofnlánum þess, auk þess sem það hyggst skylda taprekstrarfyrirtækið Ríkisskip til að flytja steinullina á einum fjórða hluta flutningsgjalda. Mun ríkið við slíkar aðstæður leyfa fyrirtækinu að rúlla?

Innflutningur á steinull fer ört minnkandi, enda fylgir henni viðurkennd hætta á lungnakrabba, kláða, útbrotum og hvarmabólgum. Í fyrra nam innflutningurinn tæpum 1.500 tonnum. Verksmiðjunni á Sauðárkróki er ætlað að framleiða 5.400 tonn á ári, það er meira en þrefalt magn!

Samkvæmt því er ætlunin, að steinullin frá Sauðárkróki útrými ekki aðeins innfluttri steinull, heldur mestallri glerull og þeirri plasteinangrun, sem framleidd er í landinu. Og þá má spyrja, hvort sú slátrun annarra atvinnutækifæra verði í skjóli ríkisvaldsins.

Ríkinu ber að halda opnum markaði byggingaefna, svo að byggingakostnaður verði sem lægstur og þjóðarhagur batni sem örast. Bein eða óbein aðild ríkisins að ýmsum gæluverkefnum má aldrei leiða til ívilnana eða hafta, sem skaða þjóðina í heild. Og nú er ástæða til að vera vel á verði.

Jónas Kristjánsson

DV