Notodirdjo er óvelkominn.

Greinar

Sendiherra lndónesíu á Íslandi, með aðsetri í Osló, heldur á mánudaginn hanastélsboð í Reykjavík fyrir vini og aðdáendur eins mesta fjöldamorðingja og rummungsþjófs, sem uppi er um þessar mundir. Sá er Suharto hershöfðingi og forseti og er fátt um hann prenthæft að segja.

lndónesía er land auðugt að olíu, málmum og timbri. Þar ætti að vera hægt að bæta lífskjör fólks eins og gerzt hefur í sumum nágrannalandanna. Hin fátæka þjóð þarf hins vegar að sæta sérlega grófri fjárpyndingu Suhartos, ættingja hans og nánustu klíkubræðra í hernum.

Í fáum löndum heims eru mútur eins veigamikill liður í aðgangseyri erlendra fyrirtækja. Einkum er það áberandi í olíunni. Um þetta er skrifað fullum fetum á prenti hér á Vesturlöndum. Ljóst er, að undan hefur verið komið fjárhæðum, sem eru hærri en við fáum skynjað.

Á móti þessu mútufé þarf gengi Suhartos að gera óhagstæða samninga fyrir hönd lndónesíu. Þannig tvöfaldast tjónið, sem hin fátæka þjóð verður fyrir af völdum hins umboðslausa hóps valdhafa, er brauzt til valda í heimsfrægu blóðbaði fyrir tæplega tveimur áratugum.

Talið er, að Suharto og félagar hafi slátrað um 300.000 manns í kringum valdatökuna. Það er meiri fjöldi en allir Íslendingar. Tugir þúsunda urðu að hírast við illa aðbúð í fangabúðum, flestir í tíu ár eða lengur. Af þeim hafa rúmlega 30.000 verið leystir úr haldi.

Allur þorri þessara manna fær ekki vinnu, annaðhvort af því að pólitiskrar fangavistar þeirra er getið í nafnskírteinum þeirra eða af því að þeir hafa ekki fengið nafnskírteini. sumir þeirra hírast í útlegð á fjarlægum eyjum án sambands við ættingja sína.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við þjóðarmorðið mikla á eyjunni Timor. Herlið Suhartos gerði innrás á austurhluta eyjarinnar fyrir níu árum og hefur síðan komið fyrir kattarnef 200.000 af 600.000 íbúum hennar. Þetta er eitt mesta þjóðarmorð síðustu áratuga.

Um leið hafa menning og þjóðhættir eyjarskeggja verið lögð í rúst. Frásagnir sjónarvotta að atburðum þessum eru ekki prenthæfar, svo ógeðslegar eru þær. En niðurstaða þeirra má vera öllum ljós, þar á meðal hanastélsliði Notodirdjos, sendiherra Suhartos.

Ríkisstjórn Reagans Bandaríkjaforseta hefur sætt réttmætu ámæli fyrir stuðning við ýmsa stórglæpamenn á valdastóli, bara ef þeir eru hægri sinnaðir. Þess vegna er athyglisvert, að Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvað eftir annað kvartað við Suharto.

Nú síðast afhenti utanríkisráðherrann mótmælabréf frá 123 bandarískum þingmönnum. Jóhannes Páll páfi hefur einnig nýlega gagnrýnt Suharto fyrir að standa þversum í vegi fyrir alþjóðlegu hjálparstarfi á Timor. Glæpalýður Suhartos tekur ekki mark á neinu af þessu.

Á alþjóðavettvangi er stjórn Suhartos í fremstu röð þeirra ríkja, sem eru að breyta Unesco, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, í svínastíu. Þeir beita stofnuninni til að reyna að hindra vestræna fjölmiðla í að afla frétta af óhugnaðinum hjá valdhöfum eins og Suharto.

Notodirdjo, sendiherra Suhartos, er ekki velkominn hér á landi. Hann er fulltrúi eins mesta rummungsþjófs og fjöldamorðingja nútímans. Enginn ætti að koma nálægt honum. Samt skulum við vona, að brennivínið standi ekki í stuðningsliði Suhartos á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV