“Annarlegar hvatir”.

Greinar

Fjölmiðlamenn eru afar sjaldan staðnir að ærumeiðingum. Þeir eru atvinnumenn og kunna yfirleitt að haga orðum sínum innan ramma velsæmis. Annars yrði þeim ólíft í starfi. Þetta á jafnt við um þá, sem skrifa fréttir, og hina, sem láta frá sér fara skoðanir af ýmsu tagi.

Undantekninga hefur helzt gætt í blöðum eins og Þjóðviljanum. Það gerist, þegar skammhlaup verður milli pólitískra hugsjóna annars vegar og fjölmiðlunar hins vegar. Hinir áköfustu gæta ekki að sér og fjalla um pólitíska andstæðinga á þann hátt, að betur væri ósagt.

Hættan á ærumeiðingum í fjölmiðlum er að öðru leyti ekki hjá atvinnumönnunum, heldur hinum, sem hitnar í hamsi úti í bæ og senda blöðunum greinar til birtingar. Saka má fjölmiðlana um að vera of væga í fyrirstöðunni gegn slíkum greinum og hleypa þannig ýmsu ófögru í gegn.

Þetta er gert í anda lýðræðis. Blöð vilja ógjarna verða sökuð um að standa í vegi fyrir, að skoðanir komist á framfæri. En þau mættu líklega gera meira að því að benda höfundum á, að farsælast sé að sofa á málinu og láta ekki frá sér fara efni fyrr en æsingur hefur hjaðnað.

Í fyrravetur flutti formaður Lögmannafélags Íslands erindi, sem hann kallaði “kreppu í réttarfari”. Þar gagnrýndi hann seinagang og óvíst réttaröryggi hjá Hæstarétti. Hér í blaðinu voru þessar skoðanir formannsins gerðar að skoðun í leiðara, þar sem hvatt var til úrbóta.

Sami formaður lét nýlega hafa eftir sér í blaðaviðtali, að dómstólar geti “aldrei átt frumkvæði að því að ráðskast með fjölmiðla …”. Var þetta innlegg í deilur um yfirlýsingar forseta Hæstaréttar um meiðyrði í fjölmiðlum. Í leiðaranum var stuðst við þessa skoðun.

Síðan bregður svo við, að hér birtist frekar vanstillt grein formannsins, þar sem hann birtist gerbreyttur og stráir um sig yfirlýsingum um “annarlegar hvatir”, “þvætting” og “siðleysi” leiðarahöfundar. Hann gengur svo langt að kalla “þvætting”, að hann sjálfur hafi nokkurn tíma gagnrýnt Hæstarétt!

Greinin var skrifuð, áður en hún var hugsuð. Ef svo væri einnig í þessum leiðara, yrði spurt, hvort formaðurinn þyrði ekki að standa við þær skoðanir sínar, sem eru andstæðar skoðunum forseta Hæstaréttar, – þegar hann þarf að flytja mál fyrir dómstólnum.

En það er ekki gert, af því að ljóst er, að formaðurinn lenti bara í ógöngum í hita augnabliksins eins og svo margir gera, þegar þeir skrifa greinar. Sérstaklega er áberandi, að ásakanir um “annarlegar hvatir” eru í tízku hjá þeim, sem stinga niður penna við slíkar aðstæður.

Um svipað leyti sagði annálaður geðprýðisbóndi í grein hér í blaðinu, að gagnrýni á Framleiðsluráð landbúnaðarins væri óréttmæt og “byggð á annarlegum hvötum”. Annar geðprýðismaður sakaði annan ritstjóra Morgunblaðsins um að hafa brosað á benzínstöð, eins og það væri eitthvert málsefni.

Síðan festast menn í því, sem þeir skrifa í ógáti. Ekki alls fyrir löngu sakaði kunnur rithöfundur þetta blað um ákveðnar skoðanir á málum Mið-Ameríku. Þegar honum var sýnt, að blaðið hafði í raun haft alveg þveröfugar skoðanir, vildi hann ómögulega gefast upp.

Hann sagði á prenti, að þetta skipti ekki máli, af því að annars staðar í blaðinu hefðu birtzt skoðanir, sem almennt væru fasistískar. Þannig leiðir hvað af öðru í ógöngum, sem hefjast í vanhugsuðum fullyrðingum um “annarlegar hvatir” atvinnumanna fjölmiðlanna.

Jónas Kristjánsson

DV