Harðsóttir útlendingar.

Greinar

Við förum halloka í erlendum samskiptum okkar um þessar mundir. Eftir nokkra daga er ráðgert að bíða enn einn ósigurinn fyrir Svisslendingum í viðræðum um orkuverð og önnur kjör álversins í Straumsvík. Og nágrannar reynast okkur nokkuð ódælir í málum Jan Mayen.

Nú síðast gerði Jónatan Motzfeldt, formaður grænlenzku landsstjórnarinnar eða eins konar forsætisráðherra Grænlands, góðlátlegt grín í blaðaviðtali að sjónarmiðum okkar út af loðnunni, sem við vorum búnir að slá eign okkar á að mestu leyti eða 85%.

Motzfeldt sagði, að úr því að við hefðum fengið 200 mílur í átt til Jan Mayen, ættum við ekki að amast við, að Grænlendingar fengju slíkt hið sama. En það er einmitt samkomulag Norðmanna og Íslendinga, að Grænland hafi að þessu leyti minni rétt en Ísland.

Samkomulagið byggist á, að byggð strönd hafi meiri rétt en óbyggð. Þannig hafi strönd Íslands óskertan 200 mílna rétt í átt til óbyggðrar strandar Jan Mayen, en miðlína gildi aftur á móti milli óbyggðra stranda Jan Mayen og Grænlands. Þessu eru Grænlendingar ósammála.

Motzfeldt vísaði til þess, að loðnan hefði sundfæri og færi víða um hafið. Þess vegna væri merkilegt, ef Íslendingar héldu því fram, að þeir ættu einkarátt á 85% af loðnustofninum, sem meðal annars lifði og nærðist innan grænlenzkrar efnahagslögsögu.

Þá hefur reynzt minna haldreipi í bandalagi okkar við Norðmenn en ætlað var í upphafi. Þeir hafa nýlega gert munnlegan samning við Dani um veiðar úr loðnustofninum, en segjast ekki finna nein skrifleg gögn um slíkan samning. Þeir yppta bara öxlum.

Samkomulag Norðmanna og Dana hefur þær afleiðingar, að norsku veiðiskipin við Jan Mayen fá ekki að hafa nein afskipti af loðnuveiðum Dana og Færeyinga á hinu umdeilda svæði milli miðlínunnar og 200 mílna línunnar frá óbyggðri strönd Grænlands.

Í barnalegri trú á norræna samvinnu höfðum við uppi harmagrát út af aðild Færeyinga að málinu. Sögðum við það ójafna hegðun, að við leyfðum þeim veiðar í okkar lögsögu á meðan þeir hefðu með rangindum af okkur loðnu á umdeilda svæðinu við Jan Mayen.

Pauli Ellefsen, lögmaður eða eins konar forsætisráðherra Færeyja, var hinn kurteisasti og sagði Færeyinga ekki mundu biðja um stærri kvóta hjá Efnahagsbandalaginu en þeir hefðu þegar aflað við Jan Mayen. Við ættum því ekkert að vera að æsa okkur upp að óþörfu.

Hann segist svo bara ekkert geta við því gert, að færeyskir einkaaðilar geri sérsamninga við Konunglegu Grænlandsverzlunina um veiðar í grænlenzkri landhelgi. Hann ypptir bara öxlum eins og Norðmenn og brosir að okkur á bak eins og Motzfeldt og Norðmenn.

Ekki verður annað séð en íslenzka utanríkisþjónustan hafi komið fram af fullri einurð í hinum flóknu réttindamálum Jan Mayen-svæðisins. En atburðir síðustu vikna sýna greinilega, að nauðsynlegt er að gæta fiskveiðihagsmuna okkar af mikilli festu.

Slík festa virðist ekki vera til í viðræðum okkar manna við Alusuisse. Þeir virðast vera að semja um 14-15 eininga orkuverð og brottfall ýmissa klögumála okkar. Sú niðurstaða er gersamlega ófullnægjandi og gefur frekari áldraumum ekki byr undir báða vængi.

Jónas Kristjánsson

DV