Erfið lækning

Greinar

Um þessar mundir er íslenzka þjóðfélagið eins og áfengissjúklingur í þurrkví. Hinar efnahagslegu björgunaraðgerðir stjórnvalda reyna mjög á þolrifin í mönnum. Og enn er ekki séð fyrir enda lækningarinnar, því að freistingarnar sækja hart að þeim aðilum, sem hafa aðstöðu til að spilla fyrir afturbatanum.

Hinir erfiðu dagar læknisaðgerðanna eru rétt að byrja. Gengið hefur verið lækkað. Og söluskattur og benzínverð er um það bil að hækka. Ýmsar aðrar nauðsynlegar læknisaðgerðir bíða fram yfir viðræður ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðsins um ástand sjúklingsins.

Endurreisnin er sársaukafull, þegar þjóðin hefur lifað um efni fram og allir sjóðir orðnir tómir og stórskuldugir að auki. Þessi endurreisn kemur niður á lífskjörum hvers einasta Íslendings. Þetta erfiða ástand á enn eftir að versna, áður en það byrjar að batna aftur.

Lækningin er þungbær og á eftir að verða enn þungbærari. En hún er skárri kostur en stöðvun mikilvægra greina atvinnulífsins og víðtækt atvinnuleysi, sem hvort tveggja var í uppsiglingu, þegar lækningin hófst. Það er betra að horfast í augu við sársaukafullan raunveruleikann en fljóta sofandi að feigðarósi.

Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir þjóðfélagsins hafa misjafna aðstöðu til að bera byrðar lækningarinnar. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að létta láglaunafólki og lífeyrisþegum þessar byrðar. Eru nú hafnar viðræður hennar við aðila vinnumarkaðsins um, hvernig þetta megi gerast.

Vinnufriður er ennþá ótryggur, svo að enn er ekki hægt að spá, hvort lækningin tekst. En verði friður, má gera ráð fyrir, að ástandið fari fljótlega að batna. Atvinnulífið fer þá fljótlega að styrkjast og lífskjörin byrja að batna á nýjan leik strax í kjölfarið.

Þannig er unnt að kæfa kreppuna í fæðingunni, ef þjóðin hefur þol til að taka á sig tímabundnar byrðar. En það er vissulega ekkert gamanmál fyrir fólk að sjá allt verðlag vöru og þjónustu hækka án þess að fá það bætt í auknum tekjum. Þess vegna mun reyna mjög á þolrif þjóðarinnar næstu vikur og mánuði.

Efnahagssérfræðingar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar eru sammála um sjúkdómsgreininguna og læknisráðin. Leiðtogar stjórnmálanna, hvar í flokki sem þeir standa, hafa áttað sig á ástandinu. Það sést bezt af því, að vinstri flokkarnir höfðu í sínum viðræðum um stjórnarmyndun fallizt á nokkurn veginn sömu læknisráð og nú er verið að beita.

Við eigum því að sameinast um að láta lækninguna takast, þrátt fyrir allar freistingar. Með endurreisn efnahagslífsins leggjum við grundvöll að nýrri sókn til öryggis og auðlegðar í framtíðinni.

Þótt efnahagslífið sé sjúkt um þessar mundir, er það að eðlisfari heilsugott. Það hefur áður komizt í hann krappan, en jafnan rétt við aftur, stundum á löngum tíma og stundum á skömmum tíma. Í þetta sinn benda flest sólarmerki til þess, að batinn geti orðið skjótur.

Jónas Kristjánsson

DV