Sigur með semingi.

Greinar

Eina umtalsverða afrek kvótakerfisins er að ná staðfestingu á Fiskiþingi eftir tæplega eins árs reynslu. Þar vann það skrapdagakerfið í atkvæðagreiðslu með tölunum 17 á móti 12. Síðan mælti Fiskiþing með notkun þess á næsta ári með 14 atkvæðum gegn engu, en fleiri sátu hjá.

Þessi naumi sigur er ekki lítið afrek. Þegar kvótakerfið var tekið í notkun í upphafi þessa árs, bárust um 250 kærur og athugasemdir frá aðilum, sem töldu sig hlunnfarna. Samt hefur hinni svokölluðu kvótanefnd tekizt að halda svo á málum, að líf kerfisins hefur verið framlengt.

Það hlýtur að vera erfitt að skipta fyrirfram ráðgerðum afla á þorski, ýsu, ufsa, karfa og grálúðu nákvæmlega niður á hvert einasta fiskiskip landsins. Það er engin furða, þótt margir séu óánægðir. Enn meiri furða er, að þetta skuli hafa tekizt tiltölulega friðsamlega.

Þar með eru afrekin líka að mestu leyti upptalin. Með aflakvótakerfinu hefur ekki tekizt að ná meginmarkmiðinu. Þorskaflinn verður um 250 þúsund tonn á þessu ári, en ekki 200 eða 220 þúsund tonn eins og ráðgert hafði verið. Kvótakerfið hefur ekki verndað þorskstofninn.

Þetta er auðvitað afleiðing af því, að linað var á þrýstingi klögumála með því að stækka kvóta hér og þar. Nú hafa fiskifræðingar enn mælt með 200 þúsund tonna afla á næsta ári. Vafasamt verður að teljast, að kerfið megni að koma aflanum niður fyrir 250 þúsund tonn.

Á þessu ári hefur einnig verið staðfest, að aflakvótakerfið hefur ýmsa galla, sem spáð hafði verið fyrirfram. Til dæmis hefur smáfiski mikið verið hent fyrir borð, svo að skipin fengju sem hæst verð fyrir aflann og gengju sem minnst á hinn úthlutaða kvóta.

Ekki er síður alvarlegt, að kvótakerfið hefur gert sjávarútvegsráðherra að eins konar einræðisherra, sem úthlutar tonni hér og tonni þar. Margir kvarta sáran um, að kaupfélög og framsóknarfyrirtæki hafi betri aðgang að skömmtunarvaldinu en hinir, sem ekki hafi tekið trúna.

Verst er þó, að flestir aðilar málsins virðast vera sammála um að reyna að koma sem mest í veg fyrir, að kvótar gangi kaupum og sölum. Þetta er kallað brask. Jafnframt er kvartað um, að peningar séu í spilinu í slíkum viðskiptum! Það er eins og sumir lifi á steinöld.

Kvótakerfið væri miklu þjálla, ef greitt væri fyrir því, að kvótar væru keyptir af lakari skipum til hinna betri. Þá væri hægt að leggja hinum lakari um leið og hin betri fengju hagstæðari rekstur út á hærra aflamagn á nokkurn veginn sama úthald. Ekki ætti þeim að veita af.

Menn eru hættir að deila um, hvort fiskiskipastóllinn sé of stór. Viðurkennt er, að rekstur fiskveiða yrði mun betri, ef skipin væru mun færri. Rétt er að muna eftir þessu einmitt núna, þegar ráðgert er að hækka fiskverð verulega, ekki bara um áramót, heldur fyrr.

Vandræði sjávarútvegsins stafa að töluverðu leyti af því, að með aðgerðum stjórnvalda hefur verið búinn til allt of stór floti. Kvótakerfið hefur ekki haft hin minnstu áhrif til fækkunar skipa í flotanum. Þvert á móti hefur það fryst stærð flotans í núverandi stöðu.

Fiskiþing hefur með semingi gefið líf þessu vafasama skipulagi. Þar með er það traust í sessi. Samt mun það ekki koma sjávarútveginum eða þjóðinni að gagni, nema hvatt verði til líflegrar verzlunar með kvóta, svo að menn fái borgað fyrir að leggja lélegustu skipunum.

Jónas Kristjánsson.

DV