“Þeir, sem gjaldeyris afla”.

Greinar

“Geti ríkisvaldið ekki tryggt sjávarútveginum viðunandi rekstrargrundvöll, leggur aðalfundur Landssambands íslenzkra útvegsmanna til, að gjaldeyrisverzlun verði gefin frjáls, þannig að þeir, sem gjaldeyris afla, geti notið fulls arðs af sinni starfsemi.”

Þessi samþykkt nýafstaðins aðalfundar sýnir, að útgerðarmenn eru farnir að átta sig á, að umtalsverður hluti erfiðleika þeirra felst í óhóflegum auðlindaskatti, sem stjórnvöld leggja á sjávarútveginn í heild í formi of hárrar skráningar á gengi krónunnar.

Hugmyndinni um frjálsa gjaldeyrisverzlun hefur nokkrum sinnum verið haldið fram á síðustu árum, þar á meðal hér í leiðurum blaðsins. Hún stefnir að því, að þeir, sem afla gjaldeyris, fái fullan ráðstöfunarrétt yfir þeim gjaldeyri og geti selt hann á opnum markaði.

Í mismunandi mikilli, en oftast mikilli verðbólgu undanfarinna áratuga hefur gengi krónunnar jafnan verið fellt seint og illa. Þannig hefur þjóðfélagið sent verðbólgureikninginn til hinnar einu sönnu stóriðju landsins, hins afkastamikla sjávarútvegs.

Gjaldeyri og framleiðni sjávarútvegsins hefur þannig verið dreift út í þjóðfélagið til að skapa velmegun í landi. Lengi vel þoldi sjávarútvegurinn sæmilega þennan auðlindaskatt. Nú er hins vegar svo komið, að mjólkurkýrin hefur verið blóðmjólkuð og þolir ekki meir.

Svo illa er útgerðin stödd, að sumir útgerðarmenn og jafnvel forustumenn í þeim hópi halda fram, að gengislækkanir komi útgerðinni ekki að gagni. Þær hækki bara erlendar skuldir skipanna, svo og olíu og fleiri rekstrarvörur. Þetta éti upp hækkað fiskverð.

Með þessari skoðun er því haldið fram, að erlendur kostnaður flotans sé meiri en aflahlutur skipanna. En þar með er líka verið að segja, að útgerðin sé tómt rugl í sjálfu sér. Ef gengislækkun kemur útgerð ekki að gagni, þá er þar um óarðbæra útgerð að ræða.

Vitað er, að sum útgerð er tómt rugl, einkum nýrra togara, sem smíðaðir hafa verið innanlands á síðustu árum. Þau skip voru fjármögnuð af stjórnvöldum og keypt af útgerðarmönnum, þótt stöðugt væri bent á, að þessi skip væru óarðbær og mundu gera flotann of stóran.

Nú vita flestir í hjarta sínu, að ríkisvaldið getur “ekki tryggt sjávarútveginum viðunandi rekstrargrundvöll”, svo sem beðið var um í ályktun útgerðarmanna. Ríkisvaldið er alltaf að berjast við verðbólgutölur og hefur því ímugust á miklum lækkunum á gengi krónunnar.

Ríkið hefur tilhneigingu til stjórnsemi, sem alltaf leiðir til ofstjórnar. Á þessu ári hefur það reyrt allan sjávarútveginn í viðjar kvótakerfis, sem gengur svo langt, að það bindur upp á tonn aflasamsetningu hvers einasta fiskiskips í landinu.

Þáttur í stjórnsemi ríkisvaldsins er að vilja sjálft ákveða gengi krónunnar og þá alltaf með tilliti til hagsmuna þess sjálfs í slagnum við verðbólguna, en ekki með tilliti til aukinnar arðsemi í atvinnulífinu. Þessi ofstjórn er að drepa stóriðju landsins, sjávarútveginn.

Ef verðlag og vextir geta ákveðið sig sjálf á markaðstorgi lífsins, er sennilegt, að gengi krónunnar geti það líka. Búast má við, að þeir, sem gjaldeyri geta selt, og hinir, sem gjaldeyri vilja kaupa, geti samanlagt komizt að raun um, hvert sé sanngjarnt gengi krónunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV