Fjórar stöðvar góðar.

Greinar

Sovézkum herflugvélum hefur í vaxandi mæli tekizt að fljúga undir ratsjárgeisla frá Keflavíkurvelli og Stokksnesi. Þetta hlýtur að vera töluvert áhyggjuefni, í fyrsta lagi vegna öryggis landsins. Það þýðir lítið að hafa hér viðbúnað, ef hægt er að læðast upp að landinu.

Flug sovézkra herflugvéla við Ísland hefur tvöfaldazt á síðustu sjö árum. Þetta flug er angi af ofbeldishneigð sovézka þjóðskipulagsins, sem í Afganistan kemur fram í beinni innrás, en hér meðal annars í hótun Þjóðviljans í fyrradag um sovézkan eiturhernað.

Í öðru lagi er leyniflug sovézkra herflugvéla hættulegt almennu farþegaflugi við landið. Þessar flugvélar senda engar flugáætlanir og afla sér engra flugheimilda hjá íslenzku flugstjórninni. Þær fljúga iðulega inn á leiðir farþegaflugvéla án viðvörunar.

Erlendis eru mörg dæmi um alvarleg flugslys, sem hlotizt hafa af slíku glæfraflugi herflugvéla. Bæði hér og annars staðar stríðir slíkt flug gegn alþjóðlegum samningum og hefðum. En reynslan sýnir, að mannslíf í farþegavélum skipta ofbeldiskerfið engu máli.

Bæði vegna öryggis landsins og vegna öryggis farþegaflugsins er mikilvægt, að því ratsjárgati verði lokað, sem myndaðist eftir lokun stöðvanna í Aðalvík og á Heiðarfjalli. Og nú eru einmitt uppi ráðagerðir um, að það verði gert í Stigahlíð og á Langanesi.

Awacs ratsjárflugvélarnar duga ekki einar sér. Ekki hefur verið hægt að tryggja, að ein þeirra sé jafnan á lofti. Þar að auki hafa þær verið sendar í burtu, þegar hætta hefur myndazt í öðrum heimshluta, svo sem gerðist í Persaflóa, er hófst styrjöld Írana og Íraka.

Samkvæmt ráðagerðunum á að setja upp fjórar nýtízku ratsjárstöðvar í stað hinna tveggja, sem fyrir eru. Í stað 110 manna flokks á Stokksnesi frá varnarliðinu mundu koma fjórir tíu manna eftirlitshópar Íslendinga á fjórum stöðum á landinu. Íslenzkir tæknimenn tækju við rekstrinum.

Gögn núverandi ratsjárstöðva fara ekki aðeins til varnarliðsins heldur einnig til íslenzku flugstjórnarinnar, sem byggir rekstur sinn á þeim. Endurbættar og nýjar ratsjárstöðvar mundu gera íslenzku flugstjórninni kleift að veita eins góða þjónustu og bezt gerist.

Þar með yrði líklega væntanlega tryggt, að Ísland héldi hinum arðbæra samningi við Alþjóða flugmálastjórnina um að annast flugstjórn á öllu svæðinu yfir Grænlandi og Íslandi. Dregið yrði úr líkum á, að þessi verðmæta þjónusta færðist upp í gervihnetti á næstu áratugum.

Nauðsynlegt er, að á hinum fjórum stöðum verði einnig komið upp sérstökum ratsjám til að fylgjast með umferð skipa og að þær hafi búnað til að fylgjast með úrkomu og hafís. Slíkar ratsjár mundu auka verulega öryggi íslenzkra sjómanna á fiskiskipum og kaupskipum.

Búizt er við, að fljótlega berist ósk bandarískra stjórnvalda um þessa eflingu ratsjárkerfisins við Ísland. Sú ósk byggist á, að framkvæmdirnar eru í þágu varna Atlantshafsbandalagsins sem heildar og Bandaríkjanna sérstaklega. Þess vegna vilja þessir aðilar borga.

Um leið eiga þessar stöðvar að tryggja okkur, að vitað verði um allt flug við landið og að sæmilegt öryggi komizt á í farþegaflugi og siglingum. Ennfremur mundu þær efla tækniþekkingu Íslendinga. Við eigum því að fallast á, að ratsjárstöðvarnar verði bæði fjórar og góðar.

Jónas Kristjánsson.

DV