Kveðjum Unesco.

Greinar

Þjóðum þriðja heimsins kæmi vel, að menntamálaráðherrar Norðurlanda, sem nú eru saman á fundi, tækju á sig rögg og legðu til, að þessi lönd færu úr Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, svo sem stjórnir Bandaríkjanna og Bretlands hafa þegar ákveðið að gera.

Unesco er orðin fjárhagslega og hugsjónalega gerspillt stofnun. Þar ríkir forstjóri, M’Bow, sem hagar sér eins og auðkýfingur og brennir í höfuðstöðvunum í París 75 aurum af hverri krónu, sem kemur í kassann. Engin alþjóðastofnun nýtir fé sitt jafn illa.

Verra er þó, að M’Bow stjórnar í Unesco andlýðræðislegu bandalagi harðstjóra þriðja heimsins, arabaríkjanna og járntjaldsríkjanna. Hagsmunir þessara harðstjóra stangast yfirleitt á við hagsmuni þjóða þriðja heimsins, sem harðstjórarnir kúga og arðræna.

Kúgurum þriðja heimsins er mjög illa við frásagnir fjölmiðla af framferði þeirra heima fyrir. Þeir nota fjölmiðla landa sinna sem áróðursstofnanir og leggja steina í götu vestrænna fjölmiðla, sem reyna að komast að sannleikanum um ástandið í löndum þriðja heimsins.

Harðstjórarnir hafa sett Unesco á oddinn í baráttunni gegn því, sem þeir kalla nýlendustefnu í fjölmiðlun. Þeir segja, að lýðræði og fjölbreytt fjölmiðlun eigi ekki erindi til fátækra þjóða, sem þurfi þjóðareiningu til að lyfta sér upp úr núverandi örbirgð.

Í rauninni vilja harðstjórarnir þögn. Þeir vilja ekki, að sagt sé frá ránskap þeirra, pyndingum og morðum. Þeir vilja ekki, að í ljós komi, að örbirgð þjóða þeirra stafar fyrst og fremst af ágirnd þeirra, mistökum, hroka og endalausri valdníðslu.

Á vegum Unesco er miklu fé varið til að hefta frjálsa fjölmiðlun í heiminum og breyta henni í áróðursstofnanir fyrir valdhafana. Einnig á öðrum sviðum starfar Unesco í umboði harðstjóranna, er reyna sem mest þeir mega að traðka á mannréttindum þjóða sinna.

Fyrir síðustu áramót gafst stjórn Bandaríkjanna upp á þátttöku í þessari sorastofnun. Brotthvarf þeirra kemur til framkvæmda nú um áramótin. Þá hefur stjórn Bretlands einnig ákveðið úrsögn, sem verður að ári liðnu.

Fulltrúar annarra lýðsræðisríkja hafa í vaxandi mæli haldið uppi gagnrýni innan Unesco á stjórn og stefnu stofnunarinnar. Til greina hefur komið, að Holland, Vestur-Þýzkaland og Danmörk fylgi fordæmi Bandaríkjanna og Bretlands og standi vörð um mannréttindi í heiminum.

Ísland hefur lítið lagt til þessara mála. Fulltrúar okkar hafa til skamms tíma kosið að setja kíkinn fyrir blinda augað eins og raunar svo margir aðrir. Meiri sómi væri að segja skilið við Unesco og hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að gera slíkt hið sama.

Fyrir tæpum áratug lenti ILO, alþjóða vinnumálastofnunin, í hliðstæðum vanda. Stjórn Bandaríkjanna hætti þá aðild að stofnuninni. Afleiðingin varð sú, að stjórnendur ILO tóku sér tak og hættu að vinna þvert gegn þeim hugsjónum, sem stofnunin byggðist á.

Að lokum gátu Bandaríkin aftur gerzt aðili að ILO. Hið sama getur gerzt í Unesco. Og því fleiri lýðræðisríki, sem nú hverfa á brott, þeim mun líklegra er, að stjórnendur Unesco sjái sína sæng upp reidda. Menntamálaráðherrar Norðurlanda eiga að átta sig á þessu.

Jónas Kristjánsson.

DV