Rétt risna og röng.

Greinar

Allt frá því fyrir daga Snorra Sturlusonar hefur risna þótt sjálfsögð hér á landi. Íslenzkir kaupsýslumenn þakka stundum risnu góðan árangur í samningum við erlenda aðila. Og takist Seðlabankanum með risnu að ná hálfu prósenti hagstæðari vaxtakjörum í útlöndum, er vel að unnið.

Ekki er þó sama, hvenær risna er notuð, hjá hvaða aðilum og með hvaða hætti. Risna sætir oft ámæli, einmitt vegna þess að fólk verður vart við, að hún er notuð af mönnum, sem eru að gæla við sjálfa sig. Laxveiðibækur sýna til dæmis, að slík risna er algeng hjá bönkunum.

Reykjavíkurborg þarf mikla risnu, af því að hún hefur skyldum að gegna sem höfuðborg landsins. Ýmsir hópar, innlendir og erlendir, sem sækja boð ráðherra, þiggja líka af hefð boð hjá borginni. Þetta kostar mikið fé, líklega tvær milljónir á ári, en er óhjákvæmilegt.

Hitt er furðulegra, að Seðlabankinn, sem hefur litlum skyldum að gegna af þessu tagi, skuli þurfa svipaða risnu og Reykjavíkurborg. Hinir erlendu bankastjórar, sem hann býður, eru sárafáir í samanburði við hinn mikla fjölda, sem nýtur risnu Reykjavíkurborgar.

Aðrar stofnanir, sem hafa vakið athygli á þessu sviði, eru Landsvirkjun og Landsbanki. Þar er greinilega ekki litið á risnu fyrst og fremst sem liðkun viðskipta, heldur sem kjarabót fyrir yfirmenn. Sönnunargögn um óþarfa risnu af því tagi má sjá í bókum veiðihúsa.

Aftur á móti er risnu haldið óeðlilega mikið niðri hjá stofnun á borð við forsetaembættið. Er það þó stofnun, sem byggir starfsemi sína að töluverðu leyti á risnu. Erlendir virðingarmenn eru til dæmis undantekningalaust boðnir til forseta Íslands.

Þar að auki erum við svo lánsöm að hafa forseta, sem kann að nota risnu. Margoft kemur greinilega í ljós, að heimsókn á Bessastaði hefur verið hástig Íslandsferðar erlendra virðingarmanna. Þeir tala um forseta Íslands og Bessastaði í lýsingarorðum hástigs.

Þessa sérstöðu á að vera sjálfsagt að nýta meira en gert er. Um leið er nauðsynlegt, að hætt sé nöldri um, að risna hafi aukizt í tíð núverandi forseta, svo og ferðakostnaður. Vissulega hefur hvort tveggja aukizt verulega, en eigi að síður minna en vert væri.

Ekki er heldur sama, hvernig risna er framkvæmd. Hjá forsetaembættinu gætir þekkingar og smekkvísi á því sviði. Víða annars staðar er risnu sóað í vitleysu. Dæmi um það mátti sjá í hinni opinberu heimsókn forsætisráðherra Svíþjóðar til Íslands í síðustu viku.

Ástæðulaust er að kalla á hundrað manns til veizlu og bjóða þeim lélegan mat, þar á meðal hrygg af fóðurkálslambi, þar sem rúmlega helmingur er fita, – eða fisk, sem er innbakaður í smjördeig eins og tíðkaðist hjá Escoffier, en þekkist ekki lengur meðal siðaðra þjóða.

Svo vel vill til, að íslenzk veitingahús hafa matreiðslumenn, sem að jafnaði eru betri en starfsbræður þeirra á Norðurlöndum. Hvers vegna eru ekki Skúli Hansen eða Guðmundur Guðmundsson fengnir til að gæta sóma Íslands, þegar forsætisráðuneytið þarf á slíku að halda?

Þegar Frakklandsforseti þarf að nota risnu, kallar hann út í bæ eftir landsins beztu kokkum. Það eiga ráðamenn okkar líka að gera. Og þeir eiga að bjóða hráefnið, sem hefur gert íslenzka matreiðslumenningu þekkta úti í heimi, það er fiskinn úr sjó, ám og vötnum.

Jónas Kristjánsson.

DV