Aðgangur að örlæti.

Greinar

Á tímamótum er stjórnmálamönnum gjarnt að berja sér á brjóst og fara fjálglegum orðum um vilja sinn til góðra verka. Nýjar atvinnugreinar eru það atriði, sem mest hefur verið í tízku, ekki sízt í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem segist sérstaklega hafa það á dagskrá.

Í verki sér þessa áhuga hvergi stað. Sem dæmi má nefna laxeldið, sem flestir eru sammála um. að eigi nokkuð örugga framtíðarmöguleika. Víða um land eru menn af vanefnum að berjast við að koma slíkum rekstri í gang. Opinberir sjóðir eru lokaðir þessu fólki.

Í rauninni ern áhugamál stjórnmálamanna allt önnur, bæði þeirra, sem nú skipa ríkisstjórn, og flestra hinna, sem um þessar mundir eru utan stjórnar. Þessi áhugamál má lesa út úr nýsamþykktum fjárlögum og lánsfjáráætluninni. sem nú liggur fyrir Alþingi.

Lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir, að í ár verði fjárfestur heill milljarður í landbúnaði, aðallega hinum hefðbundna landbúnaði, sem framleiðir lítt seljanlega vöru. Þessi milljarður verður auðvitað ekki notaður í annað, til dæmis ekki í brýna fjárfestingu í fiskeldi.

Samt veit ríkisstjórnin, að birgðir af landbúnaðarafurðum hlóðust upp í fyrra. Smjörfjallið er komið upp í 600 tonn og ostfjallið í sama magn. Til viðbótar hefur myndazt nautakjötsfjall og nemur það þegar meiru en 600 tonnum. Mjólkurframleiðsla jókst um tæp 3% í fyrra.

Það er aðeins í hinum frjálsu greinum landbúnaðar, að fjöll eru ekki að myndast. Framleiðsla á svínakjöti, kjúklingum og eggjum virðist vera í töluverðu samræmi við markaðinn. Enda eru ráðamenn landbúnaðarins að reyna að koma svonefndri framleiðslustjórn á þessar greinar.

Hin vaxandi vandræði við að koma í verð hinum hefðbundnu landbúnaðarafurðum hafa leitt til aukins álags á útflutningsuppbætur. Samkvæmt fjárlögum síðasta árs áttu þær að nema 280 milljónum króna, en urðu 468 milljónir. Í ár eiga þær að vera 380 milljónir, en verða vafalítið hærri.

Svo örvæntingarfull er þessi iðja, að ostur er seldur til Evrópu á verði, sem nemur 17% af framleiðslukostnaði. Alls átti í fyrra að flytja út um 1000 tonn af osti. Samt telja ráðamenn þjóðarinnar rétt að stuðla að eins milljarðs króna fjárfestingu í þessari grein.

Á fjárlögum þessa árs er ekki aðeins gert ráð fyrir rúmlega milljarði í uppbætur og niðurgreiðslur. Þar eru líka 139 milljónir til jarðræktarstyrkja og 18 milljónir til búfjárstyrkja, 26 milljónir til Búnaðarfélags Íslands og 31 milljón til Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Á þessu ári hyggst ríkið greiða niður vexti í landbúnaði upp á 81 milljón króna og greiða niður Lífeyrissjóð bænda upp á 111 milljónir króna. Þessir tveir liðir sýna ljóslega, að ráðamenn þjóðarinnar hafa langtum meiri ást á hefðbundnum landbúnaði en nokkurri annarri starfsemi.

Það er víðar en í landbúnaði, að menn vilja vinna hjá sjálfum sér en ekki neinum sérstökum atvinnurekanda. Aldrei hefur þó komið til mála, að ríkið tæki að sér lífeyriskostnað til dæmis bílstjóra og vinnuvélamanna, hvað þá að það tæki að sér lántökukostnað þeirra.

Þegar hefðbundin atvinnugrein hefur eins ljúfan aðgang að örlæti stjórnmálaaflanna í landinu og landbúnaðurinn hefur í raun. er ekki við því að búast, að peningar séu aflögu til að hvetja til framtaks í nýjum atvinnugreinum, er geti í framtíðinni greitt þær erlendu skuldir, sem ráðamenn eru nú að stofna til.

Jónas Kristjánsson

DV