Skipt um skoðun í Kína.

Greinar

Deng Xiaoping og aðrir helztu ráðamenn Kína hafa komizt að raun um, að kredda frá miðri nítjándu öld dugi ekki til lausnar á vandamálum og verkefnum á ofanverðri tuttugustu öld. Þeir hafa lagt niður trú á Karl Marx og eru að taka upp félagslegan markaðsbúskap.

Þessi sinnaskipti marka vatnaskil. Annað stórveldið. þar sem valdamenn byggðu tilverurétt sinn á kenningum Karls Marx, hefur vikið af þeirri hraut. Eftir standa Sovétríkin, þar sem ráðamenn halda enn dauðahaldi í kredduna, af því að hún réttlætir völd þeirra.

Enginn vafi er á, að fráhvarf kínverskra ráðamanna mun valda flokksforingjunum í Sovétríkjunum erfiðleikum. Þeir standa uppi með staðnað efnahagslíf meðan markaðstilraunir Kínverja hafa leitt til drjúgs hagvaxtar á síðustu árum.

Rétt er að taka fram, að Kína er ekki að verða frjálslynt ríki á vestræna vísu. Það verður áfram flokksrekið einræðisríki. En bændur og verkafólk geta nú tekið land, húsnæði og tæki á leigu og rekið fyrir eigin reikning, – geta spáð í markaðinn hverju sinni.

Tilraunir Kínverja í þessa átt hafa leitt til 30%. aukningar á framleiðslu landbúnaðar árin 1980-1983 og rúmlega 20% á framleiðslu iðnaðar. Þessar háu tölur stafa auðvitað af því, að frjálsari vindar leika nú um efnahagslíf Kínverja eftir langvinnt kreddutímabil.

Fylgiríki Sovétríkjanna og önnur ríki, sem sækja tilverurétt valdastéttanna til kenninga Marx og Leníns, neyðast til að taka mark á sinnaskiptum kínverskra valdhafa. Ef tilraun þeirra gengur vel, munu linast þau tök, sem ráðamenn í Kreml hafa á ríkjum Austur-Evrópu.

Raunverulega má öllum vera ljóst nema ofsatrúarmönnum, að engar kenningar frá miðri nítjándu öld geta verið svo góðar, að þær megi vera alfa og ómega vinnubragða á ofanverðri tuttugustu öld. Kenningar frá upphafi iðnbyltingar duga ekki löngu eftir iðnbyltingu.

Þekkingin hefur aukizt stórkostlega á þessu tímabili. Tækni, vísindi og efnahagur standa í allt öðrum sporum en hægt var að sjá fyrir, þegar Karl Marx var að semja Das Kapital. Þvert ofan í kenningar hans um hrun miðstéttarinnar hefur sú stétt raunar tekið völdin.

Kenningar Karls Marx væru nú úreltar, jafnvel þótt þær hefðu einhvern tíma verið ágætar. En þær voru aldrei byggðar á staðreyndum, heldur skoðunum, sem hann hafði áður sett fram í trúar- og áróðursritinu Kommúnistaávarpið. Hann safnaði ekki í kredduna, heldur byggði á henni.

Spár og trúboð Karls Marx komu fram árið 1848 í Kommúnistaávarpinu. Það var eftir það, sem hann settist inn á British Museum og fór að leita að upplýsingum, sem gætu hentað kenningakerfinu. Hann byrjaði á öfugum enda og því varð marxisminn strax vísindalega einskis virði.

Það hefur tekið kreddumenn ótrúlega langan tíma að í átta sig á þessum vanköntum. En skilningurinn hefur þó eflzt svo, að nú má marxisminn heita útdauður sem kenning á Vesturlöndum. Hann er þar aðeins til umræðu í afar þröngum og fámennum sérvitringaklúbbum.

Að sjálfsögðu reynist slíkt fráhvarf erfiðara ráðamönnum, sem byggja alræði sitt á kenningum af þessu tagi. Þeir taka með slíku töluverða áhættu. Þess vegna eru sinnaskipti Dengs og félaga hans í valdastólum Kína hrein tímamót í söguskoðun og hugmyndafræði nútímans.

Jónas Kristjánsson.

DV