Ný lota í vaxtastríði.

Greinar

Ný lota er hafin í baráttunni um sparifé landsmanna. Í þetta sinn eru það ekki viðskiptabankarnir, sem ríða á vaðið með fjölbreyttum freistingum. Það er ríkissjóður, sem þenur sig á heilli auglýsingaopnu um ferns konar ávöxtun peninga hjá sjálfu ríkinu.

Í rauninni eru þessar auglýsingar eins konar neyðaróp. Hinar miklu lántökur ríkisins á liðnum árum eru farnar að leiða til ört vaxandi endurgreiðslna á þessum fyrri lánum. Í ár þarf ríkið til dæmis að endurgreiða 3.800 milljónir í innlendum spariskírteinum.

Ríkið telur sig ekki hafa efni á að missa þessa peninga úr rekstri sínum. Í fjárlögum og óafgreiddri lánsfjáráætlun þessa árs er gert ráð fyrir, að eigendur fjárins taki ný bréf fyrir hin gömlu að verulegu leyti. Í því felst auðvitað töluverð bjartsýni.

Í fyrra gerði ríkið líka ráð fyrir að ná peningunum til baka. Í því skyni bauð það innleysendum spariskírteina 8% raunvexti fyrir að taka ný bréf. Þrátt fyrir þetta gylliboð missti ríkið 500 milljónir úr höndum sér, væntanlega til þeirra, sem buðu betri vexti.

Þetta sýnir, að ríkissjóður þarf í ár að taka á honum stóra sínum og yfirbjóða markaðinn með svokölluðum okurvöxtum, ef dæmi hans á að ganga upp. Hann ætlar þar að auki ekki aðeins að halda í gamla féð, heldur ná í 600 nýjar milljónir í spariskírteinum og ríkisvíxlum.

Þess vegna auglýsir ríkið nú “Lánsöm þjóð” yfir þverar opnur. Þar sem áður var bara réttur dagsins, er nú kominn heill matseðill. Ætlazt er til, að þeir, sem ekki falla fyrir einu tilboðanna, sjái sér þó hag í einhverju hinna. Bara að þeir láni ríkissjóði.

Nú geta lánsfjáreigendur valið um hefðbundin skírteini með 7% raunvöxtum eða vaxtamiðaskírteini með 6,71% raunvöxtum, sem verða hærri yfir árið hjá þeim, sem eru duglegir við að nota skærin. Eða þá gengistryggð skírteini með 9% vöxtum handa þeim, sem vilja spá í gengið.

Ekki er aðeins hugsað um spákaupmenn og skæraeigendur, heldur beinist eitt tilboðið að markaði viðskiptabankanna. Það eru tiltölulega stutt, 18 mánaða spariskírteini með hreyfanlegum vöxtum og 50% vaxtaauka. Með þeim er ætlunin að ná fé af bankareikningum.

Í þessu er eins dauði annars brauð. Bankarnir telja sig vafalaust hafa skyldum að gegna hjá viðskiptamönnum sínum. Þeir munu þrýsta fram kröfum um aukið frelsi til að hækka vexti til að ná inn peningum til að seðja síhungraða skuldunauta þessa lands.

Slagsmálin um takmarkað og hægt vaxandi lánsfé í landinu eru að verða ofsafengnari, af því að enginn telur lengur verjandi að auka erlendar skuldir þjóðarinnar. Þar að auki hafa menn komizt að raun um, að vextir eru alls ekkert lægri í útlöndum en hér.

Mál þetta kristallar ruglið í stjórnmálunum. Annars vegar sitja ráðumenn á löngum fundum til að finna leiðir til að fá Seðlabankann til að lækka raunvexti. Ábyrgir menn eru stórhneykslaðir á, að svonefnt vaxtaokur sé að sliga atvinnulíf og húsbyggjendur.

Á sama tíma á ríkið einskis annars úrkosti í peningavandræðum sínum en að taka af fullum krafti og flenniauglýsingum þátt í vaxtauppboðinu. En ríkinu dugar bara ekki að keppa við bankana um 8-10% vexti, þegar raunvextir markaðarins í verðtryggðum veðskuldabréfum eru 14-18%!

Jónas Kristjánsson.

DV