Skrímslið magnast.

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra er sagður hafa svikið samkomulag um kjarnfóðurskatt, sem stjórnarflokkarnir gerðu í sumar. Í stað þess að lækka skattinn um áramótin, tvöfaldaði hann gjaldið á þá starfsemi, sem er fyrir utan hið gullna hlið Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við DV á laugardaginn, að þetta væru “veruleg mistök í samskiptaháttum stjórnarflokkanna, sem ekki er hægt annað en horfa mjög alvarlega á”.

Í sumar var fallizt á hækkun kjarnfóðurskattsins, en aðeins til áramóta. Jafnframt var bókað í ríkisstjórninni, að stefnt skyldi að afnámi alls skattsins á næsta vori. Ráðherra hefur nú “gengið á svig við þetta samkomulag án þess að leita samráðs”, sagði Þorsteinn í viðtalinu.

Vinnubrögð landbúnaðarráðherra veita nokkra innsýn í stöðu hins hefðbundna landbúnaðar. Hann er ekki ríki í ríkinu, heldur ríki yfir ríkinu. Þar drottnar heilög þrenning Búnaðarfélags Íslands, Framleiðsluráðs landbúnaðarins og landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins.

Framleiðsluráð landbúnaðarins annast svonefnda framleiðslustjórnun á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar, sauðfjár og nautgripa. Afleiðing þessarar stjórnunar er, að upp hlaðast óseljanleg fjöll af ostum og smjöri, kindakjöti og nautakjöti.

Framleiðsluráðið hefur lengi ágirnzt sömu tök á afurðum fugla- og svínabænda. Þar ríkir ekki framleiðslustjórnun, heldur sjá markaðslögmálin um, að framboð og eftirspurn haldast í stórum dráttum í jafnvægi. Ennfremur hafa þessar vörur orðið hlutfallslega ódýrari með árunum.

Í rauninni hefur kjarnfóðurgjaldið frá upphafi falið í sér tilraun hinnar heilögu landbúnaðarþrenningar til að koma sínum aga á fugla- og svínabændur. Kjarnfóður er miklu þyngri kostnaðarliður í þessum greinum en í hinum hefðbundna landbúnaði. Þess vegna er það skattlagt.

Í fréttum hefur verið rakið, hvernig tekjurnar af þessu gjaldi hafa sumpart verið notaðar til að mylja undir þann hluta eggjabænda, sem vill hlýða þrenningunni og skipta við stofnunina Ísegg, sem ætlað er að verða hliðstæð einokunarstofnun og til dæmis Mjólkursamsalan.

Ísegg er meira eða minna byggt upp fyrir gjafa- og lánsfé úr kjarnfóðursjóði. Hinir sjálfstæðu framleiðendur, sem eru fyrir utan, verða að reisa sínar flokkunar- og dreifingarstöðvar á eigin kostnað. Það eru einmitt þeir, sem hafa haldið niðri verði á undanförnum árum.

Landbúnaðarráðherra hefur nú tvöfaldað kjarnfóðurskattinn á fugla- og svínabændur, en lækkað á móti um þriðjung í hinum hefðbundnu greinum, sauðfé og nautgripum. Með þessu er landbúnaðarþrenningin að reyna að efla hina óbeinu framleiðslustjórnun sína.

Markmiðið er að hækka egg, kjúklinga og svínakjöt um 12%, svo að neyzlan þar minnki og færist yfir til hins hefðbundna landbúnaðar, þar sem Framleiðsluráð situr á fjöllum sínum. Markmiðið er að koma í veg fyrir bráðnauðsynlegan samdrátt í hefðbundnum landbúnaði.

Fyrir helgina kom í ljós í lögfræðilegri úttekt, að hinn hefðbundni landbúnaður er ofan við þjóðfélagið og skammtar sér herfang sjálfur. Þetta skrímsli er ekki á undanhaldi. Þvert á móti er það magnaðra en nokkru sinni fyrr og er í þann veginn að éta þjóðina út á gaddinn.

Jónas Kristjánsson.

DV