Séríslenzkt tækifæri.

Greinar

Efnahagserfiðleikar Íslendinga eru ekki meiri en svo um þessar mundir, að víðast hvar vantar fólk í vinnu fremur en fólk vanti vinnu. Daglega eru auglýstir tugir starfa í dagblöðunum, en mun minna er um, að fólk óski í auglýsingum eftir atvinnu.

Þessi þensla er mikil á Reykjavíkursvæðinu, en er ekki aðeins þar. Yfir 100 atvinnuleyfi hafa verið veitt útlendingum til starfa í fiskiðnaði úti um land. Öll þessi leyfi hafa verið veitt að höfðu samráði við stéttarfélög og eftir árangurslausa leit í röðum heimamanna.

Þjóðhagsstofnun spáði fyrir ári 2% atvinnuleysi árið 1984. Í raun varð atvinnuleysið ekki nema 1,3%. Það er að vísu aukning frá 1983, þegar atvinnuleysið var 1%. Eigi að síður er það mjög lítið og ekki nema brot af því, sem nágrannaþjóðir okkar verða að sæta.

Atvinnuleysið í fyrra jafngilti 1.500 störfum. Það er svo lítið, að á móti koma mun fleiri laus störf, sem ekki er unnt að skipa, svo sem auglýsingar í dagblöðunum og ráðning erlends fiskvinnslufólks hafa sýnt núna í svartasta og atvinnuminnsta skammdeginu.

Atvinnuleysi og atvinnuframboð eru til hlið við hlið, af því að sum atvinna er í sókn, en önnur á undanhaldi. Oft skortir fólk til starfa í nýjum greinum, sem eru á uppleið, þótt erfitt sé á sama tíma að fá vinnu í hefðbundnum greinum sem eru að dragast saman.

Tregðulögmálið hefur mikil áhrif í þessu eins og á öðrum sviðum. Til dæmis er skólakerfið yfirleitt lengi að átta sig á breyttum aðstæðum. Enn þann dag í dag lesa börnin í skólunum um atvinnuhætti og lífið í sveitinni, margfalt meira en um aðrar greinar.

Hins vegar hefur skólakerfið eindregið tregðazt við að viðurkenna fisk. Mjög seint kom til sögunnar Fiskvinnsluskóli. Hann hefur átt fjárhagslega erfitt uppdráttar. Og á háskólastigi er lítið um fræðslu, sem gæti til dæmis nýtzt í hinu upprennandi fiskeldi.

Af því að tölvur eru taldar heldur fínni en fiskur í skólakerfinu hefur tekizt mun hraðar og betur að koma upp tölvum og tölvufræðslu í skólum. Þetta ánægjulega framtak hefur þegar skilað töluverðum árangri í atvinnulífinu og mun gera það enn frekar í náinni framtíð.

Við sjáum fram á, að atvinnugreinar á borð við tölvutækni og fiskeldi muni í náinni framtíð geta sogað til sín mikið af starfskröftum og það á betri kjörum en tíðkast í hinum hefðbundnu greinum, sem eru á undanhaldi. Stjórnmálin ættu að styðja þessa þróun.

Þvert á móti er ausið fé í gersamlega úrelta grein á borð við hinn hefðbundna landbúnað. Þar er fjárfestur milljarður króna á hverju ári. Á sama tíma er næstum útilokað að svæla út krónu til stuðnings fjárfestingu í framtíðinni, tölvum og fiskeldi.

Í rauninni ætti hið litla atvinnuleysi að auðvelda markvissa sókn frá gömlu greinunum yfir í nýjar. Í löndum mikils atvinnuleysis eru slík umskipti miklu sársaukafyllri, svo sem sýnir verkfall kolanámumanna í Bretlandi, þar sem verið er að loka arðlausum námum.

Þjóð, sem býr við 1,3% atvinnuleysi meðan nágrannaþjóðirnar búa við 8-12% atvinnuleysi, getur hrósað happi, ef ráðamenn hennar magna með sér kjark til að nota tækifærið til að hætta að fjármagna fortíðina með valdboði og fara í staðinn að leyfa markaðinum að fjármagna framtíðina.

Jónas Kristjánsson.

DV