Hin dauða hönd.

Greinar

Íslendingar voru fyrir þrjátíu árum fremstir evrópskra þjóða í fiskeldi. Þá hafði Skúli á Laxalóni stundað laxarækt um skeið og var að byrja á regnbogasilungi til viðbótar. Norðmenn, sem nú eru öflugastir á þessu sviði, vissu varla, að laxarækt væri kleif.

Ef ríkisvaldið hefði látið Skúla á Laxalóni í friði með tilraunir hans, væru Íslendingar nú forustuþjóð í fiskeldi. Við ættum mörg og öflug innlend fyrirtæki á þessu sviði. Fiskeldið væri mikilvægasta atvinnugrein landsins og helzta gjaldeyrisuppspretta þess.

En í stað þessa hundelti ríkisvaldið Skúla í þrjá áratugi. Fremstir voru þar í flokki einræðisherrarnir Þór Guðjónsson veiðimálastjóri og Páll Pálsson yfirdýralæknir. Öllum tiltækum ráðum var beitt til að koma í veg fyrir, að hrogn og seiði væru seld frá Laxalóni.

Hámarki náðu þessar ofsóknir í tilraunum til að koma sjúkdómsorði á starfsemi Laxalónsmanna. Öll sú saga hefur birzt í fjölmiðlum og er ekki fögur. Þetta leiddi til, að ekki mátti selja hrogn og seiði frá Laxalóni, svo sem staðfest hefur verið með Hæstaréttardómi.

Í staðinn reisti ríkisvaldið eigin laxaræktarstöð í Kollafirði. Sú saga er samfelld harmsaga, allt frá því er ríkið varð að kaupa veiðiréttindi í eigin stöð. Stöðin var mjög dýr í byggingu og er enn dýr í rekstri, auðvitað á kostnað skattgreiðenda.

Í Kollafirði er ekki eingöngu notað lindarvatn eins og Laxalónsmenn nota við fiskeldi sitt í Fiskalóni. Hin gífurlega fjölmenna svartbakssveit, sem nærist á salmonella og coli frá holræsum Reykjavíkursvæðisins, verpir í Esjunni, þaðan sem vatnið rennur í laxeldisstöðina.

Svo alvarlegum augum er litið á slíkt ástand í Danmörku, að laxaræktarmönnum er með lögum bannað að haga málum á þann hátt, að sýking geti borizt með fugli í fiskinn. Hér hefur Kollafjarðarstöðin hins vegar náð einokun í dreifingu seiða um allt land.

Afleiðingin af einokun og skipulagi ríkisins er nú að koma í ljós. Sjúkdómar hafa komið upp í Kollafjarðarstöðinni og einni stöð, sem hefur fengið seiði þaðan. Um allt land eru laxaræktarmenn andvaka af áhyggjum út af því að lenda í Kollafjarðarbölinu.

Nú gildir ekki harkan sex eins og þegar sjúkdómsorðinu var logið upp á Laxalón. Landbúnaðarráðherra veltir vöngum meðan allt laxeldi í landinu rambar á barmi niðurskurðar. Kollafjarðarstöðin er rekin eins og ekkert hafi í skorizt. En enginn þorir að kaupa þaðan.

Svo mikil er einræðishneigð hinna opinberu embættismanna, sem stjórna þessum málum í skjóli duglítilla stjórnmálamanna, að 12. júní í fyrra bannaði Jón Helgason bréflega Laxalónsmönnum að rækta lax í fyrirhugaðri stöð í Hvalfirði. Það tók fimm mánuði að fá þessu breytt.

En nú er öldin að verða önnur. Samband íslenzkra samvinnufélaga hyggst skella sér út í umfangsmikla fiskirækt. Þess vegna má búast við, að Þór Guðjónssyni og Páli Pálssyni verði ýtt til hliðar og athafnamenn fái nú loksins útrás á þessu sviði.

Ef ríkisvaldið hefði ekki skipulagt þessi mál í þrjátíu ár og hefði látið atvinnugreinina í friði, værum við nú með gjaldeyrisuppsprettu, sem væri gjöfulli en sjávarútvegurinn. Og hún væri öll í eigu Íslendinga, en ekki erlendri, svo sem nú er að verða raunin.

Þetta er skólabókardæmi um hina dauðu hönd ríkisvaldsins.

Jónas Kristjánsson.

DV