Ferskfiskur er fullunnin.

Greinar

Ferskur fiskur ísaður hefur sótt verulega á í útflutningi upp á síðkastið. Til viðbótar við hina hefðbundnu leið, að togarar sigli með aflann, er nú kominn mikill og vaxandi útflutningur á ferskum fiski í gámum. Sumt af þessum fiski er meira að segja flutt flugleiðis.

Þetta byggist á, að ferskur fiskur er verðmeiri vara en frystur fiskur. Í frystingu felst alls ekki nein fullvinnsla sjávarafurða eins og margir virðast halda. Frystingin er fyrst og fremst vörn gegn skemmdum eins og aðrar og eldri aðferðir við fiskvinnslu.

Ferskur fiskur fer beint á markað. Hann hleður ekki á sig kostnaði við fiskvinnslu og fiskgeymslu í sex mánuði. Hann notar ekki rafmagn og húsaleigu í fiskvinnslustöðvum og hann stendur ekki undir vöxtum, sem hlaðast upp meðan beðið er eftir, að frysti fiskurinn komist í verð.

Þannig er ekki nóg með, að ferski fiskurinn sé seldur á hærra verði, heldur sparast í honum margvíslegur framleiðslu-, geymslu- og vaxtakostnaður. Á móti þessum sparnaði kemur svo hærri flutningskostnaður, sérstaklega þegar fiskurinn fer með flugvélum.

Fyrr á árum var erfiðara að koma ferskum fiski á markað í útlöndum en nú er orðið. Hann var oft orðinn skemmdur, þegar til kastanna kom, og hrundi í verði. Á þeim tíma var frysting kærkomin aðferð til að koma í veg fyrir slík slys og halda tiltölulega stöðugu verði.

Í framtíðinni mun gildi freðfisks hins vegar fyrst og fremst felast í, að hann er kjörið hráefni fyrir verksmiðjur, sem framleiða svokallaðar sjónvarpsmáltíðir. Þær eru tilbúnar á borðið, þegar þeim hefur verið stungið andartak í örbylgjuofn, sem víða er til á heimilum.

Ekkert bendir þó til, að sjónvarpsmáltíðir og örbylgjuofnar muni ryðja ferskum fiski úr vegi. Víða um heim eru menn sömu skoðunar og íslenzkir neytendur, líta ekki við frystum fiski, þótt ferskur sé ekki fáanlegur. Þetta á til dæmis við um fiskneyzluþjóð á borð við Frakka.

Heppilegast fyrir okkur er að vinna upp fjölbreyttan markað fyrir fiskinn. Við eigum ekki að velja milli freðfisks og ferskfisks, né heldur gleyma saltfiski og skreið. Fjölbreytni í framboði felur í sér gagnlega vernd gegn verðsveiflum, sem oft verða á afmörkuðum sviðum.

Stjórnvöld hafa löngum litið hornauga til útflutnings á ferskum fiski og jafnvel lagt stein í götu hans. Það stafar einkum af, að margir sjá ofsjónum yfir, að afkastageta frystihúsanna sé ekki nýtt. Við þetta blandast svo óráðshjalið um fullvinnslu sjávarafla.

Staðreyndin er, að samkeppnisaðstaða okkar er orðin afar erfið gagnvart niðurgreiddum sjávarútvegi Noregs og ýmissa annarra landa. Ef við getum gert sjávarútveginn arðbæran með því að spara vinnslu-, geymslu- og vaxtakostnað og fá þar á ofan hærra verð, eigum við að gera það.

Svo virðist sem fiskvinnslan geti ekki greitt útgerð og sjómönnum það fiskverð, sem þessir aðilar telja sig lægst þurfa. Hún geti ekki heldur greitt starfsfólki samkeppnishæf laun fyrir erfiða vinnu, sem kostar vöðvabólgu, heyrnarskemmdir og sjúkdóma í öndunarfærum.

Sala á ferskum fiski til útlanda er æskilegur kostur um þessar mundir. Hún getur raunar skilið milli taps og gróða í sjávarútvegi og rofið láglaunakreppuna í þeirri grein. Telja verður afar skaðlegt, að stjórnvöld leggi fyrir misskilning stein í götu ferskfisksölunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV