Óhófleg athafnagleði.

Greinar

Landsvirkjun og stuðningsmenn hennar hafa farið halloka í hinni óbeinu ritdeilu við Finnboga Jónsson verkfræðing um offjárfestingu í orkuverum. Eftir stendur, að framkvæmdagleði Landsvirkjunar á þátt í óeðlilega háu orkuverði til almennra nota hér á landi.

Landsvirkjun hefur sér til málsbóta, að illa fyrirsjáanlegar aðstæður hafa gert fyrri orkuspá úrelta. Ennfremur, að hún hefur raunar sjálf séð, að of geyst var farið, og lækkað framkvæmdaáætlun þessa árs, fyrst úr 1.400 milljónum í 1.200 milljónir og nú síðast í 950 milljónir.

Deiluaðilar eru sammála um, að umframorka Landsvirkjunar sé nú 750 gígawattstundir á ári. Þar af eru 250, sem Landsvirkjun hefur til öryggis, 200, sem ekki eru nýttar af Hrauneyjafossi, og 300, sem stafa af óþarflega skjótum framkvæmdum við Sultartanga og í Kvíslaveitu.

Varaorka Landsvirkjunar er mikil. Samt er stóriðja verulegur hluti viðskipta hennar. Samningar um þá orkusölu fela yfirleitt í sér ákvæði fyrir léleg vatnsár. Til dæmis má skerða orkusölu til Ísal um 200 gígawattstundir á ári, ef mikið liggur við.

Þá hefur Finnbogi bent á, að ódýrara sé að flytja inn ammoníak til Áburðarverksmiðjunnar en að halda uppi varaorku fyrir hana í vondum vatnsárum. Um leið sýnir sá samanburður óbeint, að orkuverð verksmiðjunnar hlýtur að fela í sér töluverða niðurgreiðslu áburðar.

Raunar hefur Finnbogi slegið öryggisvopnin úr höndum Landsvirkjunar með því að benda á, að ekki mundi taka stóriðjumenn nema mínútu að reikna út, að glórulaust væri að greiða herkostnaðinn af umframorku Landsvirkjunar, ef hún væri seld á kostnaðarverði.

Umframorkan, sem Landsvirkjun telur nauðsynlega, 250 gígawattstundir, nemur 25% af heildarmarkaðinum og hvorki meira né minna en 55% af almenna markaðinum, þegar búið er að draga frá stóriðjuna. Hæpið er, að nauðsynlegur sé meira en lítill hluti af þessu.

Einföld tilvitnun í málsvara Landsvirkjunar er gott dæmi um takmarkað fjármálavit á þeim bæ. Hann sagði: “Kvíslaveitur eru ekki fullgerðar og hafa engin áhrif á orkuverð fyrr en svo verður.” Fjórir áfangar framkvæmdarinnar eru búnir og hinum fimmta og síðasta hefur verið frestað.

Tilgangslaust væri að segja húsbyggjanda og hvað þá fjármálamanni, að ekki sé kostnaður af framkvæmdum fyrr en þeim sé lokið. Framkvæmdir kosta fé frá fyrstu skóflustungu og þar á ofan vexti í flestum tilvikum, þar á meðal í Kvíslaveitu Landsvirkjunar.

Ekki er rétt að saka Landsvirkjun um of snemmbært orkuver við Hrauneyjafoss. Ef stórt er virkjað, tekur alltaf nokkurn tíma að koma allri orkunni í verð. Ekki er heldur hægt að álasa Landsvirkjun fyrir Kröfluvirkjun, þar sem aðrir aðilar áttu hlut að máli.

Hins vegar var misráðið að fara hratt í framkvæmdir við Sultartanga og í Kvíslaveitu. Ennfremur var farið alltof geyst í Blöndu. Nú er full ástæða til að setja þar í gang hemlana, að minnsta kosti fram að þeim tíma, er nýir stóriðjusamningar verða undirritaðir.

Hlutur orkukostnaðar af útgjöldum neytenda hefur vaxið hrikalega á undanförnum árum, svo sem sjá má af tölum frá Hagstofunni. Samanburður við útlönd sýnir líka, að við erum í dýrasta kanti. Að hluta er þetta athafnagleði Landsvirkjunar að kenna. Hana þarf snarlega að minnka.

Jónas Kristjánsson

DV