Spáð í óvissuna.

Greinar

Fylgisaukning Alþýðuflokksins í nýjustu könnun DV er ekki bundin á trompreikningi til langs tíma. Hún getur horfið eins snögglega og hún kom. Fylgisaukningin er afleiðing þróunar mála að undanförnu og hefur ekki spásagnargildi, allra sízt langt fram í tímann.

Hið sama má segja um sveiflur fylgis annarra flokka. Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins, segist réttilega spyrja að leikslokum í kosningum. En hin slæma útreið aðalflokks stjórnarandstöðunnar hlýtur þó að verða honum aðkallandi umhugsunarefni.

Skoðanakannanir sýna breytingar, sem orðið hafa frá síðustu könnun. Sem slíkar eru þær ekki aðeins upplýsingar og spennandi lesefni. Þær eru líka stjórnmálamönnum tækifæri til að endurmeta stöðuna. Og svo verður örugglega að þessu sinni, ekki síður en hingað til.

Alþýðubandalagið telur sig vafalaust geta reynt að endurheimta fylgi, sem færzt hefur til Alþýðuflokksins og Kvennalistans. Líklegast til árangurs fyrir það væri að líta í eigin barm og spyrja, hvað fæli fólk frá flokki, sem ætti að geta baðað sig í stjórnarandstöðunni.

Alþýðubandalaginu liggur ekki á kosningum á þessu ári. Alþýðuflokknum og að nokkru leyti Kvennalistanum kæmu þær sér hins vegar vel. Til dæmis má ætla líklegt, að sveiflan endist Alþýðuflokknum fram á sumarið. Fjarlægari framtíð er hins vegar meiri óvissu hulin.

Mestu máli skiptir, hvernig ráðamenn í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum meta stöðuna eftir skoðanakönnunina. Sumpart mun hún gera Framsókn hrædda við kosningar, en á hinn veginn hvetja samstarfsflokkinn til að bjarga sér á þurrt eftir óvinsælt stjórnarsamstarf.

Aðrir munu segja sem svo, að fyrst sé bezt að sýna markverðar tillögur um baráttuna við helztu vandamál þjóðarinnar á sviði efnahags- og fjármála. Slíkar tillögur muni bæta stöðu beggja stjórnarflokkanna í kosningum, sem haldnar yrðu á þessu ári.

Enn aðrir munu segja, að slíkar tillögur mundu, ef framkvæmdar yrðu, endurnýja traust manna á ríkisstjórninni og veita henni siðferðilegan styrk til að halda áfram samstarfinu langleiðina eða alla leiðina til loka kjörtímabilsins eftir rúmlega tvö ár.

Í öllu falli er það sjálfskaparvíti stjórnarflokkanna, ef þeim tekst ekki að læra af aðvöruninni, sem þeir hafa fengið. Ef ríkisstjórnin flýtur áfram sofandi að feigðarósi, verður Sjálfstæðisflokkurinn að gefast upp, áður en hann lendir í sama fylgishruni og Framsóknarflokkurinn.

Ýmsir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum horfa nú mjög á tölur, sem sýna, að viðreisnarmynztrið sé komið í meirihluta og það án þátttöku Bandalags jafnaðarmanna. Þetta eykur kosningafreistingarnar og magnar óánægjuna með hina róstusömu sambúð við Framsóknarflokkinn.

Samt er viðreisnarmynztrið sýnd veiði, en ekki gefin. Ekki er víst, að flokkur, sem hefur dregið sér fylgi frá vinstri sé reiðubúinn til að semja til hægri. Viðreisnarsinnar gætu hæglega orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum eftir kosningar, það er að segja fengið vinstri stjórn.

Óvissan um öll þessi atriði er enn meiri fyrir þá sök, að allar kannanir sýna, að hinir óráðnu kjósendur eru stærsti stjórnmálaflokkurinn. Þær sýna, að kjósendur eru engar fasteignir flokkanna. Hollusta við flokka er orðin að minnihlutafyrirbæri í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson.

DV