Hin græðandi hönd.

Greinar

Loksins hafa stjórnvöld í raun tekið jákvæða afstöðu til fiskeldis í landinu. Sverrir Hermannsson orkuráðherra hefur gefið vilyrði fyrir, að velheppnuð borhola misheppnaðrar sjóefnaiðju verði notuð til að veita fiskræktendum aðgang að ódýrri hitaveitu.

Hingað til hafa stjórnmálamenn verið miklir í orði en litlir á borði, þegar um fiskeldi hefur verið að ræða. Í reynd hafa þeir í rúman aldarfjórðung látið viðgangast, að ríkiskerfið legði dauða hönd sína á tilraunir brautryðjenda til að koma fiskeldi á fót.

Hér í leiðaranum var um daginn minnt á sögu Laxalóns. Embættismenn hins opinbera ofsóttu það framtak í að minnsta kosti aldarfjórðung og reyndu að koma á það sjúkdómsorði. Meðal annars fékk Laxalón ekki tilskilda ríkisstimpla til að fá að selja seiði regnbogasilungs.

Í 30 ár kom aldrei upp neinn sjúkdómur í regnbogasilungi Laxalóns og er þar líklega einsdæmi í heiminum. Aðeins einu sinni kom þar upp nýrnasjúkdómur í laxi. Það er sami árangur og náðst hefur í Kollafjarðarstöð ríkisins, þar sem þessi sjúkdómur hefur nú komið upp.

Þeim, sem söguna þekkja, verður óglatt af að sjá nú nokkra Keldnamenn, starfsfélaga yfirdýralæknis, fara með hortugt fleipur á prenti um mál þetta. Kerfismenn létu sig á sínum tíma ekki muna um að reyna að koma óorði á erlenda vísindamenn, Frank Bregnballe og dr. Trevor Evelyn.

Fjöldi góðra manna reyndi að sporna gegn ofsóknum kerfisins, svo og samtök á borð við Verzlunarráð. Margir alþingismenn lögðu opinberlega hönd á plóginn. Einu sinni reyndi Allsherjarnefnd alþingis að vernda Laxalón. En kerfið hafði jafnan sitt fram.

Með samræmdum aðgerðum embættismanna undir verndarvæng landbúnaðarráðuneytisins var komið í þrjá áratugi í veg fyrir, að fiskeldi gæti þróazt hér með sama hætti og í Noregi á sama tíma. Og allt virðist þetta hafa verið gert til að koma á einokun ríkisins.

En núna er nóg komið um sorgarsögu hinnar dauðu handar. Við skulum heldur beina athyglinni að hinni græðandi bendi, sem komin er til skjalanna um allt land, ekki fyrir tilverknað eða fjárstuðning ríkisins, heldur þrátt fyrir afskipti ríkisins af íslenzku fiskeldi.

Um það bil 30 fiskeldisstöðvar hafa tekið til starfa og um 10 munu fljótlega komast í rekstur. Í litlu bæjarfélagi, Grindavík, eru hvorki meira né minna en fjórar stöðvar í uppbyggingu eða gangi. Þróunin er komin á fullt skrið og verður ekki stöðvuð úr þessu.

Menn fara mismunandi hratt út í ævintýrið. Í Grundarfirði er útgerðarmaður að koma upp 50 þúsund seiða stöð, í Grindavík er Sambandið að reisa 500 þúsund seiða stöð og í Kelduhverfi ráðgera Eykonsmenn fimm milljón seiða stöð. Vonandi gengur alls staðar vel.

Í fyrra lánaði Framkvæmdasjóður 22 milljónir til fiskeldis og Byggðasjóður fjórar auk þess sem hann gaf eina milljón. Þetta er ekki nema dropi í hafið og er ekkert í samjöfnuði við stuðninginn við hinar hefðbundnu greinar. Enda hefur þing Stéttarsambands bænda varað við þróun fiskeldis!

En nú er komin betri tíð með blóm í haga. Orkuráðherra býður fyrir lítið fé 25 megavatta afl á Reykjanesi. Næsta skref verður síðan að draga úr lánsfé til hefðbundinna greina og beina því í staðinn að fiskeldi. Fortíðin er liðin og nú á framtíðin að taka við.

Jónas Kristjánsson

DV