Hungurframleiðsla.

Greinar

Íslenzkir fjölmiðlar hafa fengið tækifæri til að komast að raun um, að hjálpin frá Íslandi til Eþíópíu kemst til skila. Gamalgróið trúboð Íslendinga þar syðra veldur því, að fulltrúar íslenzku þjóðkirkjunnar eru þar í grasrótinni og geta fylgzt með varningnum á leiðarenda.

Því er ekki þannig farið með meirihlutann af aðstoð annarra ríkja Vesturlanda. Hann fer í að halda uppi 300 þúsund manna her ógnarstjórnarinnar í Addis Ababa, sem hefur búið til hungursneyðina í landinu. Leiðtogar hjálparstarfsins reyna að þegja yfir þessu eins og þeir gerðu í Kampútseu á sínum tíma.

Mörg ríki eru á þurrkasvæðinu sunnan við Sahara, til dæmis Súdan, Tsjad, Níger, Búrkína Fasó, Malí og Máretanía. Hvergi hefur þó verið framleidd önnur eins hungursneyð og í Eþíópíu. Munurinn felst í þjóðskipulaginu, sem ógnarstjórn kommúnista hefur innleitt í Eþíópíu.

Um 60% af landinu er ræktanlegt, en aðeins 13% er ræktað. Bændur vilja ekki framleiða meira en ofan í sig og sína, því ríkisstjórnin stelur hinu, auk þess sem hún reynir að þvinga þá inn í samyrkjubú. Þar á ofan heyr hún útrýmingarstríð gegn íbúum Erítreu og Tigre.

Öll kredda er hættuleg, en verst er sú, sem upprunnin er í Sovétríkjunum. Engin kredda felur í sér eins mikla fyrirlitningu á fólki. Hræðileg eru örlög þeirra þjóða, sem hafa lent undir hramminum. Við munum eftir Kampútseum. Nú eru íbúar Eþíópíu í eldlínunni.

Ógnarstjórnin í Addis Ababa hefur engar mannlegar tilfinningar í garð íbúa landsins. Á byltingarafmælinu eyddi hún í viskí upphæðum, sem hefðu getað nært þjóðina í heilt ár. Að öðru leyti fara allir fjármunir hennar í að kaupa vopn frá Sovétríkjunum.

Ógnarstjórnin hefur afrekað að tolla hjálpargögn, sem koma til landsins. Bryggjur, sem eru fráteknar fyrir hjálparstarf, notar hún til að skipa upp hergögnum, meðan hjálparskipin bíða. Þannig framkallar stjórnin hungur íbúanna um leið og hún kastar sprengjum á þá.

Ógnarstjórnin tefur fyrir starfi hjálparliða á ýmsan hátt. Hún frestar afgreiðslu á ferðaleyfum, svarar ekki fyrirspurnum og gleymir að gefa út vegabréfsáritanir. Leiðtogar hjálparstarfsins þegja um þetta, af því að þeir vilja ekki spilla samstarfsmöguleikunum.

Sorglegt er, að verulegur hluti hinnar vestrænu hjálpar fer til að halda uppi herjum ógnarstjórnarinnar og stuðlar þannig að framhaldi hungursneyðarinnar. Það er í stíl við þetta, að Sameinuðu þjóðirnar hafa nú ákveðið að reisa mikla ráðstefnuhöll í Addis Ababa.

Tímabært er, að hjálparstofnanir á Vesturlöndum endurskoði vinnubrögðin í Eþíópíu. Þær ættu að reyna að hindra ranga notkun hjálpargagnanna og nota heldur stofnanir á borð við íslenzku þjóðkirkjuna, sem hafa reynzt geta komið sinni hjálp á leiðarenda.

Ennfremur er nauðsynlegt að láta meiri hluta af hjálpinni renna um nágrannalöndin, svo sem Súdan. Á þann hátt stuðlar hjálpin ekki að viðgangi ógnarstjórnarinnar, heldur grefur undan henni. Sú hjálp, sem grefur undan hungurframleiðendum, er mikilvægust.

Hungursneyðin í Eþíópíu er skólabókardæmi um, hvernig hægt er með kreddu að framleiða hungur, svelta milljónir manna til dauða. Í Kampútseu tókst kreddunni fyrir nokkrum árum að þurrka út gamla menningu. Nú er svipuð saga að gerast í Eþíópíu.

Jónas Kristjánsson.

DV