Skaðleg framleiðslustjórn.

Greinar

Ekki er nóg að hindra, að Framleiðsluráð landbúnaðarins nái stjórnartökum á nýjum búgreinum til viðbótar við þær, sem það ræður fyrir. Einnig er nauðsynlegt að afnema stjórn ráðsins á framleiðslu hins hefðbundna landbúnaðar. Reynslan sýnir, að hún leiðir til ófarnaðar.

Miklar og vaxandi birgðir eru af óseljanlegum afurðum ráðsins. Hálfs árs birgðir eru til í smjörfjalli, hálfs árs birgðir í ostafjalli, hálfs árs birgðir í nautakjötsfjalli, heils árs birgðir í dilkakjötsfjalli og tveggja ára birgðir í kartöflufjalli.

Tölur frá 1. desember sýndu 409 tonna smjörfjall, en ársneyzlan er 918 tonn. Ostafjallið var 922 tonn, en ársneyzlan er 1700 tonn. Nautakjötsfjallið var 1000 tonn, en ársneyzlan er 2000 tonn. Kindakjötsfjallið var 11.551 tonn, en ársneyzlan er 9739 tonn.

Samt hafði mikið verið gefið til útlanda til að reyna að grynna á birgðunum. Útflutningsuppbætur áttu samkvæmt fjárlögum að vera 280 milljónir, en ruku upp í 480 milljónir króna. Osturinn fór til Evrópu á 16% af kostnaðarverði og smjörið er nú í 10%.

Engin fjöll hafa hins vegar myndast í þeim greinum, sem framleiðsluráð stjórnar ekki, en sækist eftir að ná tökum á. Engin fjöll eru af eggjum og kjúklingum, svínakjöti og loðdýrum. Á þeim sviðum sér markaðurinn sjálfkrafa um að halda framboði í jafnvægi.

Ekki er einungis um að ræða, að skorturinn á framleiðslustjórn hafi komið í veg fyrir offramleiðslu á þessum sviðum. Skorturinn á framleiðslustjórn hefur líka leitt til minni verðhækkana en hafa orðið hjá stýrðu greinunum hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Frá desember 1972 til júní 1984 hækkaði hið framleiðslustýrða dilkakjöt um 3583%, nautakjötið um 5736%, nýmjólkin um 4050% og osturinn um 3921%, allt saman í óniðurgreiddum tölum. Í öllum tilvikum voru þessar hækkanir langt umfram verðbólgu tímabilsins.

Í óstýrðu greinunum voru hækkanirnar ekki aðeins minni en í stýrðu greinunum, heldur einnig hóflegar í samanburði við verðbólgu tímabilsins. Svínakjötið hækkaði um 2606%, kjúklingarnir um 2530%, eggin um 2508%. Á sama tíma hækkuðu laun um 2514%.

Niðurstaðan er, að stjórnleysi er ódýrara fyrir neytendur, launþega og skattgreiðendur en stjórn Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Þessir hagsmunir eru svo yfirgnæfandi, að augljós þjóðarhagur felst í, að ráð þetta verði lagt niður sem allra fyrst.

Slík breyting væri líka í þágu bænda. Í óstýrðu greinunum geta þeir borið höfuðið hátt, meðan stýrðu bændurnir hafa sætt og munu áfram sæta gagnrýni fyrir að liggja uppi á neytendum, launþegum og skattgreiðendum. Slík niðurlæging getur ekki gengið lengi.

Einhvern tíma rís þjóðin upp gegn oki Framleiðsluráðs landbúnaðarins og brýtur vald þess á bak aftur. En það verður því miður ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, er hefur ráðið sem eitt af gæludýrum sínum og leyfir því að ráðskast með hluta ríkisvaldsins.

Þvert á móti er framleiðsluráðið í sókn um þessar mundir með aðstoð systurstofnana sinna. Það stefnir að stjórnartökum á öllum búgreinum. Neytendur, launþegar og skattgreiðendur verða að taka hart á móti þessu skrímsli. sem hvarvetna eitrar út frá sér.

Jónas Kristjánsson

DV