Hús kosta peninga.

Greinar

Nýjustu aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum eru fyrst og fremst millifærslur innan húsnæðisgeirans og hafa því ekki varanlegt gildi. Linaðar verða þjáningar þeirra, sem fengið hafa lán, á kostnað hinna, sem enn bíða eftir lánum eða eru að sækja um lán.

Tilraunir til að leysa vandræði húsbyggjenda í alvöru hljóta að kosta peninga. Allt annað er hrein blekking og óskhyggja. Ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi ráða því, hversu mikið fé fer til húsnæðismála og þá ekki til annarra brýnna mála.

Ríkisstjórnin hefur lofað húsbyggjendum lánum fyrir 80% kostnaðar á viðráðanlegum raunvöxtum til um það bil 40 ára. Hún hefur allt kjörtímabilið til að efna loforðið. Senn er tíminn hálfnaður og verkefnið skammt á veg komið, enda er þjóðarbúið ekki vel statt.

Húsbyggingar á Íslandi eru ekki arðbærar, að minnsta kosti ekki í því magni, sem þær eru stundaðar. Engum heilvita manni dytti í hug að byggja hús til að leigja það út. Miklu fremur eru húsnæðismálin pólitísk hugsjón allra flokka. Hugsjón, sem greiða þarf niður af sameiginlegu fé.

Niðurgreiðslur í formi öfugra raunvaxta eru varhugaverðar, þar með talin niðurfelling verðtryggingar fyrstu þrjú árin. Einnig er varasamt að beina aðstoðinni eingöngu að þeim, sem geta sannað, að fjárfesting þeirra sé hrein endaleysa, enda hætta þá hinir bara að borga.

Hitt er sanngjarnt, sem bent hefur verið á, að miða þurfi endurgreiðslur húsnæðislána við aðra vísitölu en lánskjaravísitölu. Fráleitt er, að gróðafíkn ríkisins á sviði áfengis og tóbaks eigi á vegum lánskjaravísitölu að geta sett fjölda húsbyggjenda á höfuðið.

Byggingavísitala sýnist skynsamari kostur, en leysir þó ekki allan vanda, því að hún getur eins og lánskjaravísitalan lent á skjön við kaup og lífskjör fólks. Bezt væri að miða verðtryggingu húsnæðislána við kaupgjaldsvísitölu, svo að fólk viti, að hverju það gengur.

Auðvitað þarf að byrja á að leysa vandræði þeirra, sem hafa á síðustu árum lent í misgengi lánskjara og kaupgjalds. Það ætti að gera með því að endurgreiða fólki mismuninn á greiðslum samkvæmt þessum tveimur vísitölum og haga rukkunum framvegis í samræmi við hina síðari.

Vegna fjárskorts er til að byrja með ekki hægt að gera þetta á annan hátt en nú á að fara að gera, – með því að fresta því að veita ný lán. En þetta er mun heiðarlegri og skynsamlegri leið en að skvetta 150-200 þúsund krónum í þá, sem hæst geta grátið í Húsnæðisstofnun ríkisins.

Líklegt er, að til viðbótar við þessa breytingu þyrfti að greiða niður raunvextina. Þeir hafa tilhneigingu til að verða háir hér á landi vegna gífurlegs skorts á fjármagni. Húsbyggingar eru ekki samkeppnishæfar á því sviði og þola varla meira en 4% raunvexti.

Ef stjórnmálamenn vilja standa við þá hugsjón að gera þjóðinni kleift að byggja yfir sig, er líklegt, að greiða þurfi niður mismuninn á raunvöxtum hins frjálsa markaðar og þeim raunvöxtum, sem íbúðarhúsnæði getur staðið undir. Með 80% lánum til 40 ára ætti slíkt að duga.

En hvort sem þessar tvær leiðir eða aðrar eru farnar, er útilokað að forðast þá staðreynd, að það kostar peninga, en ekki millifærslur eða aðrar sjónhverfingar, að gera þjóðinni kleift að byggja yfir sig. Ennfremur, að þeir peningar verða ekki notaðir í annað.

Jónas Kristjánsson.

DV