Stærsti framsóknarflokkurinn.

Greinar

Við þurfum ekki á Framsóknarflokknum að halda, meðan við höfum stærsta framsóknarflokk þjóðarinnar í Sjálfstæðisflokknum. Sá flokkur er nú að ljúka gerð nýrrar stefnu í landbúnaðarmálum og er þar á nokkurn veginn nákvæmlega sömu skoðun og Framsókn.

Löngum hefur það verið talið bera vitni um sjálfseyðingarhvöt, þegar þéttbýlisfólk kýs Framsóknarflokkinn, enda hefur hann nú bara einn þingmann á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu og mundi samkvæmt skoðanakönnunum missa hann, ef kosið væri þessa dagana.

En þetta kemur afturhaldinu ekki að sök, því að stærsti framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, gætir í hvívetna þeirra hagsmuna, sem valda fylgisleysi Framsóknarflokksins í þéttbýli. Þetta kom fram í Valhallarræðu Birgis Ísleifs Gunnarssonar á fimmtudaginn.

Samkvæmt ræðunni vill Sjálfstæðisflokkurinn minnka “þörfina” á útflutningsbótum og stefna að því, að þær verði “að mestu,’ lagðar niður á fimm árum. Þetta er nákvæmlega stefna Framsóknarflokksins og mun íhaldssamara en skoðanir, sem nýlega komu fram á ráðunautafundi landbúnaðarins.

Sjálfseyðingarhvöt Íslendinga felst aðeins að hluta í útflutningsbótunum, sem eru skítur á priki í samanburði við samanlagðar fórnir þjóðarinnar á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Niðurgreiðslurnar og beinu styrkirnir nema hærri fjárhæðum en útflutningsbæturnar.

Segja verður þó Sjálfstæðisflokknum til hróss, að í áðurnefndri stefnu er sagt, að ekki beri að veita framlög til þeirra framkvæmda, sem auka mjólkur- og kjötframleiðslu. Það er raunar eina ljósið í stefnunni, sem Birgir Ísleifur kynnti á fimmtudaginn var.

Í tillögunum er ekkert fjallað um þann vanda, að framleiðsla hins hefðbundna landbúnaðar fyrir innanlandsmarkað er mun dýrari en innfluttar afurðir væru, allt upp í tíu sinnum dýrari. Sú skattlagning á neytendur er stærsti skattur, sem lagður er á þjóðina.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að landbúnaðinum verði áfram “stjórnað”. Sú stjórn felst í, að framleidd eru fjöll af óseljanlegum afurðum. Ekki er bara til smjörfjall, heldur einnig ostafjall, nautakjötsfjall, kindakjötsfjall og nú síðast líka kartöflufjall.

Ekki er von á góðu, þegar formaður stærsta framsóknarflokksins er fulltrúi stærsta landbúnaðarkjördæmis landsins og stendur í ströngu við að hækka franskar kartöflur í verði og reyna að koma á innflutningsbanni þeirra, svo að innlendar hafi frítt spil á kostnað neytenda.

Þorsteinn Pálsson og Jón Helgason framsóknarmenn létu setja aukaskatt á innfluttar kartöfluflögur. Sá skattur leiddi til þess, að innlendu verksmiðjurnar hækkuðu verðið hjá sér. Útkoman er auðvitað sú, að neytendur þurfa að borga meira en áður fyrir framsóknarstefnuna.

Nú gráta innlendir kartöfluflögumenn út af því, að salan hafi ekki aukizt hjá þeim, þrátt fyrir ofbeldi þeirra Jóns og Þorsteins. Þeir heimta núna algert innflutningsbann á franskar kartöflur meðan þeir eru að reyna að selja kartöflufjallið á uppsprengdu verði.

Við skulum fylgjast með því, hvaða árangri þeir munu ná í þessu máli á næstu vikum. Líklegt er, að enn einu sinni verði staðfest, að Sjálfstæðisflokkurinn er framsóknarflokkur, sem styður ríkjandi stefnu í landbúnaði og er jafnan tilbúinn til að fórna hag neytenda og skattgreiðenda, svo sem hin nýja landbúnaðarstefna hans sýnir greinilega.

Jónas Kristjánsson.

DV