“Hvenær sem það verður”

Greinar

“Skrifstofustjóri hjá Pósti og síma telur þarna ekki um stórt mál að ræða. Þegar viðkomandi Grafarvogsbúi fær sinn síma tengdan – hvenær sem það verður – verði flutningsgjaldið á símanum hans einfaldlega lækkað um þá upphæð, sem hann verður þá búinn að ofgreiða í afnotagjöldum.”

Þessi kafli úr blaðafrétt veitir innsýn í hugarfarið, sem ræður ríkjum í opinberri þjónustu, er hefur lengi setið að einokun. Viðskiptavinirnir eru nokkurn veginn réttlausir. Embættismennirnir ákveða, hvað sé þeim fyrir beztu.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk sé farið að flytja í nýtt borgarhverfi án þess að geta fengið símann fluttan um leið. Þeir skammast sín ekki fyrir eymdina og skipulagsleysið, sem leiðir til, að síminn er ekki tilbúinn á réttum tíma.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk sé rukkað um afnotagjald af síma, sem það hefur ekki fengið. Þeir hyggjast bara ljúfmannlega endurgreiða þetta, þegar fólkið er búið að fá símann fluttan, hvenær sem það verður, eins og það var orðað.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk fái 90.000 króna símreikning fyrir notkun á lokuðum síma, eins og gerðist í Stykkishólmi fyrir áramótin. Þetta var bara mislestur, sögðu embættismennirnir og létu reikninginn niður falla, þegar sýslumaður var kominn í málið.

Nú eru ekki allir svo heppnir að geta sannað, að þeir hafi verið með lokaðan síma, þegar þeir fá hærri reikninga en þeir vilja trúa. Póstur og sími er eins og búð, sem neitar að sundurliða reikninga, og heimtar að fá að skrifa einfaldlega “vörur” á reikninginn.

Margoft hefur verið reynt að fá Póst og síma til að koma upp útbúnaði til að sundurliða símreikninga, svo sem gert er í Bandaríkjunum, þar sem samkeppni er milli símafyrirtækja. Skráð er dagsetning hvers símtals, hvert hringt er, hve lengi talað og hvað símtalið kostar.

Ráðamenn Pósts og síma hafa fyrir löngu ákveðið, að það sé neytendum fyrir beztu að fá ósundurliðaða reikninga. Þeir þurfa engan að spyrja, hvort þetta sé rétt kenning hjá einokunarstofnuninni. Eftirfarandi kafli úr blaðafrétt sýnir, hvernig þeir velja fyrir hönd notenda:

“Það, sem réð því, var einkum það, að það þótti of dýrt. Það réð úrslitum, því sá viðbótarkostnaður, sem hefði komið, hefði bitnað fyrst og fremst á neytendum og þeir hefðu áreiðanlega ekki verið tilbúnir til að taka þann kostnað á sig.” Þannig er málið afgreitt út úr heiminum.

Afleiðingin af yfirlæti ráðamanna Pósts og síma er, að fólk er gersamlega bjargarlaust gagnvart símreikningum. Það þýðir ekkert að segja Pósti og síma, að á heimilinu séu engir unglingar eða fylliraftar, sem skemmti sér við löng símtöl við Japan. Bara borga og það strax.

Póstur og sími er ekki eina dæmið um yfirgang opinberra stofnana. Meira að segja Hagstofan skammast sín ekkert fyrir að úthluta nafnnúmerum nýlátins fólks, þannig að börn sæta margvíslegum óþægindum vegna rukkana á óviðkomandi aðila. Númerakerfið er úrelt, segja þeir bara.

Auðvitað á fyrir löngu að vera búið að breyta úreltu nafnnúmerakerfi, alveg eins og fyrir löngu á að vera búið að koma á sundurliðuðum símreikningum. En embættismenn einokunarstofnana skammast sín ekkert fyrir dugleysi og valdahroka. Þeir yppta bara öxlum og segja, að þetta séu engin stórmál.

Jónas Kristjánsson

DV