Reykjavíkurflugvöllur sigrar.

Greinar

Flest bendir til, að Reykjavíkurflugvöllur styrkist í sessi sem framtíðarvöllur innanlandsflugsins. Borgarskipulagið hefur kynnt tillögur um nýja flugstöð við Loftleiðahótelið, lengingu austur-vestur flugbrautarinnar og bættar samgöngur að og frá vellinum.

Reykjavíkurflugvöllur hefur löngum verið umdeildur og er enn. Margir hafa áhyggjur af slysahættu og hávaða, en aðrir telja öryggisatriði í lagi og hávaða minni en af umferð bíla. Um langan aldur hefur flug um völlinn verið bannað frá klukkan ellefu á kvöldin til sjö á morgnana.

Sumir skipulagsmenn renna hýru auga til landrýmis flugvallarins og telja þar geta risið 10.000 manna byggð, ef völlurinn væri fluttur. Það mundi spara íbúðarbyggingar í meiri fjarlægð frá miðborginni og um leið spara samgöngukostnað borgarbúa.

Þeir segja líka, að flugvöllurinn sé ekki lengur í borgarmiðju, þar sem þungamiðja byggðarinnar á Reykjavíkursvæðinu hafi færzt austur fyrir Borgarspítala. Fólk sé ekki miklu lengur á leiðinni úr Breiðholti suður á Keflavíkurvöll en vestur á Reykjavíkurvöll.

Á móti þessu er bent á, að margir þeir, sem eiga erindi til höfuðborgarinnar, þurfa einkum að sækja heim stofnanir og fyrirtæki í kvosinni og næsta nágrenni hennar. Notkun Keflavíkurvallar mundi lengja flugtíma og ökutíma þessa fólks um að minnsta kosti klukkustund.

Stungið hefur verið upp á lagningu einteinungs að japönskum hætti milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Það er skemmtileg hugmynd, en háð þeim annmarka, að slík mannvirki þurfa tugþúsundir farþega á degi hverjum til að standa undir hinum mikla stofnkostnaði.

Auðvitað væri ódýrara að reka einn flugvöll í Keflavík en þá tvo, sem nú eru reknir. Á móti því kemur, að nærri allar flugleiðir innanlands mundu lengjast töluvert með tilsvarandi aukningu benzínkostnaðar og annars rekstrar. Keflavík yrði í heild ekki ódýrari.

Reynslan frá útlöndum sýnir, að farþegar kjósa miklu fremur að nota litla flugvelli nálægt borgarmiðju en stóra flugvelli sem eru lengra í burtu. Keflavíkurflugvöllur yrði áreiðanlega óvinsæll sem arftaki Reykjavíkurflugvallar í innanlandsflugi og reyndar tæpast raunhæfur möguleiki.

Vegna byggðar er ekki lengur hægt að ræða um gerð flugvallar á Álftanesi og vegna náttúruspjalla kemur Gálgahraun ekki heldur til greina. Löngusker í Skerjafirði hljóta að teljast langsóttur kostur og amast hefur verið við Kapelluhrauni sem meira veðravíti en Reykjavík.

Af slíkum kostum virðist Geldinganes álitlegast, en hefur lítið verið rannsakað. Það er nógu stórt fyrir flugvöll og íbúðir eru ekki í grenndinni. En það gildir um Geldinganesið eins og aðrar hugmyndir um nýjan flugvöll, að byggingarkostnaður verður hrikalegur.

Að skoðuðum ýmsum þáttum þessa flókna og umdeilda máls er líklegt, að binda megi vonir við hljóðlátar flugvélar, sem þurfa tiltölulega stuttar flugbrautir. Kostir Reykjavíkurflugvallar eru margir og mikilvægir. þyngri á metunum en gallarnir.

Brýnt er að reisa nýja flugstöð við Loftleiðahótelið fyrir innanlandsflugið, bæta ökuleiðir þangað og lengja austur-vestur flugbrautina til að draga úr flugi yfir miðborgina. En um leið er ljóst, að slíkar framkvæmdir fela óbeint í sér, að Reykjavíkurflugvöllur festist í sessi.

Jónas Kristjánsson

DV