Móðgaður þingfréttaritari.

Greinar

Páll Magnússon, þingfréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur einokun á sínu sviði. Hann ræður, hvað birtist um störf Alþingis í útbreiddasta fjölmiðli landsins. Þeir, sem eru mótfallnir vinnubrögðum hans og vali, geta ekki beint viðskiptum sínum til annars sjónvarps.

Annað er uppi á teningnum í þingfréttum dagblaðanna. Ef þingfréttamaður blaðs gerir sig sekan um hlutdrægan fréttaflutning, geta lesendur sem hægast beint viðskiptum sínum til annars blaðs. og raunar velja lesendur og hafna svikalaust í samkeppnisheimi dagblaðanna.

Fræðilega séð eru þingfréttir Ríkisútvarpsins í samkeppni við þingfréttir annarra fjölmiðla. En augljóst er, að fólk neitar sér ekki um hljóðvarp og sjónvarp, þótt það sé ekki ánægt með einhvern efnisþátt þess. Þannig situr Páll Magnússon í skjóli einokunar.

Við slíkar aðstæður er ekkert hægt að gera nema gagnrýna. Það hlýtur að teljast ofur eðlilegt, að einokarar séu gagnrýndir, þegar ekki er hægt að hafna viðskiptum við þá. Þess vegna er ekkert athugavert við, að menn velti upphátt fyrir sér hlutdrægni þingfréttamanns.

Fulltrúi Kvennalistans í útvarpsráði hefur á þeim vettvangi látið orð falla um hlutdrægni í þingfréttum. Slík orð eru sjálfsögð og eðlileg í ljósi þeirra aðstæðna, sem raktar voru hér að ofan.

Ekkert er athugavert við, að hagsmunaaðilar á þessu sviði telji líklegt að þingfréttamaður sé haldinn einhverjum ákveðnum fordómum fremur en öðrum, geti verið hallur undir ríkisstjórn eða sé með hugann við mögulegt framboð á vegum Alþýðuflokksins í Suðurlandskjördæmi.

Ef þingfréttamaður telur slíkar vangaveltur ósanngjarnar, er eðlilegt, að hann biðji útvarpsstjóra eða einhvern aðila út í bæ um að fara yfir gögn málsins og rannsaka, hvort fótur sé fyrir ásökunum. Ef til vill gæti hann meira að segja lært eitthvað af slíkri athugun.

En í stað þess kærir Páll Magnússon Ingibjörgu Hafstað fyrir brot á 108. grein almennra hegningarlaga, þar sem allt að þriggja ára fangelsi liggur við að hafa í frammi skammaryrði, móðganir eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu.

Páll Magnússon einokunarmaður telur það refsiverða móðgun eða ærumeiðingu eða skammir um sig, að hann sé gagnrýndur fyrir hlutdrægni. Hann leitar skjóls í einmitt þeirri einokun, sem veldur því, að gagnrýni er eina vörnin, sem þolendur hans eiga kost á.

Hvort sem Páli tekst eða ekki að skjóta sér á hak við sérstaka verndun, sem opinberir starfsmenn njóta í gömlum lögum, þá er hann minni maður fyrir að leita þessa skjóls. En það er því miður algengt. að einokarar telja sig ekki eiga að þurfa að sæta gagnrýni.

Bezt væri, að þjóðin þyrfti ekki að búa við einokun, sem ætíð lokast inni í hroka. Ef starfandi væru nokkrir þingfréttamenn við nokkrar stöðvar hljóðvarps og sjónvarps, mundu notendur sjálfir, en ekki neinir einokunarmenn, geta metið sjálfir, hvað þeir telja hlutdrægt.

Mál þingfréttamanns Ríkisútvarpsins er dæmi um það ástand, sem hægt væri að losna við með því að afnema einokun starfsfólks Ríkisútvarpsins á tveimur af mikilvægustu greinum fjölmiðlunar. Ef hann vinnur málið, er skrípaleikurinn fullkomnaður. Þá hljóta menn að sjá, að frelsið er betra.

Jónas Kristjánsson.

DV