Heppileg skandinavíska.

Greinar

Í norrænu samstarfi er Norðurlandaráð tindurinn, sem allir tala um. En samstarfið er miklu viðtækara. Hvers konar sveitarfélög og samtök stunda norrænt samstarf af alefli. Varla líður svo kvöld árið um kring, að ekki sé einhvers staðar verið að skála fyrir norrænu samstarfi.

Þetta hefur margvíslegt gildi. Til dæmis er hin óbeina afleiðing sú, að almenningur á kost á hartnær daglegum flugferðum til Norðurlanda. Flugvélarnar eru hálfar af norrænu samstarfi, allt frá þingmönnum og embættismönnum yfir í lögreglukóra og slökkviliðskvartetta.

Í þessu norræna samstarfi fær fjöldi Íslendinga að æfa sig í skandinavisku. Það er sérstakt mál, sem Íslendingar hafa búið til, svo að þeir verði jafn vel skiljanlegir um öll Norðurlönd. Það byggist á dansk-íslenzkum framburði á orðum, sem flest eru úr dönsku, en nokkur úr sænsku.

Þetta tilbúna mál er afar heppilegt, af því að það skilst, til dæmis í skálaræðum. Danir ímynda sér hins vegar, að Svíar skilji dönskuna þeirra, og fara því halloka í samanburði við Íslendinga . Hið sama má, en í minna mæli, segja um skilning áheyrenda á hratt talaðri sænsku.

Annað verður uppi á teningnum, þegar tala þarf í alvöru um eitthvert mál. Frægasta dæmið er fimm ára gamall sjónvarpsfundur norrænu menntamálaráðherranna. Þar kjaftaði hver tuska á öllum ráðherrunum, nema hinum íslenzka, sem leit á hina til skiptis og sagðist brosmildur vera sammála.

Í slíku samstarfi taka Danir, Norðmenn og Svíar orðið. Þeir tala sitt móðurmál og tala það hratt, enda vita þeir, að viðmælendurnir eru svo skólaðir eða þjálfaðir, að þeir skilja, hvað sagt er. Þessir viðmælendur svara síðan jafn hratt og örugglega. Á sínu máli, en ekki skandinavisku.

Íslendingur, sem reynir að tala skandinavisku við slíkar aðstæður, verður fljótt utangátta. Hann er að tala tilbúið mál, sem hann hefur lært. Hann grípur ekki á lofti tilvitnanir í góðskáld. Hann á erfitt með að fara á kostum. Hann talar hægt og varfærnislega, í allt öðrum takt.

Margir hafa orðið varir við, að þetta er ekki útlátalaust. Sá, sem talar í öðrum og hægari takt, er ósjálfrátt talinn tregari í hugsun. Minna mark er tekið á sjónarmiðum hans og hagsmunum en ella væri. Í mörgum tilvikum gefst Íslendingurinn upp og lætur umræðuna framhjá sér fara.

Í slíkum tilvikum er engin lausn að leggja fram skriflegar þýðingar, þótt Páll Pétursson forseti Norðurlandaráðs, hafi bent á þá leið. Að vísu gerir það Íslendingum kleift að tala móðurmálið. En það er haldlítið í umræðum, sem jafnan fylgja á eftir, ef málið er einhvers virði.

Í fínum selskap eins og Norðurlandaráði, þar sem peningar skipta litlu, er auðvitað sjálfsagt að krefjast þess, að Íslendingar fái í umræðum að tala íslenzku, ef þeir vilja, og mál þeirra sé jafnan þýtt á önnur mál Norðurlanda. Á þessu sviði hlýtur jafnrétti að fá að gilda.

Þetta gagnar hins vegar ekki í hinu fjölbreytta samstarfi á sviðum, þar sem ekki er af fjárhagsástæðum hægt að stunda neina samhliða túlkun milli tungumála. Það gæti til dæmis verið í nefndum Norðurlandaráðs eða í hverju öðru norrænu samstarfi á vegum annarra.

Hér í blaðinu hefur áður verið lagt til, að í slíkum tilvikum sé enska heppilegt jafnréttis-tungumál. Hana kunna allir jafn vel eða illa og geta því talað í sama takt, með sama hraða. Hún er hlutlaust mál í norrænu samstarfi og hefur oft komið að góðum notum sem slík, heppileg skandinavíska.

Jónas Kristjánsson

DV