Pappír leysir ekki málið.

Greinar

Sanngjarnt og skynsamlegt er frumvarp Alexanders Stefánssonar félagsmálaráðherra um, að greiðslubyrði íbúðalána fylgi kaupgreiðsluvísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Þetta er í samræmi við tillögur, sem komið hafa frá mörgum aðilum og meðal annars birzt í leiðurum DV.

Pappír á borð við frumvarp leysir þó engin mál, þótt að lögum verði. Ekki er hægt að búa til verðmæti með pólitískum tilfæringum á pappír. Það er fyrst og fremst fjármagn, en ekki pappír, sem vantar í húsnæðismálin. Ef ekki fæst nýtt fjármagn, er frumvarpið sjónhverfing.

Við núverandi aðstæður mundi hin breytta greiðslubyrði leiða til, að minni greiðslur en ella rynnu frá lántakendum inn í húsnæðislánakerfið. Þar með minnka peningarnir, sem þar eru til ráðstöfunar til nýrra útlána. Vandi þeirra, sem hafa byggt, er leystur á kostnað hinna, sem vilja byggja.

Önnur takmörkun á gildi frumvarpsins felst í, að það getur aðeins stjórnað útlánum ríkisins, það er Húsnæðisstofnunar, en ekki banka og lífeyrissjóða. En bezt kæmi húsbyggjendum að fá skammtímalánum banka breytt með þeim hætti, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur riðið á vaðið með lengingu lána, í töluverðu samræmi við anda frumvarpsins. Vonandi verður hægt að fá aðra lífeyrissjóði til að fylgja á eftir. En hætt er við, að bankarnir telji sig vanbúna til að veita sjálfvirka fyrirgreiðslu af þessu tagi.

Ef við gerum ráð fyrir, að frumvarpið verði að lögum og að lífeyrissjóðir og bankar fylgi í kjölfarið, er samt ljóst, að lífið heldur áfram og að nýjar umsóknir um lán munu berast frá fólki, sem komið er á íbúðakaupaaldur. Hvaða peninga á það fólk að fá að láni?

Þetta verða menn að muna einmitt núna, þegar skottulæknar vaða uppi með tillögur um vaxtalækkun, sem mundi snarminnka sparifjármyndunina í þjóðfélaginu, – þegar þessir sömu skottulæknar fá hljómgrunn í félögum framsóknarmanna og hjá öðrum vinum verðbólgugróða.

Annars vegar er Alexander með ágætt frumvarp um að minnka greiðslurnar frá íbúðaeigendum inn í kerfið. Og hins vegar eru svo margir flokksbræður hans með vondar hugmyndir um að minnka spariféð, sem er til umráða og útlána . Hvort tveggja fær ekki staðizt í senn.

Með þessum fyrirvörum er ástæða til að fagna frumvarpi ráðherrans. Það er raunar betra en margar fyrri hugmyndir, sem ganga í svipaða átt. Það víkur nefnilega ekki frá grundvelli lánskjaravísitölu, þótt greiðslubyrði sé í framkvæmd miðuð við kaupgreiðsluvísitölu.

Rökfræðilega er lánskjaravísitala réttari í þessu tilviki, þótt aðstæður hafi gert hana grimma um tíma. Bjarni Bragi Jónsson, aðstoðarbankastjóri Seðlahankans, hefur réttilega bent á, að í náinni framtíð sé eins líklegt, að hún verði húsbyggjendum hagstæðari en kaupgreiðsluvísitala.

En sú rétta hagfræði breytir ekki reiðarslaginu, sem fólk hefur þegar orðið fyrir. Rétta leiðin er frumvarp Alexanders og láta það gilda frá upphafi misræmisins, það er að segja frá 1982, en ekki bara 1983. Síðan mega lánin lengjast og styttast eftir sveiflum vísitölumisræmis.

Næsta skrefið er svo að finna peninga til að fjármagna þessa sanngjörnu óskhyggju. Þar verður þrautin þyngri, ekki sízt þegar önnur óskhyggja, til dæmis hinn hefðbundni landbúnaður, nýtur sjálfvirks forgangs að því fé, sem ríkið hefur til sinna guðsþakkarverka.

Jónas Kristjánsson.

DV