Skírteini í pósti.

Greinar

Málsaðilar í deilu ríkissjóðs og háskólamenntaðra kennara virðast vera sammála um, að skaðlegur sé hinn mikli samdráttur í kennslu í skólum á menntaskólastigi, sem stafar af uppsögnum kennara. Ýmis rök hníga þó að því, að núverandi ástand sé ágætt og mætti framlengjast.

Skólar á menntaskólastigi eru orðnir svo fjölmennir, að þeir minna í vaxandi mæli á skóla á skyldunámsstigi. Nemendur eru margir hverjir meira eða minna skyldaðir til að vera þar, þótt þeir hafi engan áhuga á að notfæra sér þá starfsemi, sem skólunum er ætlað að stunda.

Þessir skólar líkjast smám saman eins konar dagheimilum fyrir unglinga á menntaskólaaldri. Unglingarnir eru hafðir þar í geymslu eins og börn í barnaskólum, svo að þeir séu ekki að flækjast fyrir á heimilunum og séu ekki að flækjast fyrir á vinnumarkaðnum.

Hin lélega framleiðni, sem jafnan einkennir skylduskóla, er einnig áberandi í skólum á menntaskólastigi. Skiptir þá litlu, þótt góðir kennarar reyni að gera sitt bezta. Ef jarðvegurinn er grýttur, áhugi nemenda lítill eða enginn, vinna hinir áhugasömu kennarar fyrir gýg.

Unglingar ná stúdentsprófi með svo ævintýralega litla þekkingu, að einfaldara væri að senda samkvæmt þjóðskrá stúdentsskírteini í pósti til allra á tilskildum aldri. Það mundi ekki kosta nema frímerki, en rekstur skóla á menntaskólastigi kostar stórfé á hvern nemanda.

Athyglisvert er, að venjulegt fólk þarf ekki nema brot af tíma nemenda á menntaskólastigi til að ná góðum prófum í öldungadeildum. Þar er að læra fólk, sem stefnir að marki, og þess vegna er framleiðnin þar margföld á við framleiðnina í hinum venjulegu menntaskóladeildum.

Spurning er, hvort rétt sé að kvelja unglingana í slíkum skólum og hvort ekki sé betra að bjóða fleiri og betri kosti eftirmenntunar og símenntunar. Sá, sem þarf atvinnu sinnar vegna að læra þýzku, gerir það á skömmum tíma í kvöldskóla, ef hann hefur ekki lært það af Derrick.

Þegar þessi sami maður var í menntaskóla, hafði hann ekki hugmynd um, að hann mundi þurfa á þýzku að halda. Þess vegna sýndi hann því námi engan áhuga og kunni raunar ekki neitt, þrátt fyrir stúdentspróf. Framleiðni námsins margfaldast, þegar þörf er og áhugi.

Sumir unglingar eru áhugasamir um nám og geta á hálfum vetri lært það, sem reiknað er með, að fólk læri á heilum vetri. Þessa unglinga munar ekkert um, þótt skólarnir séu meira eða minna lokaðir vikum saman. Þeir þurfa ekki einu sinni á kennurum að halda til að geta lært.

Hinir, sem lítinn eða engan áhuga hafa, læra hvort sem er ekki neitt í skólanum. Þeim má eins og hinum vera sama um, þótt kennarar séu farnir til annarra starfa. Þessir nemendur ættu raunar fremur heima í gagnlegu atvinnulífi en í gagnslausu námi. Ef þeir þurfa, fara þeir síðar í kvöldskóla.

Þau rök, sem hér hafa verið talin, segja ekki allan sunnleikann um málið. En þau benda þó til, að ástæðulaust sé að telja hrapallegt, að margir kennarar og nemendur snúi sér að atvinnulífinu í stað þess að strita í vonleysi við að rækta akur í stórgrýtisurð.

Hví skyldi Kjaradómur ekki vísa frá málinu á þeim forsendum, að kennarar séu farnir, uppsagnir þeirra staðfestar í ráðuneytinu og málið þannig komið út fyrir verksvið dómstólsins? Það ríkir nefnilega ekki neitt ófremdarástand. Og stúdentsskírteinin má senda öllum í pósti.

Jónas Kristjánsson

DV