Frjálsir skólar.

Greinar

Stjórnvöldum hefur tvisvar í vetur mistekizt að sinna fræðsluskyldunni, sem þeim er lögð á herðar. Við slíkar aðstæður er eðlilegt, að aukist efasemdir um, að hið opinbera sé eini rétti aðilinn til að gegna þessu hlutverki. Fleiri kunni að geta innt það af hendi.

Þegar Ríkisútvarpinu var lokað á öndverðum þessum vetri, jukust efasemdir um, að ríkið ætti að hafa einkarétt á ljósvakanum. Á svipaðan hátt má nú segja, að hið opinbera hafi í vetur í tvígang sýnt fram á, að það ráði ekki eitt við að halda úti fræðsluskyldu.

Tölvufræðsla er dæmi um nám, sem fer að verulegu leyti fram án afskipta hins opinbera. Á því sviði hafa risið upp nokkrir einkaskólar, sem starfa með blóma. Áhugi fólks á tölvum er slíkur, að það er reiðubúið að greiða þessa kennslu úr eigin vasa án aðstoðar hins opinbera.

Þetta stafar sumpart af því, að skólakerfið hefur ekki verið nógu fljótt að átta sig á mikilvægi tölvufræðslu, og sumpart af því, að fullorðið fólk, sem hætt er í skóla, telur sig þurfa á þessari þekkingu að halda. Einkaframtakið leysir málið eins og venjulega.

Hið opinbera gæti metið þetta framtak að verðleikum og látið frjálsa skóla um tölvufræðsluna, til dæmis gegn gjaldi, sem væri hið sama og núverandi kostnaður skólakerfisins af slíkri fræðslu. Vel er hægt að hugsa sér, að fé til tölvufræðslu mundi nýtast betur á þann hátt.

Ef þessi hugsun gengur upp, að því er varðar tölvufræðslu, er eins líklegt, að hið sama gildi um aðra fræðslu, sem nú þykir sjálfsagt, að sé á vegum ríkisins. Af hverju getur ríkið ekki látið einkaaðila sjá um þýzkukennslu, stærðfræðikennslu, sundkennslu og raunar hvaða kennslu sem er?

Milton Friedman er umdeildur hagfræðingur, sem hefur ýtt á flot mörgum athyglisverðum hugmyndum. Ein þeirra er sú, að í stað þess að reka eigin skóla gefi ríkið út skólaávísanir að sama verðmæti. Þessar ávísanir geti nemendur síðan notað til að borga fyrir sig í einkaskólum.

Þetta hefur verið prófað í Alum Rock í Kaliforníu. Of snemmt er að segja til um árangur. En þegar er ljóst, að skólahald þar varð mun fjölbreyttara en áður var. Og fjölbreytni í stað einhæfni er einmitt líkleg til að stuðla að þróun og framförum í fræðslu.

Ekki má heldur gleyma, að ávísanakerfi og frjálsir skólar mundu bæta mjög tekjur góðra kennara og ýta lélegum kennurum til annarra starfa, sem henta þeim betur. Nemendur mundu flykkjast í nám til beztu kennaranna, en ekki láta sjá sig hjá hinum, sem ekki geta kennt.

Við þessar aðstæður mundi hlutverk hins opinbera felast í eftirliti með frjálsum skólum og kennurum, svo og í útgáfu ávísana fyrir skólakostnaði. Úr töluvert miklum peningum væri að spila, því að núverandi ríkisrekstur skóla er afar þungur baggi á ríkissjóði.

Nokkur ójöfnuður yrði í frjálsu kerfi, því að sumir mundu leggja fé úr eigin vasa til viðbótar ávísunum til að ná í beztu kennsluna. En slíkur ójöfnuður er einnig til í núverandi kerfi, því að sumir kaupa einkatíma til viðbótar því námi, sem þeir fá hjá ríkinu.

Ekkert er heldur því til fyrirstöðu, að ráðamenn með félagshyggju gætu notað ávísanakerfi til jöfnunar, það er að segja látið gefa út hærri ávísanir til nemenda, sem búa við lakari aðstæður eða kjör en aðrir. Frjálshyggja og félagshyggja geta farið saman í ávísanakerfi.

Jónas Kristjánsson.

DV