Gæludýr í fiskeldi.

Greinar

Einn tryggasti vagnhestur Sambands íslenzkra samvinnufélaga, Jón Helgason kirkjuráðherra, hefur gefið stórveldinu rétt á heitu og köldu vatni úr landi Staðar við Grindavík. Sambandið á aðeins að borga um 25 aura fyrir tonnið, en samkeppnisaðilar þurfa að borga 26 krónur.

Að vísu verður kostnaður Sambandsins meiri, af því að það þarf sjálft að bora eftir heita vatninu. Og ráðherra fullyrðir, að öðrum fiskiræktendum standi þessi kjör til boða. En ekki hefur komið fram, að þeir eigi kost á þátttöku í borholu Sambandsins.

Samningur Jóns við SÍS er ekki á hans ábyrgð eins, þótt hann hafi ekki sagt ríkisstjórninni frá honum fyrr en að honum undirrituðum. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geta ekki þvegið hendur sínar, því að þeir lögðu ekki einu sinni fram mótmæli, hvað þá að þeir færu í hart.

Ef til vill á verkaskipting stjórnarflokkanna að vera sú, að kirkjuráðherrann gefi gælufyrirtæki Framsóknarflokksins vatn í Grindavík og iðnaðarráðherrann gefi gælufyrirtæki Sjálfstæðisflokksins vatn á Reykjanesi. Aðrir fiskiræktendur verði að sitja úti í kuldanum.

Þótt ekki sé um slíka verkaskiptingu að ræða, er ljóst, að stjórnarsamstarf, sem leyfir óhæfuverk af þessu tagi, er án innihalds. Ráðherrarnir halda bara í það vegna sinnar persónulegu stöðu og kæra sig kollótta um tjónið, sem þeir valda flokkum sínum og þjóðinni.

Mikil áhætta er tekin með þjóðargjöfinni til Sambandsins. Í áliti frá Orkustofnun kemur fram, að ekki sé hægt að spá um skaðann af töku 350 sekúndulítra af fersku vatni. Það er 30% meira magn en Hitaveita Suðurnesja tekur. Og ferskvatn er ekki takmarkalaust á Reykjanesskaga.

Athyglisvert er, hvernig mál þetta hefur verið rekið. Fyrst samdi Sambandið við Hitaveitu Suðurnesja, allt að undirskrift, um ákveðið verð, en frysti síðan málið, meðan gengið var frá samningum við ráðherrann og þeir undirritaðir. Þessi aðferð lyktar fremur illa.

Þá er málið rekið af slíku offorsi, að Sambandið er þegar byrjað að bora, þótt bæjarstjórn Grindavíkur hafi ekki verið spurð ráða. Má þó ljóst vera, að gjafabréf kirkjuráðherrans tekur ekki gildi, nema það nái staðfestingu bæjarstjórnarinnar. Og hún er ekkert hrifin.

Eina afsökunin, sem fremjendur verknaðarins gætu haft sér til málsbóta, er, að Hitaveita Suðurnesja hefur í skjóli einokunaraðstöðu sinnar reynt að kúga fé út úr fiskiræktendum á einokunarsvæðinu. Hún lét Fjárfestingarfélagið borga 26 krónur á tonnið eða um 70% af almennum taxta.

Skynsamlegt væri að veita Hitaveitu Suðurnesja samkeppni, til dæmis með því að heimila fiskiræktendum að stofna sameiginlegt fyrirtæki til borunar eftir vatni og virkjunar þess. Stofnað yrði opið fyrirtæki um holuna við Grindavík og annað um holuna á Reykjanesi.

Nauðsynlegt er að hvetja til framtaks í fiskirækt fremur en að letja það. Þess vegna verður að hindra hvort tveggja í senn, að einokunar-hitaveita haldi uppi of háu verði á vatni og að pólitísk gæludýr fái forréttindi, sem lami framtak annarra í fiskirækt.

Ríkisstjórnin hafði ekki döngun til að stöðva óhæfuverk kirkjuráðherrans. En tveir aðilar geta hvor um sig stöðvað málið, bæjarstjórn Grindavíkur og svo sjálft Alþingi. Þessir aðilar þurfa að tryggja, að sameiginlegt fyrirtæki fiskiræktenda verði stofnað um Staðarborholuna.

Jónas Kristjánsson.

DV