“Frá hinu opinbera”.

Greinar

Í kaflanum “Frá hinu opinbera” í auglýsingum Ríkisútvarpsins eru birtar auglýsingar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um nýjustu aðferðir ráðsins við að færa fjármagn frá neytendum og skattgreiðendum til hins hefðbundna landbúnaðar og við að víkka valdsvið ráðsins.

Þessi flokkun auglýsinga um kjarnfóðurskatt og fleira er vel við hæfi. Framleiðsluráð landhúnaðarins er eins og Búnaðarfélag Íslands algerlega á vegum ríkissjóðs, þótt ríkið hafi ekkert eftirlit með hinum útlögðu fjármunum og fái ekki reikningana til endurskoðunar.

Þetta er eins og Grænmetisverzlun landbúnaðarins, sem er eins konar sjálfseignarstofnun Framleiðsluráðsins, þegar hún hafnar afskiptum ríkisins, en ríkisstofnun, þegar hún hafnar hliðstæðri skattlagningu og er á fyrirtækjum úti í bæ. Þetta er afar sniðugt kerfi.

Þannig ákvað síðasta Búnaðarþing, sem haldið var á kostnað hins opinbera, að halda sérstakt Búnaðarþing aftur í vor, einnig á kostnað þjóðarinnar. Markmið aukaþingsins er að skipuleggja aukinn áróður fyrir landbúnaðarkerfinu, auðvitað einnig á kostnað skattgreiðenda.

Síðasta Búnaðarþing ályktaði, að Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins skyldu borga hið nýja átak gegn “óvinum landbúnaðarins”. Þessar stofnanir eru eingöngu reknar fyrir fé ríkisins og þar með skattgreiðenda. Ríkið ræður þar engu, heldur borgar bara.

Margir ímynda sér, að landbúnaðarkerfið sé á undanhaldi fyrir gagnrýnendum sínum. Þetta er mesti misskilningur. Þetta krabbamein er þvert á móti í sókn á mörgum sviðum, svo sem mörg nýleg dæmi sýna. Hinir svokölluðu óvinir landbúnaðarins mega hvergi sofa á verðinum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur lagt til, að ríkið greiði tapið á rekstri Áburðarverksmiðjunnar, því að annars þurfi hinn niðurgreiddi áburður að hækka um 85% til bænda. Samt greiðir verksmiðjan aðeins Ísalsverð fyrir rafmagn og er þó engin stóriðja.

Þessi stórhættulega verksmiðja, sem er “stöðug ógnun” við íbúa höfuðborgarsvæðisins, svo að notuð séu orð slökkviliðsstjóra, fær niðurgreiðslu á rafmagni og niðurgreiðslu á afurðum, sem nemur 100-200 milljónum á ári og hefur þó safnað upp rúmlega 300 milljóna tapi.

Þannig stefnir Framleiðsluráð landbúnaðarins að fullkominni sjálfvirkni í aðild verksmiðjunnar að hinu sjálfvirka kerfi framleiðslustjórnunar, sem kostar þjóðina miklu meira en herinn í öðrum löndum og hýr til margs konar fjöll óseljanlegra afurða. Næst verður það fúleggjafjall.

Með niðurgreiðslum á kartöflum til flöguverksmiðja er búið að stíga 10 milljón króna skref til innflutningsbanns, sem rekinn verður áróður fyrir í sumar. Þá verður einnig krafizt innflutningsbanns á heilar kartöflur, svo að bændur neyðist til að selja til Grænmetisverzlunar landbúnaðarins til að njóta niðurgreiðslna – í stað þess að selja beint. Þannig á að endurreisa einokunina og víkka hefðbundna kerfið.

Með möndli í kjarnfóðurskatti er verið að þvinga eggjabændur inn í einokunarkerfi, svo að frjálsir bændur séu ekki að hindra Ísegg í að hækka egg um 30% eða “eftir þörfum” hverju sinni. Allt stefnir því að fleiri auglýsingum um landbúnað undir liðnum : “Frá hinu opinbera”.

Jónas Kristjánsson.

DV