Eitt skref af nokkrum.

Greinar

Athyglisvert samstarf ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambands Íslands hefur leitt til lagafrumvarps, sem miðar að jafnri greiðslubyrði húsnæðislána. Samkvæmt því á greiðslubyrðin ekki að aukast, heldur á lánstíminn að lengjast, þegar kaupgeta fólks minnkar.

Reynt verður að láta frumvarpið verða að lögum, áður en þingi verður slitið í vor. Það á að gilda aftur á bak, um húsnæðislán, sem tekin hafa verið síðan 1979, og fela í sér jöfnun fyrir tímabilið eftir 1. mars 1982, þegar kaupgetan byrjaði að minnka.

Þessi leið, sem Alþýðusambandið og margir fleiri aðilar hafa mælt með, er hreinlegri og heppilegri en hugmyndin um skattaafslátt, sem kom frá hópi áhugafólks um húsnæðismál og hefur verið töluvert til umfjöllunar í félagsmálaráðuneytinu síðustu vikurnar.

Frumvarpið er þó engin allra meina bót. Það nær til dæmis aðeins til lána Húsnæðisstofnunar, en ekki til lána lífeyrissjóða eða banka. Þessir aðilar verða beðnir um að gera slíkt hið sama, en ekki er tryggt, að þeir hlýði. Lífeyrissjóðir eru þá byrjaðir að lengja lán.

Mikilvægt hlýtur að teljast, að ríki, lífeyrissjóðir og bankar geti hagað málum svo, að þeir, sem tekið hafa íbúðalán á undanförnum árum, búi við sömu greiðslubyrði og þeir gerðu ráð fyrir í upphafi og fái jafnframt endurbættar umframgreiðslur liðins tíma.

Um leið verður að hafa í huga, að lenging lána þeirra, sem hafa byggt eða keypt, er óbeint á kostnað þeirra, sem eru að byrja eða ætla að byrja. Lengingin skerðir ráðstöfunarfé Húsnæðisstofnunar, lífeyrissjóða og banka. Hún minnkar féð, sem handbært verður til nýrra lána.

Í þessu efni sem svo mörgum öðrum munu ráðamenn reka sig á, að brýnni er þörfin á peningum en lagabálkum. Greinar á pappír geta ekki komið í staðinn fyrir fé. Með millifærslum er unnt að lina þjáningar eins þrýstihópsins, en þá aðeins á kostnað annarra.

Komið hefur í ljós, að minnkað hefur kjarkur fólks, sem er á helzta íbúðakaupaaldrinum, 22-32 ára. Til skamms tíma var helmingur íbúðakaupenda á þessum aldri. En þeim hefur farið ört fækkandi það sem af er níunda áratugnum. Í staðinn flykkist unga fólkið í Búseta.

Ef ráðamenn vilja viðhalda sjálfseignarstefnunni, sem hefur gert 80-85% af ungu fólki kleift að komast yfir eigin íbúð, er nauðsynlegt að verja meira fé til húsnæðismála, svo að veita megi hærri og lengri lán. 80% lán til 40 ára er gamalkunnur draumur.

Unnt er að minnka þessa viðbótarfjárþörf með því að veita sérstaka fyrirgreiðslu þeim, sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, og þá á kostnað hinna, sem eru að skipta yfir í stærra húsnæði. Fremur þarf að hjálpa fólki að stíga fyrstu skrefin en hin síðari.

Einnig er unnt að spara fé með því að leggja meiri áherzlu á lán til kaupa á notuðu húsnæði og til endurbóta á notuðu húsnæði. Þjóðin býr að meðaltali í 20 ára gömlu húsnæði, svo að úrelding ætti ekki að þurfa að vera mikil. Og þar að auki fjölgar þjóðinni mun hægar en nýjum íbúðum.

Frumvarpið um jöfnun á greiðslubyrði húsnæðislána undanfarinna ára er skynsamlegt skref til viðreisnar íbúðalánakerfisins. En það er aðeins eitt skref af nokkrum, sem stíga þarf. Ríkisstjórnin má engan veginn halda, að hún hafi leyst málið og megi sofna á verðinum.

Jónas Kristjánsson.

DV