Vitlaust viðskiptabann.

Greinar

Ef raunsær maður mætti velja um búsetu í Mið-Ameríku, sunnan Mexíkó, er lítill vafi á, að niðurstaðan yrði Nicaragua. Þótt stjórnin þar sé sögð höll undir Moskvu, er staðreyndin samt sú, að hvergi í þessum heimshluta er almenningur öruggari um líf sitt og limi fyrir stjórnvöldum.

Í grannríkjum Nicaragua, þar sem skjólstæðingar Bandaríkjastjórnar eru við völd, sætir almenningur ofsóknum dauðasveita á vegum hers eða lögreglu. Alvarlegast hefur ástandið lengi verið í El Salvador og þar halda morðin áfram, þótt miðjumaðurinn Duarte sé forseti.

Mildin er svo miklu meiri í Nicaragua, að dauðarefsing hefur verið afnumin. Og ekki hefur verið efnt til neinna fjöldaréttarhalda gegn hinum hötuðu varðhundum einræðisherrans Somoza, sem hrökklaðist frá völdum eftir sérstaklega blóðugan og óhugnanlegan feril.

nýlega héldu samtök stórbænda og kaupsýslumanna fund í Managua, höfuðborg Nicaragua. Þar var ríkisstjórn landsins fordæmd fyrir kommúnistastefnu og flokkur sandinista fyrir að hafa svikið forsendur byltingar ársins 1979. Fundarmenn fengu í friði að tala frjálslega.

Þar með er ekki sagt, að lýðræði ríki í Nicaragua. Stjórnin þolir gagnrýni illa. Óháða blaðið La Prensa, sem áður var í fararbroddi andófsins gegn Somoza, gegnir nú sama hlutverki gagnvart sandinistum. Blaðið er stranglega ritskoðað og kemur út með höppum og glöppum.

Stjórn Reagans Bandaríkjaforseta ber töluverða ábyrgð á hægfara göngu Nicaragua í átt til einræðis kommúnista. Reagan hefur frá upphafi ofsótt stjórn sandinista og óafvitandi róið öllum árum að því að varpa Nicaragua í faðm ríkisstjórnanna í Moskvu og Havana.

Ofsóknir Reagans hafa þjappað íbúum Nicaragua um stjórn sandinista. Reagan hefur dælt fé í hina óvinsælu uppreisnarmenn, Contras, sem eru að verulegu leyti undir stjórn gamalla glæpamanna úr liði Somozas. Sjálfur herstjórinn er hinn illræmdi Enrique Bermúdez.

Furðulegt er, hvernig ríkisstjórnir í Bandaríkjunum hafa tilhneigingu til að styðja versta glæpalýðinn í löndum Rómönsku Ameríku. Somoza var skjólstæðingur Bandaríkjanna á sínum tíma, eins og löng röð einræðisherra allar götur til Pinochet, sem nú kvelur íbúa Chile.

Þegar hálfbilaðir herforingjar komast til valda í Rómönsku Ameríku, er eins og allar flóðgáttir fjármagns opnist í Bandaríkjunum. Þessar lindir þorna síðan, þegar lýðræðissinnar komast á ný til valda. Argentína er skólabókardæmi um smánarlega afstöðu Bandaríkjastjórna.

Að undanförnu hefur fulltrúadeild Bandaríkjaþings unnið sér það til hróss að hafa í hverri atkvæðagreiðslunni á fætur annarri hafnað tillögum Reagans forseta um 14 milljón dollara aðstoð við uppreisnarmenn somozista. Þetta sýnir, að þar hafa margir dýpri skilning en Reagan.

Stjórnvöld Bandaríkjanna hafa látið koma fyrir sprengjum í höfnum Nicaragua og valdið landinu á margvíslegan annan hátt um 400 milljón dollara tjóni. Þetta stuðlar, eins og áróðurshríð Reagans, að sífellt tíðari ferðum Ortega til Moskvu að sækja fé og hvatningu.

Nú síðast hefur Reagan sett Nicaragua í viðskiptabann. Öllum má ljóst vera, að með því flýtir hann för landsins í búðir leppríkja Sovétríkjanna. Enda höfnuðu allir aðrir leiðtogar vestrænna ríkja þessari firru hans, sem kom fram á toppfundinum í Bonn fyrir helgina.

Jónas Kristjánsson.

DV