Eymd Alþingis.

Greinar

Forsætisráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um afnám verðbóta á laun. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Utanríkisráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um tollfrjálsar verzlanir á Keflavíkurflugvelli. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Viðskiptaráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið tvö frumvörp um Seðlabankann og sparisjóði. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt þessi frumvörp fram á Alþingi.

Fjármálaráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um skráningargjald bíla. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um framleiðsluráð og annað um breytingu á jarðræktarlögum. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt þessi frumvörp fram á Alþingi.

Nú er aðeins eftir vika af hefðbundnum starfstíma Alþingis. Tiltölulega skammt er síðan ljóst varð, að frumlengja þyrfti þingstörf fram í júní. Þegar ofangreind frumvörp voru í vinnslu í ráðuneytum, var ekki vitað um þann gálgafrest. Þau eru því dæmi um vítavert sinnuleysi ráðherra og helztu embættismanna þeirra.

Jafnvel þótt Alþingi kunni nú að hafa um fjórar vikur til að ræða þessi frumvörp af óskalistum ráðherranna, er það of stuttur tími. Þau þarf að ræða í nokkrum umræðum í báðum deildum Alþingis og þingnefndir þurfa að leita umsagna úr ýmsum áttum.

Niðurstaðan verður hin sama og oftast áður. Eftir mikinn hægagang í allan vetur fer allt á hvolf á Alþingi fyrir lokin. Þar leggja menn nótt við dag til að afgreiða óskalistana án þess að vita, hvað frumvörpin fela í sér.

Einu sinni varð að setja bráðabirgðalög um gildistöku laga, af því að í æðibunuganginum gleymdist að setja um hana ákvæði í frumvarpið. Það er ekki von, að Alþingi njóti virðingar, þegar ráðherrar fara svona með það.

Ríkisstjórnin er ekki ein um að draga Alþingi niður í svaðið. Stjórnarandstaðan, einkum Alþýðubandalagið, spillir vinnufriði þess með sífelldum upphlaupum. Hver dægurflugan á fætur annarri er tekin upp í umræðum utan dagskrár og jafnvel í umræðum um dagskrá. Þannig eru heilu dagarnir eyðilagðir.

DV hefur nokkrum sinnum mælt til gamans samanlagðan ræðutíma þingmanna. Komið hefur í ljós, að nokkrir þingmenn tala þindarlaust, einkum í dægurbundnum upphlaupsmálum. Þetta eru foringjar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna.

Einnig hefur komið í ljós, að sumir ímynda sér, að mælingar af þessu tagi feli í sér hrós um málskrafsskjóðurnar. Einn þingmaður hélt því fram í hringborðsumræðu á síðum DV og sömuleiðis doktorsefni í Exeter. Þarf þó nokkra einfeldni til að komast að slíkri niðurstöðu.

Ýmislegt fleira stuðlar að vanvirðu Alþingis. Til dæmis hefur síðari hluti fjárlaga, hin svonefndu lánsfjárlög, enn ekki verið afgreiddur á Alþingi, þátt þriðjungur ársins og þar með þriðjungur gildistímans sé þegar liðinn. Þetta er mun hægari gangur en áður hefur tíðkazt.

Og nú síðast eru þingmenn farnir að leika sér að því að vera í útlöndum og biðja þingforseta að taka ekki fyrir ákveðin mál á meðan. Einnig í þessu láta þingforsetar og þingmenn vaða yfir sig.

Jónas Kristjánsson.

DV