Vanhæfni og valdafíkn.

Greinar

Landbúnaðarráðuneytið hefur með aðstoð þingmanna stjórnarflokkanna tafið íslenzka álarækt um heilt ár. Ráðherra þess hefur vanrækt að leggja fyrir Alþingi tíu orða breytingu á fiskeldislögum, er heimili innflutning gleráls eins og fisksjúkdómanefnd lagði til fyrr á árinu.

Ráðgert hafði verið að nota stórstraumsflóðið 5. maí síðastliðinn til að ná glerálseiðum í Bristol-flóa á Bretlandi. Það flóð hefur nú farið forgörðum og ekki verður unnt að ná seiðum fyrr en á næsta vori. Ef landbúnaðarráðuneytið verður þá búið að taka við sér.

Minnstu munaði, að svipað slys yrði um daginn í utanríkisráðuneytinu. Sofandaháttur embættismanna tafði afgreiðslu heimildar handa Orkustofnun til þyngdaraflsmælinga á kostnað landmælingadeildar bandaríska hersins. Við lá, að málið dytti út af bandarískum fjárlögum.

Þetta er verkefni, sem kostar um 1,4 miljónir króna. Það skapar mikla vinnu á samdráttarskeiði hjá Orkustofnun og flytur hátækniþekkingu inn í landið. Ef málinu hefði ekki verið bjargað fyrir horn, hefði fjármagnið farið til hliðstæðra mælinga við Amazonfljót.

Á síðustu stundu tókst sendimönnum Bandaríkjastjórnar að vekja athygli utanríkisráðherra og orkuráðherra á, að mál þetta var búið að liggja týnt og grafið í utanríkisráðuneytinu mánuðum saman. Með sameinuðu átaki ráðherranna tókst að snúa upp á hendur embættismannanna.

Þessi tvö dæmi benda til, að vanhæft fólk sitji víða á valdastólum í embættismannakerfinu, fólk, sem ekki gæti unnið fyrir sér í atvinnulífinu. Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart, því að verulegur skortur er á aðhaldi í rekstri opinberra stofnana.

Orkuráðherra hefur látið óháða sérfræðinga fara ofan í saumana á rekstri stofnana á borð við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun. Ekki er síður nauðsynlegt, að hliðstæð úttekt verði gerð á sjálfum ráðuneytunum, valdamiðju hins opinbera stjórnsýslukerfis.

Fleiri dæmi eru um vandamál í kerfinu. Á listum fimm ráðherra yfir mál, sem þeir vilja, að Alþingi afgreiði fyrir sumarið, eru sjö frumvörp, sem ekki höfðu enn séð dagsins ljós um síðustu helgi. Embættismönnunum hafði ekki tekizt að leggja síðustu hönd á verkin.

Þetta getuleysi er þeim mun alvarlegra fyrir þá sök, að embættismennirnir eru sífellt að verða valdameiri. Þeir eru stöðugt að semja frumvörp, sem efla tök þeirra á stóru og smáu. Og þingmenn stjórnarflokka samþykkja þessi frumvörp yfirleitt orðalaust.

Í fyrravor var vakin rækileg athygli í fjölmiðlum á, að frumvarp um fjarskipti stefndi að auknum völdum Pósts og síma, á sama tíma og dregið væri úr þeim í öðrum löndum. Þingmenn stjórnarflokkanna tóku ekkert mark á þessum ábendingum og samþykktu frumvarpið snarlega.

Nú hefur í landbúnaðarráðuneytinu verið samið frumvarp um fiskeldi. Það er svo harkalegt, að segja má, að það feli í sér hreinan ríkisrekstur á öllu fiskeldi hér á landi. Og þetta er einmitt ráðuneytið, sem í aldarfjórðung hefur hamazt við að halda niðri fiskeldi í landinu.

Tímabært er orðið, að stjórnmálamenn hefji markvisst andóf gegn tilraunum vanhæfra embættismanna til að auka völd sin. Stofnanir þeirra verði látnar sæta rekstrarúttekt. Og frumvörp þeirra verði hreinsuð ákvæðum, sem hneppa þjóðfélagið í fjötra stofnanaveldisins.

Jónas Kristjánsson.

DV