Sólarlag og -upprás.

Greinar

Vonlitlar tilraunir viðskiptaráðherra til að fá felldan niður portúgalska saltfisktollinn, sem koma á til framkvæmda við inngöngu Portúgals í Efnahagsbandalag Evrópu, eru dæmi um varnarstríð, sem víða um heim er háð gegn vaxandi afli innilokunar- og verndarstefnu.

Bandaríkjastjórn tók forustu í vörninni fyrir fríverzlun á fundi æðstu manna helztu iðnríkja hins vestræna heims, sem haldinn var í Bonn á dögunum. En Reagan forseti komst því miður ekkert áfram með málið vegna harðrar andstöðu Mitterrand Frakklandsforseta.

Ráðamenn Japans, Vestur-Þýzkalands, Bretlands, Ítalíu og Kanada hölluðust að hinni bandarísku tillögu um vestræna ráðstefnu um verzlunarfrelsi á næsta ári, eins konar nýja Bretton Woods. Mitterrand heimtaði hins vegar, að fyrst yrði fest gengi gjaldmiðla.

Frakkland hefur öldum saman verið land skriffinnsku og miðstýringar. Þar eru ráðamenn dauðhræddir við allt, sem ekki er skipulagt að ofan. Og þeir eru dauðhræddir við, að ódýr vöruinnflutningur, til dæmis frá Japan, drepi í dróma hliðstæða framleiðslu í Frakklandi.

Þessi ótti blundar einnig undir niðri í öðrum löndum. Verst er, að tregðan við að koma á nýrri ráðstefnu um aukið verzlunarfrelsi mun nú gefa innilokunar- og verndaröflum í Bandaríkjunum byr undir báða vængi. Þar veina nú þrýstihópar í hverju horni.

Vítahringurinn er sá, að í einu ríki reiðast menn verndaraðgerðum annars ríkis. Settar eru upp hindranir í götu innflutnings. Það leiðir svo aftur til gagnaðgerða hins ríkisins. Áður en menn vita af, er skollið á viðskiptastríð, sem allir aðilar tapa.

Í flestum ríkjum eru hagsmunir hefðbundinna atvinnugreina vel skipulagðir. Ef Japanir eða aðrir ógna þessum greinum með framboði á betri og ódýrari vöru, rísa þrýstihópar hinna hefðbundnu sólarlagsgreina upp á afturfæturna og knýja stjórnvöld til gagnaðgerða.

Hagsmunir notenda eru hins vegar illa skipulagðir. Ráðamenn taka ekki eftir, að hinn ódýri innflutningur bætir kjör notenda. Hann lækkar útgjöld þeirra og heldur niðri verðbólgu í landinu. Þar að auki geta margir framleiðendur lækkað verð með notkun innfluttra vöruþátta.

Ekki stangast aðeins á hagsmunir notenda og sólarlagsgreina. Verndarstefnan veldur því einnig, að hagsmunir sólarupprásargreina verða að víkja fyrir hinum hefðbundnu greinum, sem hafa gróinn þrýstimátt. Fjármagn og vinnuafl haldast í úreltum atvinnugreinum.

Dæmin um þetta eru mörg á Vesturlöndum, stálið á meginlandi Evrópu og kolin í Bretlandi. Útbreiddasta dæmið er þó hinn hefðbundni landbúnaður. Þrýstihópum hans í Efnahagsbandalagi Evrópu hefur tekizt að veita meirihluta fjármagns þess í farveg verndarstefnu.

Þetta kemur niður á okkur, þegar við erum að reyna að selja saltfisk til Portúgal. Þetta kemur almennt niður á okkur, af því að helmingur þjóðarframleiðslu okkar er notaður til utanríkisviðskipta. Við ættum því að vera fremstir í flokki frelsisstefnu í viðskiptum milli ríkja.

Því meira sem tollum og öðrum hömlum er eytt, þeim mun ódýrara verður fyrir fólk að lifa. Og þeim mun fljótar taka atvinnugreinar sólarupprásar við af greinum sólarlags. Þeim mun líklegra er, að unga fólkið vilji lifa í þessu landi í framtíðinni.

Veigamest er að leggja niður höft og tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum.

Jónas Kristjánsson.

DV