Mesta afturhaldsfrumvarpið.

Greinar

Landbúnaðarfrumvarpið nýja, sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi, er ekki búið til í samráði við samtök neytenda eða skattgreiðenda. Það er ekki búið til í samráði við samtök launþega eða atvinnurekenda. Ótal samtök og stofnanir landbúnaðarins komu hins vegar við sögu.

Frumvarpið er samið af nefnd alþingismanna úr Framsóknarflokkunum tveimur, sem mynda ríkisstjórn. Allir eru þeir nema einn fulltrúar landbúnaðarins úr sveitakjördæmum. Aðeins einn þeirra er af Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Niðurstaðan hlaut að verða afturhald.

Frumvarpið grunnmúrar skipulagshyggjuna, sem hefur gert hinn hefðbundna landbúnað að dýrara fyrirbæri hér á landi en herinn er í öðrum löndum. Njörvað er niður, að ríkið beri hér eftir sem hingað til ábyrgð á landbúnaðinum og eigi að sjá honum fyrir tekjum.

Fimm manna og sex manna nefndir eiga að reikna verð á landbúnaðarafurðum til vinnslustöðva og frá þeim. Þetta á ekki að gera í samræmi við nein markaðslögmál, heldur eftir tilkostnaði. Verðlagningin verður þannig sjálfvirk og hvergi verður neinn framleiðnihvati.

Í frumvarpinu er ákveðið, að Stéttarsamband bænda og helzti umboðsmaður hins hefðbundna landbúnaðar, það er landbúnaðarráðherra, semji um, hvert búmark skuli vera. Þessir tveir aðilar eiga þannig að ákveða, hve langt ábyrgð ríkisins eigi að ganga. Það verður langt.

Frumvarpið staðfestir hina skaðlegu stefnu beggja Framsóknarflokkanna í ríkisstjórn, að hinn hefðbundni landbúnaður megi einn sitja að framleiðslu afurða fyrir innanlandsmarkað og það á verði, sem nemur í flestum tilvikum margföldu ef ekki tíföldu heimsmarkaðsverði.

Frumvarpið staðfestir þá bölvun, að ofan á þetta megi hinn hefðbundni landbúnaður framleiða afurðir umfram innanlandsmarkað og gefa þær til útlanda á kostnað ríkissjóðs. Þessi blóðtaka á þó samkvæmt frumvarpinu að minnka úr 9% í 4% af heildarframleiðslunni á 5 árum.

Ekki er samt ætlunin að spara skattgreiðendum mismuninn. Hann á að renna í sjóð, sem ranglega er nefndur Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Þeim sjóði er ætlað að koma til hjálpar skuldugustu bændunum og kosta tilraunir til að koma búvöru á erlendan offramleiðslumarkað.

Í þennan framleiðni-hindrunarsjóð á líka að renna hluti af sérstöku fóðurgjaldi í innflutningi. Þetta gjald er notað til að herða miðstýringuna í landbúnaði. Til dæmis á það að koma fyrir kattarnef sjálfstæðum iðnrekendum í eggjum og alifuglum og gera hinum kleift að hækka verðið.

Frumvarpið tekur sérstaklega fram, að áfram skuli jafnað verði í landbúnaði, svo að mönnum sé sama, þótt lambakjöt sé framleitt í Mosfellssveit og neyzlumjólk við Lómagnúp. Þessa verðjöfnun eiga neytendur áfram að borga og hún kostar auðvitað stórfé.

Með frumvarpinu er sérstaklega reynt að hindra, að aukið frelsi í grænmetisverzlun gangi lengra en orðið er. Framleiðsluráði landbúnaðarins er veittur nýr réttur til að stöðva innflutning grænmetis. Og við vitum, að Framleiðsluráð gengur alltaf út á yztu nöf.

Framsóknarfrumvarp stjórnarflokkanna hróflar ekki við glæpsamlegu kerfi niðurgreiðslna, styrkja og sjálfvirkrar fjárfestingar í hefðbundnum landbúnaði. Það er afturhaldssamasta frumvarpið á þingi. Verði það að lögum, mun það kosta þjóðina marga milljarða á hverju ári.

Jónas Kristjánsson.

DV