Þrengri stakkur sniðinn.

Greinar

Ný þingskapalög, sem Alþingi setti í vikunni, munu án efa hafa góð áhrif á starfshætti stofnunarinnar. Á ýmsum sviðum sníða þau málflutningi þrengri stakk. Meðferð tillagna, fyrirspurna og umræðna utan dagskrár ætti að verða markvissari og einkum þó skjótari.

Frumvarp til laganna var samið af nefnd fulltrúa úr öllum þingflokkum. Lögin eru því sett í góðu samkomulagi allra stjórnmálaafla og ættu því að ná tilætluðu markmiði. vinnubrögð á Alþingi ættu þá jafnframt að sæta minni gagnrýni hér eftir en hingað til.

Umræðum utan dagskrár, sem hingað til hafa eyðilagt heilu dagana, verður nú fenginn staður hálftíma af venjulegum fundartíma í sameinuðu þingi. Málshefjandi má tala í þrjár mínútur, aðrir þingmenn í tvær mínútur og engir oftar en tvisvar.

Svipaðar reglur eru settar um ræðulengd og ræðufjölda í umræðum um tillögur til þingsályktunar. Þar fær framsögumaður fimmtán mínútur til umráða, aðrir þingmenn átta mínútur og engir mega tala oftar en tvisvar. Við aðra umræðu er þessi rammi enn þrengdur.

Einna mestur er niðurskurðurinn á fyrirspurnum og svörum ráðherra við þeim. Umræður eru einskorðaðar við spyrjanda og ráðherra og má hvor um sig aðeins tala tvisvar, spyrjandi í tvær mínútur og ráðherra í fimm. Aðrir þingmenn eiga ekki að tala í málinu.

Enginn vafi er á, að þessar breytingar munu auka tímann, sem deildir Alþingis hafa til ráðstöfunar til að ræða frumvörp til laga. Þannig fær stofnunin meira svigrúm til að rækja höfuðverkefni sitt, löggjafarvaldið, hvort sem það svigrúm nýtist eða ekki.

Nýju lögin leysa þó ekki allan vanda. Ástæða hefði verið til að reyna að gera samningu lagafrumvarpa og meðferð þeirra markvissari, ekki síður en annarra þingmála. Ennfremur væri gott, ef settar væru reglur, sem gætu stuðlað að betri verkstjórn á Alþingi.

Of lengi hefur viðgengizt, að lagðir væru fram lagabálkar með ýmsum efnisatriðum, sem vafasamt er, að eigi erindi í lög. Þar með má telja margvíslega óskhyggju, sem betur ætti heima í stefnuyfirlýsingum og greinargerðum, svo og ótal smáatriði, sem betur ættu heima í reglugerðum.

Of lengi hefur viðgengizt, að lagðir væru fram lagabálkar með ýmsum útgjaldahugmyndum, sem fá ekkert gildi, nema þær fái staðfestingu í fjárlögum. Útgjöld eru þannig fyrirskipuð í einum lögum, en ekki leyfð í öðrum. Um þetta eru ótal dæmi frá allra síðustu árum.

Ekki er síður ámælisverð sú árátta flestra ríkisstjórna og mest þeirrar, sem nú situr, að leggja ekki fram lagafrumvörp sín fyrr en svo seint, að útilokað er, að þau fái eðlilega meðferð á þingi. Súpan, sem Alþingi situr nú í, er bein afleiðing þessa.

Jafnvel þótt ríkisstjórnir leggi fram mál sín í tæka tíð, vill oft brenna við, að þingnefndir fari sér óeðlilega hægt við að fjalla um þau. Við höfum einmitt nú fyrir augum okkar mál, sem hafa verið að velkjast um í þingnefndum meira eða minna í allan vetur.

Æskilegt hefði verið, að þingskapalögin gerðu atlögu að ýmsum slíkum vandamálum, sem tengjast sjálfri löggjöfinni. En telja verður þá spor í rétta átt, að meðferð umræðna utan dagskrár, fyrirspurna og þingsályktunartillagna verði markvissari og skjótari en áður.

Jónas Kristjánsson

DV