Kúguð sjávarsíða.

Greinar

Stundum er hagsmunum svokallaðs dreifbýlis teflt fram gegn hagsmunum Reykjavíkursvæðisins. Eru þá kaupstaðir og kauptún sjávarsíðunnar stundum talin til dreifbýlis, þótt þar sé í rauninni þéttbýli. Hagsmunir sveita og sjávarsíðu eru að flestu leyti ólíkir.

Þjóðfélag okkar skiptist landfræðilega og hagsmunalega í þrennt. Í einum hluta eru sveitirnar og í öðrum Reykjavíkursvæðið. Í þriðja hlutanum er svo sjávarsíðan, að Suðurnesjum meðtöldum. Sveitirnar hafa landbúnaðinn, Reykjavíkursvæðið þjónustuna og sjávarsíðan útgerðina.

Ekki er hægt að hugsa sér meiri andstæður en sjávarútveg og hinn hefðbundna landbúnað. Sjávarútvegurinn er burðardýr velsældarinnar í þjóðfélagi okkar, en landbúnaðurinn er langsamlega þyngsti ómaginn á þjóðfélaginu. Vegna þess eru hagsmunirnir gagnstæðir.

Þjóðfélagið hefur um langan aldur mergsogið sjávarsíðuna til að afla peninga í velsældina og landbúnaðinn. Þetta hafa stjórnvöld gert með því að reikna afkomu sjávarútvegsins út á núlli og haga skráningu gengis krónunnar á þann hátt, að atvinnuvegurinn skrimti.

Þetta er afar auðvelt í framkvæmd á verðbólgutímum. Þá aukast gjöld sjávarútvegsins, en genginu er haldið föstu, unz undirstöðuatvinnuvegurinn er um það bil að sigla í strand. Þá er gengið lagfært nógu mikið til að núllrekstur náist í sjávarútvegi. Og ný hringrás hefst.

Í leiðurum þessa blaðs hefur lengi og oft verið lagt til, að þeir, sem afla gjaldeyrisins, megi sjálfir ráðstafa honum og þá á því verði, sem markaðurinn vill borga fyrir hann. Á þann hátt megi stöðva hina umfangsmiklu blóðmjólkun sjávarsíðunnar.

Lausnin felst í að taka af stjórnvöldum misnotkunarvaldið til skráningar á gengi krónunnar. Það má gera með því að leyfa genginu að valsa án skráningar. Eða með því að heimila notkun erlendra gjaldmiðla í viðskiptum hér á landi. Eða leggja krónuna hreinlega niður.

Ef einhver þessara leiða væri notuð, mundi koma í ljós, að gengið er yfirleitt skráð hróplega of hátt. Einnig mundi koma í ljós, að sjávarútvegurinn er ekkert vandræðabarn, heldur meginuppspretta auðsöfnunar þjóðarinnar. Hann hefur bara ekki fengið að njóta þess.

Auðvitað mundi minna verða til dreifingar velsældar í þjónustugreinunum á Reykjavíkursvæðinu. Þar yrði fólk að laga sig að þeim raunveruleika, sem felst í lækkuðu mati á verðgildi krónunnar. Þetta eru stjórnvöld að reyna að forðast, þegar þau núllreikna sjávarútveginn.

Ef sjávarútvegurinn fengi að njóta sín, mundi þó fyrst og fremst koma í ljós, að þjóðfélagið hefur ekki efni á að kasta nokkrum milljörðum króna á ári í hinn hefðbundna landbúnað, stóra æxlið á þjóðarlíkamanum. Hingað til hefur sá reikningur verið sendur sjávarsíðunni.

Meðan sjávarútvegurinn er úti í kulda alþjóðlegrar samkeppni ornar hinn hefðbundni landbúnaður sér í skjóli innflutningsbanns, útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, beinna styrkja og lánaforgangs. Hann eyðir því, sem sjávarútvegurinn aflar, og það á stórvirkan hátt.

Landsbyggðin utan Reykjavíkursvæðisins er ekki einn heimur, heldur tveir. Annars vegar er sjúklingur, sem búinn er að vera áratugum saman á gjörgæzludeild, og hins vegar er kúgaður vinnuþræll, sem gefst bráðum upp, ef hann á áfram að borga sjúkrahúsvist hins.

Jónas Kristjánsson.

DV