Nú er nóg komið.

Greinar

Framhald starfa Alþingis yfir í næstu viku getur aðeins orðið þjóðfélaginu til skaða. Það leiðir til, að án skoðunar verða samþykkt illa smíðuð og seint fram borin stjórnarfrumvörp, sem eru á skjön við nútímann og eiga eftir að reynast þjóðinni dýr.

Stjórnarandstaðan mundi sýna þjóðhollustu, ef hún legði stein í götu þessara frumvarpa, bæði með málþófi og á annan hátt. Komið hefur í ljós, að sumir þingmenn geta talað klukkustundum saman og er nú kjörið tækifæri til að nýta þá listgrein.

Ríkisstjórnin með forsætisráðherra í broddi fylkingar virðist halda, að afgreiðsla þessara frumvarpa verði stjórnarflokkunum gott vegarnesti, ef kosningar verða í haust. Þá verði þó hægt að segja, að eitthvað liggi eftir þessa ríkisstjórn.

Þetta er rangt. Miklu frekar verður samþykkt framvarpanna að eins konar myllusteini um háls stjórnarflokkanna. Í hverri viku koma í ljós nýir gallar á frumvörpunum. Og vafalaust getur stjórnarandstaðan vakið rækilega athygli á því í næstu kosningabaráttu.

Versta frumvarpið, sem ríkisstjórnin er að reyna að knýja í gegn, þrátt fyrir mótmæli úr öllum áttum, er það, sem fjallar um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Meira að segja bændur eru á móti því. Og fyrir Sjálfstæðisflokkinn er það pólitískt harakiri.

Slæmur er líka þríhöfða þursinn, sem fjallar um ýmsar nafnbreytingar á starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins, en engar efnislegar breytingar. Þau þrjú framvörp eru tilraun til að klæða þjóðhagslega skaðlega iðju þeirrar stofnunar í nýju fötin keisarans.

Frumvörpin um nafnaskipti á sjóðum atvinnuveganna og ýmis mál bankakerfisins eru ekki eins slæm. Ekki hefur þó neinn treyst sér til að mæla þeim bót á opinberum vettvangi, ekki frekar en öðrum þeim frumvörpum, sem hér hafa verið nefnd. Þetta má allt bíða.

Alþingi er þegar búið að afgreiða flest þau mál, sem geta orðið stofnuninni til sóma eða hindrað vansæmd hennar. Dæmi um hið síðarnefnda eru ný lög um þingsköp, sem eru til þess fallin að gera starfshætti stofnunarinnar þjálari og skynsamlegri.

Annað dæmi er frumvarpið um lánsfjárlögin, sem hlaut loksins afgreiðslu í þessari viku, rétt áður en sól er hæst á lofti og hálfnað tímaskeiðið, sem lögin fjalla um. Það mál verður því ríkisstjórn og stjórnarflokkum ekki til meiri skammar en orðið er.

Frumvarpið um frjálsara útvarp er orðið að lögum, að vísu ekki fyrir tilstilli sameinaðs stjórnarliðs, heldur með óbeinu bandalagi Sjálfstæðisflokksins og Bandalags jafnaðarmanna. Þetta mál tefur ekki lengur fyrir því, að læsa megi dyrum Alþingis.

Ef vilji hefði verið til, hefði mátt nota gærdaginn til að komast að einhverri niðurstöðu í bjórmálinu og forða Alþingi frá vansæmdinni, sem það er að baka sér með margföldum skrípaleik við meðferð málsins. Þá hefði Alþingi raunar haft hreint borð um þessa helgi.

Úr því að ríkisstjórnin er staðráðin í að svala sjálfseyðingarhvöt sinni með þingstörfum í næstu viku, væri hollast að nota allan tíma til að þvæla fram og aftur um bjórinn og ekki hætta fyrr en niðurstaða er fengin. Tími, sem fer í annað, er glataður tími.

Jónas Kristjánsson.

DV